Orðræða um aðferð

René Descartes

Orðræða um aðferð

3.490,- / 2.792,-

Orðræða um aðferð

René Descartes

Þýðing: Magnús G. Jónsson.

Inngang ritar Þorsteinn Gylfason.

Franski heimspekingurinn René Descartes var án nokkurs vafa einn mesti hugsuður allra tíma. Sögulegt mikilvægi hans fyrir heimspeki og vísindabyltingu 17. aldar dylst engum, en verk hans eru ekki síður víðlesin á okkar dögum vegna frumlegra og hugvitssamlegra röksemda sem eiga enn virkan hlut í umræðu um ýmis sígild vandamál heimspekinnar. Descartes er, með nokkurri einföldun, nefndur faðir rökhyggjunnar á nýöld og í verkum sínum leitast hann við að móta nýjan hugsunarhátt og aðferðafræði sem skyldi verða þekkingarlegur grundvöllur allra vísinda.

Orðræða um aðferð, frá 1637, er eitt af höfuðverkum Descartes. Það ber það aðalsmerki hans að stíll og framsetning eru hvarvetna óbrotin og skýr og er ritið því aðgengilegra en ýmis önnur meginrit heimspekisögunnar. Orðræðan var upphaflega inngangur að stærra verki sem samanstóð af þremur ritgerðum til viðbótar, um ljósfræði, háloftafræði og rúmfræði, þar sem höfundurinn notaði í verki þá aðferðafræði sem hann setti fram í Orðræðunni. Meðal þeirra nýjunga sem fram komu við beitingu hinnar nýju aðferðar var einföldun á táknkerfi stærðfræðinnar, hnitafræði, uppgötvun tregðulögmálsins og skýringar á ýmsum fyrirbærum ljósfræði, til að mynda ljósbroti og regnboganum. Reglurnar fjórar sem mynda aðferðafræði Descartes virðast í fljótu bragði sáraeinfaldar og sjálfsagðar: að hafa ekkert fyrir satt nema augljóst sé að svo sé, að rekja hvert vandamál sundur í smáþætti, að byrja á einföldum atriðum og fikra sig upp að hinum flóknu og loks að fella ekkert undan og yfirfara allar niðurstöður rækilega. En þegar aðferðin er gaumgæfð með hliðsjón af beitingu Descartes á henni kemur í ljós að kjarni hennar er hugmyndin um smættir, sem er síður en svo sjálfsögð. Viðleitnin til einföldunar sem býr að baki aðferðafræðinni er nátengd þeirri skoðun Descartes að sérhvert eðlisfræðilegt fyrirbæri megi á endanum skýra til fulls með stærðfræðilegri kraftfræði og það er þessi hugmynd um smættir, sem eru svo áberandi í vísindum okkar tíma, sem er að verki þegar hann skýrir til að mynda ljósfræði með kraftfræði og einfaldar rúmfræði í bókstafareikning.

Ýmsar aðrar meginhugmyndir Descartes koma fram í þessu riti. Þeirra á meðal eru vélhyggja um alla efnishluti og sú kenning að andinn sé til sem veruleiki óháður líkamanum, og raunar sé sjálfstæð tilvist sjálfsins öruggur grundvallarpunktur allrar þekkingar. Margar þessara hugmynda ollu frá upphafi hörðum en frjóum ágreiningi og lýsir Þorsteinn Gylfason í vönduðum inngangi að Orðræðu um aðferð aðalatriðum frumspeki Descartes, auk aðferðafræðinnar í samhengi við hræringar vísinda og heimspeki
nýaldar.

Einnig hefur annað höfuðrit Descartes, Hugleiðingar umfrumspeki, komið út í Lærdómsritaröðinni.

Orðræða um aðferð

3.490 kr.