Ógöngur

Gilbert Ryle

Ógöngur

3.490,- / 2.792,-

Ógöngur

Gilbert Ryle

Þýðing: Garðar Á. Árnason sem einnig ritar inngang.

Breski heimspekingurinn Gilbert Ryle er einn af helstu fulltrúum hinnar svokölluðu hversdagsmálsheimspeki, sem er grein af meiði rökgreiningarhefðarinnar í heimspeki á 20. öld. Ryle, sem nam og kenndi við Oxford-háskóla, leitast í verkum sínum við að skýra tengsl hugtaka með því að greina notkun þeirra í daglegu máli. Hann leit svo á að flest heimspekileg vandamál væru til komin vegna einhvers konar misbeitingar tungumálsins, oftar en ekki svokallaðrar „kvíavillu“. Hugmyndin er sú að hugtök megi flokka niður í tilteknar kvíar (e. categories) sem
ákvarða röklega gerð þeirra. Þegar reynt er að beita hugtökum úr tiltekinni kví til að svara spurningum sem kalla á hugtök úr annarri verður útkoman merkingarleysa og heimspekilegur hnútur. Greining á kvíavillum er nauðsynleg til að átta sig á því hvernig slík vandamál eru vaxin og öguð beiting hugtaka lykillinn að lausn þeirra.

Ógöngur eru fyrirlestrar frá 1953 þar sem Ryle beinir sjónum sínum að einni gerð slíkra vandamála, tilfellum þar sem tvær kenningar reynast ósamrýmanlegar án þess að þær séu að leita svara við sömu spurningum. Gjarnan er um að ræða annars vegar vísindalega kenningu, til að mynda skýringar taugalífeðlisfræðings á skynjun, og hins vegar hversdagslega þekkingu okkar á fyrirbæri eins og skynjun, sem er ósamrýmanleg við þá skýringu lífeðlisfræðingsins að skynjun sé ferli í taugakerfi og heila. Í slíku tilfelli, segir Ryle, er lausnin fólgin í því að rannsaka hversdagslega notkun orða á borð við „að sjá“ og „að heyra“ en slík rannsókn leiðir í ljós að slíkar sagnir tilheyra ekki sömu kví og þær sem lýsa ferli eða ástandi og því eiga ekki við skýringar á borð við þá að skynjunin sem við upplifum sé afleiðing ferlis taugaboða eða samsvarandi ferli. Ryle hafði áður tekist með sama hætti á við hið klassíska vandamál um samband líkama og sálar í höfuðverki sínu, Hugtakið hugur, og hér beitir hann hugtakagreiningu sinni meðal annars á þverstæðuna um Akkilles og skjaldbökuna (sú þverstæða er oft kennd við Zenó frá Elea) og vandamálið um frjálsan vilja.

Ógöngum fylgir sjálfsævisöguleg grein höfundar þar sem hann fjallar um lífshlaup sitt en fyrst og fremst hvernig hugsun hans þróaðist. Þá veitir inngangur Garðars Á. Árnasonar fróðlegt yfirlit um sögu þeirra hugmyndastrauma sem Ryle mótaðist af og viðhorf hans til heimspekinnar.

Óraplágan

Slavoj Žižek

Óraplágan

3.490,- / 2.792,-

Óraplágan

Slavoj Žižek

Slóvenski heimspekingurinn, samfélagsrýnirinn og sálgreinandinn Slavoj Žižek hefur vakið heimsathygli fyrir gáskafull skrif sín og fyrirlestra þar sem allt á milli himins og jarðar, og meira til, ber á góma. Nú hefur Žižek komið tvisvar hingað til lands og flutt fjölsótta fyrirlestra um fjölbreytileg hugðarefni sín. Það er samdóma álit fólks að hrein unun sé að hlusta á þetta menningarfyrirbæri – því að það er hann – og enn æðisgengnari upplifun að lesa bækur hans. Sitt sýnist hverjum um sumar óútreiknanlegar tengingar hans, t.a.m. hugmyndafræðina sem hann telur birtast í hönnun klósettskála, en oft virðist hálfur tilgangurinn einmitt vera að skilja fólk eftir ýmist í ráðþrota spurn eða yfirgengilegri hrifningu. Žižek notar skírskotanir í alkunnar kvikmyndir, poppstjörnur, stjórnmál, heimspeki, vísindi, bókmenntir og svo mætti lengi telja, til að framkalla eina allsherjar rússíbanareið ólíkra hugmynda. Óraplágan, í þýðingu Hauks Más Helgasonar á bók Žižeks sem út kom 1997 undir nafninu The Plague of Fantasies, er alls engin undantekning frá þessari lofsamlegu lýsingu. Žižek tekur sér fyrir hendur að greina hina hugmyndafræðilegu óra sem óhjákvæmilega umlykja okkur öll í nútímasamfélagi. Hann telur það vera djúpstæðan misskilning, og mjög útbreiddan, að við lifum á tímum sem eru lausir við alla heildstæða hugmyndafræði. Algengt er að hugsuðir fullyrði að hugmyndafræði, t.d. kommúnismi og frjálshyggja, heyri fortíðinni til og að nú svífum við um í hugmyndafræðilegu tómarúmi. Žižek er á öðru máli og telur þetta vera einbera óra. Sannfæringin um útdauða hugmyndafræðinnar er einmitt óræk vísbending þess að við lifum í þéttriðnara neti hugmyndafræði en nokkru sinni. Hugmyndafræðina má m.a. finna í hönnun klósettskála, ólíkum hefðum kvenna í skapahárarakstri, þeim kynlífsstellingum sem okkur eru hugleiknastar og öryggisleiðbeiningum í flugvélum. Í slíkum hversdagslegum fyrirbærum má finna þjóðareinkenni og hugmyndafræði sem skilur að okkur og hina, sem gera hlutina öðru vísi og geta því verið viðfang útskúfunar og ofsókna. Við kennum „hinum“ (sem getur vísað til hinna ýmsu minnihlutahópa) um það sem miður fer og höfum á tilfinningunni að þeir séu djöflar sem toga í spottana á bak við tjöldin. Óhugsandi er að flýja undan þessari hugmyndafræði. Hér er á ferðinni stórskemmtileg bók sem kemur hugmyndum lesandans á sífellda hreyfingu.

Verkinu fylgir skemmtilegur inngangur sem setur Órapláguna m.a. í samhengi við önnur rit Žižeks og gerir nokkra grein fyrir megindráttunum í margslunginni heimspeki hans.

Orðræða um aðferð

René Descartes

Orðræða um aðferð

3.490,- / 2.792,-

Orðræða um aðferð

René Descartes

Þýðing: Magnús G. Jónsson.

Inngang ritar Þorsteinn Gylfason.

Franski heimspekingurinn René Descartes var án nokkurs vafa einn mesti hugsuður allra tíma. Sögulegt mikilvægi hans fyrir heimspeki og vísindabyltingu 17. aldar dylst engum, en verk hans eru ekki síður víðlesin á okkar dögum vegna frumlegra og hugvitssamlegra röksemda sem eiga enn virkan hlut í umræðu um ýmis sígild vandamál heimspekinnar. Descartes er, með nokkurri einföldun, nefndur faðir rökhyggjunnar á nýöld og í verkum sínum leitast hann við að móta nýjan hugsunarhátt og aðferðafræði sem skyldi verða þekkingarlegur grundvöllur allra vísinda.

Orðræða um aðferð, frá 1637, er eitt af höfuðverkum Descartes. Það ber það aðalsmerki hans að stíll og framsetning eru hvarvetna óbrotin og skýr og er ritið því aðgengilegra en ýmis önnur meginrit heimspekisögunnar. Orðræðan var upphaflega inngangur að stærra verki sem samanstóð af þremur ritgerðum til viðbótar, um ljósfræði, háloftafræði og rúmfræði, þar sem höfundurinn notaði í verki þá aðferðafræði sem hann setti fram í Orðræðunni. Meðal þeirra nýjunga sem fram komu við beitingu hinnar nýju aðferðar var einföldun á táknkerfi stærðfræðinnar, hnitafræði, uppgötvun tregðulögmálsins og skýringar á ýmsum fyrirbærum ljósfræði, til að mynda ljósbroti og regnboganum. Reglurnar fjórar sem mynda aðferðafræði Descartes virðast í fljótu bragði sáraeinfaldar og sjálfsagðar: að hafa ekkert fyrir satt nema augljóst sé að svo sé, að rekja hvert vandamál sundur í smáþætti, að byrja á einföldum atriðum og fikra sig upp að hinum flóknu og loks að fella ekkert undan og yfirfara allar niðurstöður rækilega. En þegar aðferðin er gaumgæfð með hliðsjón af beitingu Descartes á henni kemur í ljós að kjarni hennar er hugmyndin um smættir, sem er síður en svo sjálfsögð. Viðleitnin til einföldunar sem býr að baki aðferðafræðinni er nátengd þeirri skoðun Descartes að sérhvert eðlisfræðilegt fyrirbæri megi á endanum skýra til fulls með stærðfræðilegri kraftfræði og það er þessi hugmynd um smættir, sem eru svo áberandi í vísindum okkar tíma, sem er að verki þegar hann skýrir til að mynda ljósfræði með kraftfræði og einfaldar rúmfræði í bókstafareikning.

Ýmsar aðrar meginhugmyndir Descartes koma fram í þessu riti. Þeirra á meðal eru vélhyggja um alla efnishluti og sú kenning að andinn sé til sem veruleiki óháður líkamanum, og raunar sé sjálfstæð tilvist sjálfsins öruggur grundvallarpunktur allrar þekkingar. Margar þessara hugmynda ollu frá upphafi hörðum en frjóum ágreiningi og lýsir Þorsteinn Gylfason í vönduðum inngangi að Orðræðu um aðferð aðalatriðum frumspeki Descartes, auk aðferðafræðinnar í samhengi við hræringar vísinda og heimspeki
nýaldar.

Einnig hefur annað höfuðrit Descartes, Hugleiðingar umfrumspeki, komið út í Lærdómsritaröðinni.

Orðræða um frumspeki

Gottfried Wilhelm Leibniz

Orðræða um frumspeki

3.490,- / 2.792,-

Orðræða um frumspeki

Gottfried Wilhelm Leibniz

Þýðing: Gunnar Harðarson.
Inngang ritar Henry Alexander Henrysson.

Gottfried Wilhelm Leibniz var einn merkasti heimspekingur nýaldar og fjölfræðingur sem lagði drjúgan skerf til rannsókna samtíma síns á sviðum eðlisfræði, verkfræði, jarðfræði, guðfræði, sagnfræði og ekki síst stærðfræði þar sem hann var frumkvöðull rannsókna í tölfræði og örsmæðareikningi, auk fleiri greina. Það eru þó heimspekirit fjölfræðingsins sem halda nafni hans á lofti í dag og koma þrjú þeirra út í þessu bindi: Orðræða um frumspeki, Nýtt kerfi um eðli verundanna og Mónöðufræðin eða frumforsendur heimspekinnar. Í þessum ritum birtast tilraunir Leibniz til að skýra frumgerð veruleikans, en hið háleita markmið hans var að finna hinn frumspekilega grunn sem sameiginlegur væri allri heimspeki og vísindum.

Orðræða um frumspeki (1686) hefur að geyma yfirlit yfir frumspeki Leibniz og þykir marka upphafið að fullþroska heimspeki hans, sem var þó í sífelldri þróun og hann setti aldrei fram sem heilsteypt kerfi. Í Nýju kerfi um eðli verundanna (1695) birtist greinargerð fyrir eðli verunda og gagnrýni á kenningu Descartes þar að lútandi, auk eigin kenningar Leibniz um einingu sálar og líkama. Mónöðufræðin (1714) fjalla um frumverundir hins efnislega veruleika, sem Leibniz telur vera óefnislegar mónöður, í raun skynjanir og langanir, sem hafa til að bera hið virka afl sem gerir öllum fyrirbærum kleift að ná tilgangi sínum.

Leibniz er, með nokkurri einföldun, talinn til rökhyggjumanna nýaldar og stendur á mörkum skólaspeki miðalda, sem leitaðist við að styðja kristna guðfræði með skynsamlegum rökum, og hinnar nýju vélhyggju, sem beindi sjónum að mælanlegum eiginleikum hluta fremur en eðli þeirra eða tilgangi. Svokallaðar tilgangsorsakir leika þó stórt hlutverk í heimspeki Leibniz. Við erum samkvæmt kenningum hans skynsemisverur, hverra tilgangur það er að velja hinn góða möguleika. Aftur á móti er það lykilatriði í frumspeki Leibniz að mónöðurnar séu fyrirfram samstilltar í eilífu samræmi og að ekkert í sköpunarverkinu geti verið öðruvísi en það er, þar sem Guð hljóti að hafa skapað hinn besta mögulega heim. Þetta atriði er eitt hið þekktasta úr allri heimspeki Leibniz, þökk sé háðsádeilu Voltaires, Birtíngi. Með þessu viðurkennir Leibniz þó ekki algjöra nauðhyggju, því þótt athafnir okkar séu ætíð fyrirsjáanlegar eru þær ekki röklega nauðsynlegar. Við höfum frjálsan vilja í þeim skilningi að við getum hugsað okkur annan möguleika en þann sem við höfum valið, auk þess sem val okkar ræðst af eðlislægum tilhneigingum okkar, það er að segja viljanum.

Bókinni fylgir fróðlegur og skýrandi inngangur eftir Henry Alexander Henrysson.

Öryggi í öndvegi

Lýður Björnsson

Öryggi í öndvegi

3.499,- / 2.799,-

Öryggi í öndvegi

Lýður Björnsson

Safn til iðnsögu Íslendinga. Saga flugvirkjunar á Íslandi.

 

 

Öryggi þjóðar frá vöggu til grafar

Sigurður E. Guðmundsson

Öryggi þjóðar frá vöggu til grafar

6.990,- / 5.592,-

Öryggi þjóðar frá vöggu til grafar

Sigurður E. Guðmundsson

Sigurður E. Guðmundsson var fæddur í Reykjavík árið 1932 og ólst því upp fyrstu ár sín á áratug kreppunnar miklu á síðustu öld. Hann kynntist af eigin raun í uppvextinum kjörum fátækrar verkamannafjölskyldu og húsnæðisskortinum sem alþýðufólk mátti búa við þá og á eftirstríðs árunum. Hann fékk snemma áhuga á stjórnmálum og gekk ungur í Alþýðuflokkinn og var alla tíð síðan sannur og trúr jafnaðar maður, bæði í anda og verki.

Lengst af starfaði hann í opinberri þjónustu hjá Húsnæðisstofnun ríkisins og leiðarstjarna hans þar var að efnalítið fólk ætti raunhæfan kost á góðu og öruggu húsnæði fyrir sig og sína. Hann lagði ætíð mikla áherslu á gildi menntunar fyrir alla, og eftir starfslok lét hann draum sinn rætast og settist að nýju á skólabekk við Háskóla Íslands.

Það var honum ómetanlegt að fá tækifæri til að stunda þar nám í sagnfræði þótt á eftirlaunaaldri væri, og hann lagði sig allan fram og naut þess til hins ítrasta. Ef kostur var á valdi hann sér gjarnan verkefni í náminu sem sneru að kjörum og aðstæðum alþýðunnar og verkafólks á fyrri tíð, og lokaritgerðir hans við skólann fjalla um slík efni. Bók sú sem hér kemur fyrir sjónir er því endapunktur, og um leið hápunkturinn, á lífi og ævistarfi hugsjónamanns.

Perceval

Chrétien de Troyes

Perceval

3.490,- / 2.792,-

Perceval

Chrétien de Troyes

Þýðing: Ásdís R. Magnúsdóttir, sem einnig ritar inngang.

Franska ljóðskáldið Chrétien de Troyes var uppi undir lok 12. aldar. Eftir hann liggja nokkur verk og er Perceval eða Sagan um gralinn hið síðasta. Fátt er vitað um Chrétien annað en það að hann kenndi sig við bæinn Troyes í einu verka sinna og virðist um tíma hafa verið hirðskáld aðalsfólks. Verk hans voru vel þekkt af samtímafólki hans og var hann talinn með fremstu prósaskáldum síns tíma, enda birtist sagan upphaflega á íslensku snemma á 13. öld, að vísu nokkuð stytt. Skrif Chrétiens hafa haft mikil áhrif á þróun miðaldaskáldsögunnar og þetta tiltekna verk hans er talið eitt merkasta bókmenntaverk miðalda. Sagan um gralinn er einnig merkileg fyrir þær sakir að hún er af sumum fræðimönnum talin til fyrstu skáldsagna heimsins.

Sagan um gralinn flokkast undir rómansbókmenntir, sögur sem skrifaðar voru á talmáli en ekki á latínu. Líkt og saga Chrétiens voru rómansbókmenntir einnig oft og tíðum riddarasögur sem sóttu innblástur sinn í ritum Artúr konung, sem voru þá nýlega þýdd af frönskum klerki, og í munnmælasögur og kveðskap úr bretónskum sagnaarfi sem áttu miklum vinsældum að fagna við hirðir konunga og fursta. Ritform Chrétiens varð einstaklega vinsælt og finna má aðrar riddarasögur sem draga dám af verkum hans. Chrétien náði þó ekki að ljúka við Söguna um gralinn og reyndu fjórir ólíkir rithöfundar næstu fimmtíu árin að klára verkið með viðaukum. Þýðing Ásdísar Magnúsdóttur skilur þó við verkið þar sem Chrétien sjálfur skildi við það og leyfir þannig íslenskum lesendum að glíma við mögulega eftirmála sögunnar upp á eigin spýtur.

Sagan segir frá ungum og einföldum dreng, Perceval, sem elst upp hjá móður sinni í skógum Wales langt frá siðmenningunni. Þar rekst hann hvað eftir annað á riddara og dreymir um að gerast slíkur sjálfur. Gegn vilja móður sinnar ákveður Perceval að ferðast til Artúrs konungs þar sem hann sér fyrir sér glæsta framtíð sem einn af riddurum hringborðsins. Þegar þangað kemur grípur hann tækifæri til að ganga í augun á konunginum og er vígður til riddara. Hann leggst svo í ferðalag í leit að hinum heilaga gral og lendir í ótal ævintýrum. Drengurinn er þó einstaklega ólánsamur og tekst illa að laga lífsreglur móður sinnar að þeim aðstæðum sem ævintýrin leiða hann í. Síðari hluti bókarinnar fjallar um Gauvain, sem var einn af bestu riddurum hringborðsins
og frændi Artúrs konungs. Sú saga er þó töluvert styttri en sú fyrri þar sem Chrétien náði ekki að ljúka við verk sitt.

Ásdís R. Magnúsdóttir hefur þýtt verkið listilega úr frummálinu og ritar einnig fróðlegan inngang að bókinni. Íslenskir lesendur fá því nú tækifæri til að kynnast náið þessu merka riti bókmenntasögunnar.

Pipraðir páfuglar

Sverrir Tómasson

Pipraðir páfuglar

3.900,- / 3.120,-

Pipraðir páfuglar

Sverrir Tómasson

Bók þessi er tvíþætt. Fyrri hluti hennar fjallar um mat og mataræði Íslendinga á miðöldum og er bókmenntaleg leiðsögn um venjur og siði forfeðranna við borðhald. Hún á að sýna hvernig þekking á mataræði hjálpar lesendum fornbókmenntanna að skilja betur manngerðir tímanna og athafnir þeirra sem þá koma við sögu. Maturinn er einnig bundinn við ákveðnar stéttir; höfðinginn og tröllin snæða annað en sauðsvartur almúginn. Síðari hlutinn eru uppskriftir að réttum sem voru á borðum Skarðverja, aðalsmanna í Vestfirðingafjórðungi á 14. og 15. öld. Uppskriftirnar hafa varðveist í lækningabók, sem gerð var að frumkvæði þeirra um 1500.

Dr. Sverrir Tómasson er fyrrverandi prófessor við stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Pyrrhos og Kíneas

Simone de Beauvoir

Pyrrhos og Kíneas

3.700,- / 2.960,-

Pyrrhos og Kíneas

Simone de Beauvoir

„Er ekki fráleitt af Pyrrhosi að fara að heiman aðeins til þess að snúa þangað aftur? Eða af tennisleikaranum að slá í boltann til þess eins að fá hann aftur til baka? Eða af skíðamanninum að fara upp brekku til þess eins að renna sér jafnóðum niður? “

Pyrrhos og Kíneas er fyrsta heimspekiverk Simone de Beauvoir, upphaflega útgefið 1944. Hún markar þar sérstöðu sína sem tilvistarheimspekingur og siðfræðingur með hugleiðingum um stöðu mannsins í heiminum, þrotlausa leit hans að tilgangi, grundvöll siðferðis, mannleg samskipti, tengslamyndun og einstaklingsfrelsi.

Rannsókn á skilningsgáfunni

David Hume

Rannsókn á skilningsgáfunni

3.490,- / 2.792,-

Rannsókn á skilningsgáfunni

David Hume

Þýðandi: Atli Harðarson sem einnig ritar inngang.

Skotinn David Hume var meðal merkustu heimspekinga 18. aldar og telst, ásamt John Locke og George Berkeley, til hinna bresku raunhyggjumanna. Rannsókn á skilningsgáfunni er eitt aðgengilegasta og þekktasta rit hans, þar sem Hume birtir skilmerkilegt yfirlit yfir frumspeki sína, þekkingarfræði og sálarfræði. Heimspeki Humes, og þá einkum þessi bók, hefur þá sérstöðu að áhrif hennar á heimspekisöguna eru í öfugu hlutfalli við það fylgi sem hún hefur notið. Þannig mun Rannsókn á skilningsgáfunni hafa verið innblásturinn að hinu mikla kenningakerfi Kants, sem fann sig knúinn til að reyna að sýna fram á hvernig komist yrði hjá niðurstöðum Humes. Einn umdeildasti þátturinn í kenningum Humes eru rök hans fyrir efahyggju, sem gerð eru skil í þessari bók. Hann lítur svo á að mannleg þekking skiptist í þekkingu á staðreyndum annars vegar, sem við öðlumst í gegnum reynslu, og hins vegar þekkingu á venslum hugmynda, en hana er hægt að leiða í ljós með hugsuninni einni saman. Á þeim staðreyndum sem við ályktum um út frá öðrum staðreyndum en höfum enga reynslu af útaf fyrir sig er á hinn bóginn, að mati Humes, ekki hægt að hafa neina þekkingu. Þannig er til að mynda engin skynsamleg ástæða til að ætla að náttúran haldi áfram að fara eftir þeim lögmálum sem hún hefur gert hingað til. Þótt sólin hafi komið upp á hverjum morgni fram að þessu gefur það okkur ekki tilefni til að álykta að hún geri það einnig í fyrramálið.

Hume boðar þó ekki að menn skuli haga lífi sínu til samræmis við svo rótttæka efahyggju. Hann lítur svo á að slíkt væri ómögulegt, því vissar skoðanir séu öllu fólki eðlislægar og ómótstæðilegar, þar á meðal ályktanir um að orsakalögmál séu að verki í náttúrunni, þótt þær eigi sér enga skynsamlega réttlætingu. Þarna býr að baki sú kenning að hugsanir og athafnir manna eigi sér náttúrulegar orsakir og endurómur af þeirri lífssýn Upplýsingarinnar að upphefja það sem talið er náttúrulegur eiginleiki á kostnað hins áunna. Hume taldi að efahyggja sín myndi á endanum verða til góðs – því þótt ómögulegt væri að lifa samkvæmt henni, gætu rök hans leitt fólki fyrir sjónir á hve veikum grunni það byggði þekkingu sína og þannig alið á hóflegri efahyggju og varfærni í skoðanamyndun.

Bókin hefur að geyma, auk fróðlegs inngangs Atla Harðarsonar, stutta sjálfsævisögu höfundarins sem hann ritaði á dánarbeði árið 1776.

Rasmus Kristian Rask

Kirsten Rask

Rasmus Kristian Rask

4.200,- / 3.360,-

Rasmus Kristian Rask

Kirsten Rask

„Ef þú vilt fullkominn vera í fróðleik þá nem þú allar tungur, en týn þó eigi að heldur þinni tungu.“

Rasmus Kristian Rask (1787–1832) var einstakur hæfileikamaður og eldsál. Þekkt víða um lönd eru tungumálakunnátta hans og framlag til samanburðarmálfræði en hann var auk þess sérstakur áhugamaður um íslenska tungu og hafði mikil áhrif á íslenska málhreinsun á 19. öld og þróun tungunnar í átt til málstaðals 20. aldar. Rask var frumkvöðullinn á bak við Hið íslenska bókmenntafélag sem enn stendur í blóma. En þrátt fyrir þessa miklu og varanlegu arfleifð var hann fjarri því að vera óumdeildur á sínum tíma og í þessu riti er meðal annars lýst ýmsum átökum og erfiði í lífi hans.

Raunveruleiki hugans er ævintýri

Guðrún Steinþórsdóttir

Raunveruleiki hugans er ævintýri

4.500,- / 3.600,-

Raunveruleiki hugans er ævintýri

Guðrún Steinþórsdóttir

„Án ímyndunaraflsins kæmist ég ekkert“

Sögur Vigdísar Grímsdóttir eru þekktar fyrir að vekja upp margvíslegar tilfinningar og kynda undir ímyndunarafli lesenda. Í bókinni Raunveruleiki hugans er ævintýri er fjallað um valdar sögur skáldkonunnar, einkenni þeirra og viðtökur í ljósi hugrænnar bókmenntafræði. Rætt er um ímyndunarafl og sköpunarhæfni persóna, hugað að einkaheimum þeirra, ímynduðum vinum, sjálfsblekkingu, samlíðan og valdabaráttu auk þess sem gefinn er gaumur að þemum eins og ást, í margvíslegum myndum, og þrá sem ekki er unnt að uppfylla.

Lesandinn er einnig í brennidepli. Gerð er grein fyrir eigindlegum rannsóknum á tilfinningaviðbrögðum og samlíðan raunverulegra lesenda andspænis persónum og aðstæðum í skáldskap Vigdísar. Til dæmis er skoðað hvaða tilfinningar vakna við lesturinn, hvernig lesendur nýta ímyndunaraflið og sköpunarhæfnina þegar þeir fylla inn í eyður verkanna sem þeir lesa og búa sér til bakgrunnssögur um persónur og sögusvið og hvernig þeim gengur að ferðast inn í söguheima sagnanna.

Rætur Völuspár

Pétur Pétursson og Þórhallur Eyþórsson

Rætur Völuspár

3.500,- / 2.800,-

Rætur Völuspár

Pétur Pétursson og Þórhallur Eyþórsson

Völuspá er mikilfenglegasta kvæði norrænna miðalda og í þessari bók eru átta greinar frá málþinginu „Völuspá — Norrænn dóms­dagur“. Fjallað er um rannsóknir á miðaldatextum með áherslu á nýjar rannsóknir á Völuspá og tengsl kvæðisins við myndræna túlkun miðalda svo og frásagnir er fjalla um  endalok heimsins, dómsdag, nýjan himin og nýja jörð. Ýmsum spurningum um slík efni er svarað í þessari bók, þótt hún sé aðeins skref á langri og heillandi leið.

Ritstjórar eru Pétur Pétursson og Þórhallur Eyþórsson.

Réttarkerfi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins

Sigurður Líndal og Skúli Magnússon

Réttarkerfi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins

3.990,- / 3.192,-

Réttarkerfi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins

Sigurður Líndal og Skúli Magnússon

Bókin hefur að geyma stutta og aðgengilega lýsingu á meginatriðum réttarskipunar Evrópusambandsins (ESB) og Evrópska efnahagssvæðisins (EES) án þess að gert sé ráð fyrir sérstakri kunnáttu eða undirbúningi lesandans. Í umfjölluninni er tekið mið af þeim breytingum sem orðið hafa á regluverki ESB eftir gildistöku Lissabonsáttmálans þann 1. desember 2009. Áhersla er lögð á þau atriði sem lúta að stjórnskipun, grundvallarreglum og stofnunum ESB og EES. Víða er vikið að efnisreglum með dæmum, einkum reglum um innri markað ESB.

Bókin hefur meðal annars verið samin með það fyrir augum að geta nýst sem kennsluefni í grunnnámskeiðum um ESB- og EES-rétt. Texti bókarinnar skiptist í meginmál og ítarefni til þess að gera hann aðgengilegri. Vísað er til valdra heimilda og ítarefnis (með áherslu á efni á íslensku) í lok hvers kafla og þar er einnig að finna spurningar til upprifjunar og umræðu, sem bæði geta nýst við kennslu og við prófundirbúning.

Útgáfuár: 2011

Réttarsöguþættir

Sigurður Líndal

Réttarsöguþættir

3.890,- / 3.112,-

Réttarsöguþættir

Sigurður Líndal

Réttarsagan hefur það hlutverk að lýsa rétti liðins tíma, gera grein fyrir uppruna hans og þróun, ekki síst hvernig einstakar réttarreglur, réttarstofnanir og réttarskipanin í heild hefur tekið breytingum eða staðist óbreytt í rás tímanna. Sérstaklega ber þeim sem fást við réttarsögu að leita skýringa á því hvaða öfl það einkum séu sem öðrum fremur hafa ráðið þróun réttarins og mótað hann.

Útgáfuár: 2012

Ríki og kirkja

Sigurjón Árni Eyjólfsson

Ríki og kirkja

3.745,- / 2.996,-

Ríki og kirkja

Sigurjón Árni Eyjólfsson

Uppruni og þróun þjóðkirkjuhugtaksins

Á Íslandi hefur lengi vantað guðfræðilega úttekt á sambandi ríkis og kirkju og þeirri hugmyndafræði sem býr að baki fyrirkomulagi þjóðkirkjunnar. Hér er sögð saga evangelísk-lúthersks kirkjuskilnings, allt frá dögum Marteins Lúthers til Friedrichs Schleiermachers, og þaðan þræðir raktir til nútímans með vangaveltum um hlutverk kirkjunnar í fjölhyggjusamfélagi.

Uncategorized

Showing 177–192 of 308 results