Helgakver
Helgi Hálfdánarson
Inngang ritar Einar Sigurbjörnsson.
Kristilegur barnalærdómur eftir lúterskri kenningu eftir séra Helga Hálfdánarson prestaskólakennara kom út árið 1877. Árið eftir var það gert að löggiltu fermingarkveri, hinu fyrsta eftir íslenskan höfund, og var prentað ásamt nýrri þýðingu Helga á Fræðunum minni eftir Martein Lúther, sem fylgja einnig þessari útgáfu kversins. Ritinu, sem hefur frá upphafi í daglegu tali gengið undir nafninu „Helgakver“, var ætlað að svara þörfinni fyrir skýrt og aðgengilegt fræðslurit fyrir unglinga, sem á Íslandi áttu fæstir kost á tilsögn lærðra kennara. Varð það ráðandi í fermingarfræðslu allt fram undir 1930 og mótaði því að miklu leyti trúarskilning landsmanna um fimmtíu ára skeið og fram eftir öldinni.
Helgi Hálfdánarson var vinsæll og virtur kennari, skáldmæltur og lét eftir sig fjölda frumortra og þýddra sálma, auk þess sem hann sat um tíma á Alþingi. Höfundareinkenni Helgakvers eru fyrst og fremst tær og greinileg framsetning Helga á grundvallaratriðum kristindómsins, lipur og aðgengilegur stíll hans og skarpur skilningur á trúarsetningunum.
Kverið skiptist í tvo hluta. Fyrstur er „Trúarlærdómur“ þar sem fjallað er skipulega um trúaratriðin samkvæmt efnisskiptingu trúarjátningarinnar, um tilvist Guðs, eiginleika hans og heilaga þrenningu, sköpunina og kristinn mannskilning, þá um endurlausnarverk Jesú Krists, náðarverk hins heilaga anda og loks um dauðann og hinn hinsta dóm. Síðari hlutinn, „Siðalærdómur“, fjallar um kristilega siðfræði, sér í lagi um fyrirmyndina í Jesú, eðli dyggða og skyldu og hinar ólíku skyldur okkar gagnvart Guði, sjálfum okkur, öðrum mönnum og samfélaginu öllu. Skilningur Helga á trú og siðgæði var sá að trúin væri hið persónulega samband hvers og eins við guðdóminn. Siðgæðið væri hins vegar breytnin, ávöxtur hinnar innri trúar, sem verður að lífi þar sem hið góða er ráðandi. Hvort er þó hinu ætíð nauðsynlega undirorpið.
Kverið féll úr almennri notkun með tilkomu nýrra sjónarmiða í fræðslumálum og guðfræði. Utanbókarlærdómur sem kennsluaðferð sætti gagnrýni, sem og framsetning sem einkenndist um of af kreddufestu. Engu að síður má þessi kennslubók í kristnum fræðum teljast merkileg, bæði sem heimild um trúarlegt uppeldi Íslendinga fyrr á tímum, en einnig efnislega, sem útlagning á hinni kristnu kennisetningu. Þá hafa hin minni fræði Lúthers að geyma þau almikilvægustu grundvallaratriði trúarinnar sem guðfræðingurinn mikli taldi hvert mannsbarn verða að þekkja.
Einar Sigurbjörnsson rekur útgáfusögu beggja verka, og sögu slíkra kvera almennt, skilmerkilega í fróðlegum inngangi.