Hér má nálgast FRÉTTABRÉFIÐ okkar á pdf-formi

 

Sverrir Kristinsson kjörinn heiðursfélagi 

Á aðalfundi Hins íslenska bókmenntafélags þann 17. nóvember var lögð fram einróma tillaga forseta og fulltrúaráðs að  Sverrir Kristinsson yrði gerður að heiðursfélaga Bókmenntafélagsins í virðingar- og viðurkenningarskyni. Var það samþykkt með lófataki. Hið íslenska bókmenntafélag þakkar honum farsæl störf sem bókavörður félagsins í hálfa öld og mikilvægt framlag hans til eflingar menningarlegri bókaútgáfu á Íslandi á sviði bókmennta, sögu, minja og myndlistar.

sverrir_heiðursfélagi

 

Aðalfundur Hins íslenska bókmenntafélags 2018

verður haldinn á Hótel Sögu, 2. hæð í Heklu II, laugardaginn 17. nóvember kl. 14:30

Dagskrá:
1. Venjuleg aðalfundarstörf, sbr. 18.–20. gr. félagslaga.
2. Kosning heiðursfélaga, sbr. 23. gr. félagslaga.

Erindi:
Að loknum aðalfundarstörfum flytur Haraldur Bernharðsson, dósent við Háskóla Íslands, erindi sem hann kallar Umhverfi íslenskrar tungu 1818, 1918 og 2018. Fyrirspurnir og umræður að erindi loknu. Félagsmenn eru hvattir til þess að fjölmenna og þiggja kaffiveitingar í boði félagsins.

Stjórn og fulltrúaráð.

 

 

Svipmyndir af nokkrum forvígismönnum í 200 ára sögu Hins íslenska bókmenntafélags.
Úr dagskrá sem flutt var á afmælishátíð Bókmenntafélagsins í Ráðhúsi Reykjavík þann 19. nóvember 2016.

 

GAMMA gerist bakhjarl Hins íslenska bókmenntafélags

Bókmenntafélagið fagnar 200 ára afmæli sínu með veglegri dagskrá, sem hófst með undirritun samstarfssamnings við GAMMA Capital Management þann 16. mars 2016. Með samningnum gerist Gamma bakhjarl félagsins næstu fjögur ár og styrkir félagið um 20 milljónir króna á því tímabili. Meginmarkmið samningsins er að styðja við útgáfu félagsins og gera því kleift að halda upp á afmælisárið með sérstökum viðburðum og útgáfustarfi, sem og að efla starf þess til framtíðar litið.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra flutti ávarp á kynningarfundinum í höfuðstöðvum GAMMA við Garðastræti 37 og hljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands, leiddir af Nicola Lolli, konsertmeistara hljómsveitarinnar, fluttu strengjakvartett í E-dúr eftir Franz Schubert, frá stofnári Bókmenntafélagsins, 1816.

Við sama tækifæri kynnti Jón Sigurðsson, forseti félagsins, nýja Twitter-síðu bókmenntafélagsins og ritaði fyrstu færslu félagsins á þeim vettvangi.

Tilgangur Bókmenntafélagsins í þau 200 ár sem það hefur starfað er að styðja og styrkja íslenska tungu, bókvísi og menntun og heiður hinnar íslensku þjóðar, bæði með bókum og öðru eftir því sem efni þess fremst leyfa. Félagið hefur gefið út tímaritið Skírni frá árinu 1827 og er það eitt elsta menningartímarit á Norðurlöndum.