Frændi Rameaus
Denis Diderot
Þýðing: Friðrik Rafnsson sem einnig ritar inngang.
Franski heimspekingurinn Denis Diderot er einn hinn þekktasti þeirra hugsuða sem kenndir eru við upplýsingu 18. aldar og einna frægastur sem annar ritstjóri Alfræðiorðabókarinnar
frönsku. Líkt og margir helstu höfundar þeirra tíma skrifaði Diderot um fjölmörg efni, allt frá listfræðum til raunvísinda, að ógleymdum skáldverkum hans. Frændi Rameaus er annað af tveimur höfuðverkum Diderots, að Alfræðiorðabókinni frátalinni, og hefur hitt, Jakob forlagasinni og meistari hans, einnig komið út í íslenskri þýðingu. Verkið ber undirtitilinn satýra og í því bregður höfundurinn upp aldarspegli þar sem deilt er á offágun og hræsni samtímamanna sinna, einhæfa skapgerð þeirra, og á þá sem lifa sníkjulífi og ýmist skríða fyrir öðrum eða vilja láta skríða fyrir sér. Að forminu til er Frændi Rameaus heimspekileg samræða þar sem sögumaður hittir fyrir sérvitring nokkurn, frænda hins merka tónskálds Rameaus, sem hefur skoðað samfélagið frá ýmsum hliðum, hafst við með aðalsfólki og betlað á götum úti, og veit að lestirnir leynast víða. Diderot var rómaður fyrir samræðusnilld sína og ber hið lifandi en þrauthugsaða samtal heimspekingsins og furðufuglsins henni ótvírætt vitni. Frændinn reynist vita ýmislegt umfram heimspekinginn og staða þeirra hvors gagnvart hinum verður æ óljósari eftir því sem líður á samræðuna, enda býr að baki sú ætlun Diderots að skekja stoðir ríkjandi gildismats með það viðhorf að leiðarljósi að hver maður sé sérstakur og eigi jafnan rétt til lífs og virðingar – og til að láta í sér heyra. Eins og kunnugt er átti Diderot sinn þátt í að smíða hugmyndagrunn frönsku byltingarinnar sem boðberi jafnréttis og lýðræðis.
Eitt mikilvægasta viðfangsefni samræðunnar eru þær hræringar í frönsku tónlistarlífi sem áttu sér stað um þessar mundir. Hart var deilt um gildi hefðbundinnar franskrar tónlistar andspænis léttari tónlist af ítölskum meiði, sem var að ryðja sér til rúms. Frændi Rameaus er merk heimild um umbrot í listalífi 18. aldar, en ekki síður þykja athyglisverð viðhorf Diderots sjálfs til tónlistarinnar. Samræðan leiðist svo inn á ýmsar brautir og þar er fjallað um visku og fávisku, réttlæti og ranglæti, snilligáfu og vitfirringu, kynlíf óperusöngkvenna og fleira sem höfundinum var hugleikið.
Friðrik Rafnsson segir í upplýsandi inngangi meðal annars frá dularfullri útgáfusögu verksins, skotspónum Diderots og menningarlífi Parísar þegar hann var uppi.