Um holdgun orðsins

Aþanasíus frá Alexandríu

Um holdgun orðsins

3.490,- / 2.792,-

Um holdgun orðsins

Aþanasíus frá Alexandríu

Þýðing: Kristinn Ólason. Inngang ritar Einar Sigurbjörnsson.

Aþanasíus biskup í Alexandríu , einn kirkjufeðranna, var einn áhrifamesti hugsuður frumkristninnar. Hugmyndir hans um eðli heilagrar þrenningar höfðu mótandi áhrif á helstu kennisetningar kirkjunnar og má t.d. sjá merki þeirra í trúarjátningu kristinna manna nútímans.

Um kvikmyndalistina

Rudolf Arnheim

Um kvikmyndalistina

3.490,- / 2.792,-

Um kvikmyndalistina

Rudolf Arnheim

Þýðing: Björn Ægir Norðfjörð sem einnig ritar inngang.

Er kvikmyndagerð listgrein eða afþreyingariðnaður? Sumt list, annað ekki? Í hverju felast listrænir eiginleikar
kvikmyndarinnar? Höfundur Um kvikmyndlistina (e. Film as art), Rudolf Arnheim (1904-2007) var þekktur kvikmyndarýnir.

Um lög

Tómas af Aquino

Um lög

3.490,- / 2.792,-

Um lög

Tómas af Aquino

Þýðandi: Þórður Kristinsson.
Inngang ritar Garðar Gíslason.

Með útgáfu þessarar bókar kemur í fyrsta sinn út á íslensku heildstæður hluti af verkum Tómasar af Aquino, sá hluti stórvirkisins Summa Theologiæ sem snýr að eðli  laga. Höfundurinn var merkasti skólaspekingur og guðfræðingur miðalda, hann tilheyrði reglu Dóminíkana og ritaði hin umfangsmiklu og gríðarlega áhrifamiklu verk sín á síðari hluta 13. aldar. Felast áhrif Tómasar á kristna trú, heimspeki og samfélag fyrst og fremst í því að hann tókst á hendur að samþætta kennisetningar kristninnar og forngríska heimspeki, sér í lagi kenningar Aristótelesar. Hann var þeirrar skoðunar að ýmis atriði trúarinnar mætti styðja skynsamlegum rökum og ætlaði sér með Summa Theologiæ að setja fram á nýjan og skýrari hátt byggingu gervallrar guðfræðinnar. Verk hans bera að miklu leyti uppi trúfræði hinnar rómversk-kaþólsku kirkju.

Um lög er í senn lögspekirit, siðfræði og guðfræði og er kafli úr öðrum hluta Summa Theologiæ en hefð er fyrir því að gefa hann út sem sjálfstætt rit. Hér er fengist við siðferðislíf mannsins og takmark tilveru hans og byggir Tómas vitaskuld á siðfræði Aristótelesar. Höfuðspurningin sem höfundur leitast við að svara í ritinu lýtur að eðli laga, áhrifum þeirra og tegundum, sem Tómas greinir í eðlislög eða náttúrulög, eilíf lög, lög manna og guðslög.
Lög eru, í huga Tómasar, fjarri því að vera reglur sem valdhafar þvinga uppá fólk í því skyni að halda því í skefjum, heldur „ráðstöfun skynseminnar sem skipar til almannaheillar“.  Hin svokölluðu eilífu lög eru fólgin í skipan heimsins, stjórn hans samkvæmt guðlegri forsjá, en eðlislögin birtast í skynsemi mannsins og siðferðisvitund. Þannig birtast hin eilífu lög í skynsemisverum. Lög mannanna eru aftur á móti nánari útfærsla á eðlislögum en Guðslögin þau sem Guð hefur birt mönnum opinberlega í Biblíunni og með boðorðum sínum.

Sú kenning að lögin séu óháð mannlegu valdi og mönnum ekki í sjálfsvald sett – það sem Tómas kallar eðlislög en nefnast oftar náttúruréttur – hefur komið fram í ýmsum myndum fyrir tíma Tómasar og fram á okkar daga, og jafnan verið umdeild. Hér er hún sett fram á hvað skýrastan og kunnastan hátt með þeim röksemdum að réttlát lagasetning löggjafa bindi samviskuna, með því að þau hljóti kraft sinn frá hinum eilífu lögum. Þeim lögum sem séu skynsamleg, í samræmi við þá skipan sem birtist í eðli mannsins, beri að hlýða en ranglátum lögum, sem löggjafinn setur í öðru skyni, ekki sökum þess eins að þau séu sett af valdhafa með formlega réttum hætti.

Um lög kemur út með fróðlegum inngangi Garðars Gíslasonar þar sem ritið er sett í samhengi við lífshlaup og samtíma heilags Tómasar og helstu atriði verksins eru skýrð. Gagnlegir viðaukar fylgja í bókarlok.

Um lög og lögfræði

Sigurður Líndal

Um lög og lögfræði

4.900,- / 3.920,-

Um lög og lögfræði

Sigurður Líndal

Í bók þessari er leitast við að skýra nokkur grundvallaratriði í lögskipan þjóðfélagsins með megináherslu á helstu réttarheimildir. Þau fræði sem hér er fjallað um og kalla má inngangsfræði, hafa þá sérstöðu að ná með einum eða öðrum hætti til allra sérgreina lögfræðinnar og hafa að auki náin tengsl við greinar utan hennar svo sem guðfræði, heimspeki, þar á meðal rökfræði, siðfræði og túlkunarfræði, við sagnfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði og sálfræði og er þó engan veginn allt talið. Megináherslan er á gildandi lögskipun, en að auki er gerð grein fyrir sögulegum og stjórnspekilegum rótum hennar.

Kaflaheiti eru þessi: Grundvöllur laga, Réttarheimildir, Settur réttur, Kjarasamningar, Réttarvenja – venjuréttur, Fordæmi, Viðauki – um heimild dómstóla til að setja lög, Stjórnsýslufordæmi, Meginreglur laga og Eðli máls. Þetta er 2. útgáfa bókarinnar, lítillega endurskoðuð.

Um mildina

Lucius Annaeus Seneca

Um mildina

3.700,- / 2.960,-

Um mildina

Lucius Annaeus Seneca

„Ekki þarf hann að reisa há borgarvirki eða múra um brattar hæðir til að verjast árás, né brjóta af hlíðum fjalla, byggja um sig margfalda múra og reisa turna. Mildin færir konungi öryggi fyrir opnum tjöldum. Ástúð þegnanna ein er vörn sem ekkert sigrar.“

Seneca ritaði Um mildina sem leiðsagnarrit fyrir hinn unga keisara Nero, fyrrum nemanda sinn, skömmu eftir að hann komst til valda. Hann leggur þar áherslu á þá kosti sem góður stjórnandi þarf að hafa til að bera eins og mildi og sanngirni og byggir þar á stóuspekihugmyndum sem einkenndu hugsun hans. Hér birtist þýðing Hauks Sigurðssonar úr latínu auk ítarlegs inngangs hans og skýringa.

 

Um sálgreiningu

Sigmund Freud

Um sálgreiningu

3.490,- / 2.792,-

Um sálgreiningu

Sigmund Freud

Þýðing: Maia Sigurðardóttir.

Inngang ritar Símon Jóh. Ágústsson.

Árið 1909 var Sigmund Freud boðið til Bandaríkjanna til að flytja fimm erindi við Clark-háskóla á 20 ára afmæli skólans og birtast þau í þessu riti. Erindi Freuds veita alþýðlegt og greinargott yfirlit um uppruna sálgreiningarinnar og helstu atriðin í hinni frægu kenningu höfundarins. Helstu umfjöllunarefni hans hér eru eðli kynhvatarinnar, tilfinningalíf barna, sefasýki og túlkun drauma.

Mikilvægi framlags Freuds til sálarfræðinnar og áhrif kenninga hans á mannskilning og lífssýn nútímamanna dyljast engum. Þótt ýmsar tilgátur hans séu umdeildar og aðrar taldar afsannaðar er aðferðum hans enn beitt í ríkum mæli á sviði sállækninga og hugtakakerfi hans hefur öðlast fastan sess meðal sálfræðinga. Mikilvægi Freuds felst ekki síst í þeim áhrifum sem hann hafði á samstarfsmenn sína og sporgöngumenn sem nýttu innsæi hans og frjóa hugsun til nýrrar kenningasmíðar. Það má því segja að hann hafi lokið upp dyrunum að nýrri og víðari sýn á sálarlíf mannsins en fyrir hafði verið.
Kjarninn í kenningu Freuds felst í aðgreiningu persónuleikans í þrjá meginþætti; frumsjálfið (id), sjálfið (ego) og yfirsjálfið (superego). Frumsjálfið leitast við að svala óbeisluðum grundvallarhvötum í samræmi við eitt af meginlögmálum sálarlífsins, vellíðunarlögmálið. Eftir því sem barn þroskast víkur þetta lögmál fyrir veruleikalögmálinu, sem birtist í því að barnið lærir að laga hegðun sína að efnislegum og veraldlegum kröfum. Yfirsjálfið metur síðan gerðir og hugsanir mannsins í samræmi við þau siðaboð sem hafa innhverfst, breyst úr ytri boðum og bönnum í samvisku. Önnur lykilatriði eru sú hugmynd Freuds að persónuleiki manna sé sterkt mótaður af reynslu þeirra í frumbernsku og kenningin um varnarhætti sjálfsins gegn kvíða og vanlíðan, þar á meðal bælingu tilfinninga og minninga, tilfærslu og göfgun. Það vill gleymast, sökum frægðar kenninganna í einfölduðum og afbökuðum myndum, að Freud var læknismenntaður skynsemishyggjumaður sem taldi að allt sálarlíf væri lögmálsbundið og að sálkönnunin færi okkur þekkingu sem bjargi fólki frá því að verða strengjabrúður hvata sinna. Því er þó ekki að neita að kenningar hans eru oft djarfar og ekki lausar við vankanta.

Inngangur Símons Jóh. Ágústssonar veitir greinargóða innsýn í lífshlaup og fræði Freuds, en besti inngangurinn að kenningum sálgreiningarinnar er án efa fyrirlestrarnir sjálfir.

Um sársauka annarra

Susan Sontag

Um sársauka annarra

3.490,- / 2.792,-

Um sársauka annarra

Susan Sontag

Þýðing: Uggi Jónsson

Inngang ritar Hjálmar Sveinsson

Um sársauka annarra er síðasta fræðiverk bandaríska rithöfundarins Susan Sontag. Sontag, sem lést árið 2004, skipaði um áratuga skeið stóran sess í bandarísku menningarlífi. Hún naut mikillar hylli fyrir skarpskyggni, frumleika og hæfileika en skoðanir hennar voru jafnframt umdeildar enda vílaði hún ekki fyrir sér að ganga gegn viðteknum hugmyndum um siðferði, stjórnmál ogsvo nefnda há- og lágmenningu. Hún var menntuð í heimspeki og bókmenntum og lagði meðal annars stund á kvikmyndagerð, skáldskap og menningarrýni – en það voru skrif hennar á því sviði sem gátu henni hvað mesta frægð.

Eitt af þeim fyrirbærum samtímans sem Sontag voru hugleikin var hlutverk ljósmynda í samtímanum, ekki síst þegar þær eru fluttar okkur sem fréttir af hörmungum annarsstaðar í heiminum. Í þessari bók beinir hún sjónum að hinum margræðu og mótsagnakenndu áhrifum sem fréttamyndirnar alltumlykjandi hafa á hina öruggu sem þekkja stríð ekki nema í gegn um þær. Í ljósi sögu mynda af þjáningum og dauða annars fólks, allt frá ættingum Goya og ljósmyndum úr bandarísku borgarastyrjöldinni til sjónvarpsmynda frá hryðjuverkaárásunum á New York og stríðsátökum í Bosníu, Ísrael og Palestínu, greinir hún viðbrögð þeirra sem verða vitni að þjáningum, dauða og grimmd án þess að vera viðstaddir. Þegar myndirnar vekja samúð, eins og þeim er ætlað, fylla þær okkur jafnframt tilfinningu um eigið getuleysi gagnvart hinum ljósmynduðu atburðum sem eilíflega er um seinan að koma í veg fyrir – og gagnvart hörmungunum sem við vitum að okkur berast ekki fréttir af. En þær geta líka orkað sem hvatning til ofbeldis og hefndar, eða slævt samúð okkar, þegar þær berast okkur jafn ört og raun ber vitni. Þá eru ljósmyndirnar ekki berstrípaðar staðreyndir heldur hefur samhengið, það sem okkur er sagt um myndefnið, áhrif á skynjun okkar og viðbrögð; myndirnar eru líka áróðursverkfæri þeirra sem heyja stríðin. Um fjöllun Sontag um þessa þætti og fleiri í siðferðilegu, sálrænu og samfélagslegu hlutverki stríðsljósmynda einkennist af innsæi, næmi og vitsmunalegri ástríðu.

Hjálmar Sveinsson ritar inngang um feril Sontag og tengsl þessa verks við fyrri skrif hennar um lík efni.

Um skáldskaparlistina

Aristóteles

Um skáldskaparlistina

3.490,- / 2.792,-

Um skáldskaparlistina

Aristóteles

Þýðing: Kristján Árnason sem einnig ritar inngang.

Eftir heimspekinginn Aristóteles er varðveittur gríðarlegur fjöldi rita sem spanna flestar þær fræðagreinar sem til voru um hans daga. Áhrif hans á hina svokölluðu skólaspeki miðalda eru vel kunn og hugmyndir hans og hugtök hafa mótað heimspekisöguna allar götur síðan. Um skáldskaparlistina, það rit sem hér birtist, fór þó ekki að njóta hylli fyrr en á nýöld þegar vinsældir skólaspekinnar fóru óðum dvínandi en skáld og listamenn tóku að leita eftir fornum fyrirmyndum.

Þessi bók mun vera elsta heillega ritið sem til er um skáldskaparfræði og er talið vera fyrirlestrar sem Aristóteles flutti fyrir nemendur sína. Þó er glataður seinni hluti verksins, um skopleiki, sem greinilega hefur átt að fylgja í kjölfar greinargerðar Aristótelesar fyrir harmleiknum og söguljóðunum. Í samræmi við aðra heimspeki sína greinir hann náttúrulega þróun harmleiksins, sem stefnir að sínu eiginlega formi, og raunar eru rætur alls skáldskapar að hans mati náttúrulegar: hvöt til að líkja eftir og nautn fólks af eftirlíkingunum, sem tengist eðlislægri þekkingarþrá mannsins. Kenning Aristótelesar um verkan harmleikja er að þeir veiti ákveðna útrás eða kaþarsis fyrir þær vorkunnar- og skelfingartilfinningar sem þeir vekja þegar vel tekst til. Hann telur að harmleikirnir forði þannig fólki frá því að verða ofurselt þessum tilfinningum í eigin lífi og rekur þær aðferðir sem skáldin geta beitt til þess að verkið verði sem best, hvernig sagan skuli vera og hvernig beri að ná fram áhrifum með hvörfum og kennslum.

Aristóteles er því ósammála kennara sínum Platoni, sem taldi skáldskap skaðlegan og vildi úthýsa honum úr fyrirmyndarríki sínu. Þvert á móti lítur Aristóteles svo á að harmleikur feli í sér almenn sannindi, ekki það sem hefur gerst í raun og veru heldur það sem gæti gerst, athafnir og viðbrögð ákveðinnar manngerðar og að hin almennu sannindi séu æðri hinum sértæku sem sagnfræðin greinir frá. Í inngangi að ritinu fjallar Kristján Árnason um meginhugmyndir verksins í samhengi við viðhorf til skáldskapar að fornu og nýju.

Eftir Aristóteles hafa einnig komið út Lærdómsritin Frumspekin I og Siðfræði Níkomakkosar.

Um skáldskaparmenntina

Árni Sigurjónsson

Um skáldskaparmenntina

4.900,- / 3.920,-

Um skáldskaparmenntina

Árni Sigurjónsson

Um skáldskaparmenntina er safn ritgerða eftir Árna Sigurjónsson um bókmenntafræði og mælskufræði. „Þær varpa m.a. ljósi á verk Halldórs Laxness, Níelsar skálda og á ferðafrásagnir“ Íslendinga um Sovétríkin á árunum milli heimsstyrjalda. Þá eru grunnhugtök mælskufræði kynnt en sú grein skipaði veglegan sess í skólum Vesturlanda í margar aldir.

Um skipulag bæja. Aldarspegill

Guðmundur Hannesson o.fl.

Um skipulag bæja. Aldarspegill

5.900,- / 4.720,-

Um skipulag bæja. Aldarspegill

Guðmundur Hannesson o.fl.

Í ár eru liðin hundrað ár frá útkomu ritsins Um skipulag bæja, eftir Guðmund lækni Hannesson, sem olli þáttaskilum í skipulagsvinnu hér á landi. Í tilefni af tímamótunum er verk Guðmundar endurútgefið og jafnframt annað verk sem geymir 5 greinar eftir Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur, Pétur H. Ármannsson, Salvöru Jónsdóttur, Dag B. Eggertsson og þau Sigrúnu Magnúsdóttur og Pál Pétursson, þar sem kallast er á við verk Guðmundar og gaumgefið hversu vel hugmyndir hans hafa staðist tönn tímans.

Um trúarbrögðin

Friedrich Schleiermacher

Um trúarbrögðin

3.490,- / 2.792,-

Um trúarbrögðin

Friedrich Schleiermacher

Þýðing: Jón Árni Jónsson. Inngang ritar Sigurjón Árni Eyjólfsson.

Um trúarbrögðin.  Ræður handa menntamönnum sem fyrirlíta þau er eitt þekktasta rit þýska guðfræðingsins og heimspekingsins Schleiermachers. Með þessu riti blandaði hann sér inn í umræðu um trúarheimspeki sem þá stóð í blóma, á 19. öld. Örfáum árum áður höfðu Johan Gottlieb Fichte og Immanuel Kant skrifað merk rit um eðli trúarinnar, og brást Schleiermacher við umfjöllunum þeirra. Kant skýrði trúarbrögð, í takt við anda upplýsingarinnar, sem kerfi siðaboða og frumspekilegra kenninga. En Schleiermacher leit svo á að þessi skilningur á trú byggðist á kaldri og tilfinningalausri skynsemishyggju. Í Um trúarbrögðin ræðst hann gegn þessum hugmyndum með því að skilgreina trúarbrögð með tilvísun í innstu upplifanir og tilfinningar mannsins.

Hugsun Schleiermachers hefur haft gífurleg áhrif á hugmyndir fólks um trú og trúarheimspeki. Hér birtist kjarni þessara mikilvægu hugmynda hans í læsilegri þýðingu Jóns Árna Jónssonar.

Um uppruna dýrategunda og jurta

Þorvaldur Thoroddsen

Um uppruna dýrategunda og jurta

3.490,- / 2.792,-

Um uppruna dýrategunda og jurta

Þorvaldur Thoroddsen

Inngang og skýringar ritar Steindór J. Erlingsson.

Þorvaldur Thoroddsen jarðfræðingur ritaði á árunum 1887-89 greinaflokk fyrir alþýðu um sögu líffræðinnar og þróunarkenningu Darwins, til birtingar í Tímariti Hins íslenzka bókmenntafélags, en Þorvaldur var á þeim tíma einhver fremsti náttúrufræðingur Íslands. Hann var einn Íslendinga á sínum dögum til að nema náttúrufræði við Hafnarháskóla, stundaði umfangsmiklar rannsóknir á náttúru Íslands og landafræði og birti niðurstöður sínar í fræðiritum á íslensku og erlendum málum, auk þess að rita alþýðlegar greinar um vísindi.

Í ritgerðunum þremur, sem hér birtast, er að finna ágrip af sögu líffræðinnar þar sem höfundur rekur fyrst fornar hugmyndir um uppruna og flokkunarkerfi lífvera og gerir síðan grein fyrir sögu nútíma líffræði fram til sinna tíma. Loks er mestum hluta ritsins varið til að útlista hugmyndir Charles Darwin eins og þær birtast í Uppruna tegundanna, sem hefur einnig komið út sem Lærdómsrit. Þorvaldur endursegir þróunarkenningu Darwins ítarlega á skýran og aðgengilegan hátt og er verkið enn í dag eitt besta yfirlit um sögu líffræðinnar sem út hefur komið á íslensku. Einnig er bókin merkileg heimild um fræðimanninn Þorvald Thoroddsen en viðhorf hans til þróunarkenningarinnar tóku miklum breytingum á fræðimannsferli hans; hann snerist í auknum mæli til hughyggju og markhyggju. Þorvaldur gagnrýndi það sem honum fannst vera blind úrvalshyggja Darwins um náttúruval, tveimur áratugum eftir að hann hafði
manna ötulastur unnið að því að kynna kenningu hans fyrir íslenskri alþýðu.

Í veglegum inngangi að Um uppruna dýrategunda og jurta leggur Steindór J. Erlingsson sig fram um að skýra samhengi og sögu þróunarkenningarinnar og að staðsetja hana í íslenskri hugmyndasögu. Hann leitast við að sýna fram á tengsl vísindahugmynda Þorvaldar Thoroddsen við víðari menningarstrauma um og eftir aldamótin 1900 og þau áhrif sem hann varð fyrir af því sem nefnt hefur verið „myrkvun darwinismans“.

Um vináttuna

Markus Tullius Cicero

Um vináttuna

3.620,- / 2.896,-

Um vináttuna

Markus Tullius Cicero

Hvað er heimskulegra en að þeir sem hafa auð, völd og tækifæri eignist allt sem falt er fyrir peninga í stað þess að afla sér vina, sem eru þó, ef svo má að orði komast, fegurstu og bestu kjörgripir lífsins?

Marcus Tullius Cicero var uppi á fyrstu öld fyrir Krist, þegar stóð yfir gullöld rómverskra bókmennta og umbrotaskeið í stjórnmálum rómverska ríkisins. Cicero lét mikið að sér kveða á báðum sviðum, enda er nafn hans enn meðal þeirra frægustu úr fornöld. Samræðan Um vináttuna varð til seint á ævi stjórnmálaskörungsins, þegar hann hafði að mestu glatað áhrifum sínum og þess var ekki langt að bíða að hann yrði myrtur af fjandmönnum sínum, en þar ræðir hann einkenni sannrar vináttu og gildi hennar í daglegu lífi. Afstaða Ciceros til vináttunnar byggir á kenningum stóumanna, sem álitu að vinátta væri til merkis um dyggð og fælist í samlífi dyggðugra, nauðsynleg til að maður fengi höndlaða hamingjuna. Markmið hans var hins vegar að heimfæra hina stóísku siðfræði upp á þann veruleika sem Rómverjar þekktu og sýna þeim fram á nytsemi hennar. Því dregur Cicero úr þeim ströngu kröfum sem stóumenn settu sem skilyrði fyrir því að nokkur maður teldist dyggðugur eða hamingjusamur. Samkvæmt þeim var aðeins þeim sem bjó yfir óhagganlegri þekkingu, vitringnum, gefið að öðlast hamingju en stærstur hluti fólks var dæmdur til böls og lasta – og gat aldrei átt sanna vini.

Rit Ciceros er samræða í aristótelískum stíl, ólík samræðum Platóns í því að meginhluti hennar er eintal einnar persónu um viðfangsefnið. Lykilatriðið er ekki rökræðan sjálf heldur það hvernig sýna má með stóískum rökum fram á gildi vináttunnar meðal manna í veraldlegu samfélagi. Cicero leiðir rök að því að réttnefnd vinátta einkennist af því að maður virði vininn hans vegna en ekki sjálfs sín og reynir að hrekja kenningar sem halda því fram að gildi vináttu felist í nytseminni eða ánægjunni sem af henni hlýst.

Cicero var meistari latneskrar tungu og nánast holdgervingur rómverskrar menningar. Verk hans voru í hávegum höfð, bæði í fornöld og á nýöld, og fyrir utan gildi þeirra í sjálfum sér eru þau merk heimild um samtíma höfundar sem og um helleníska heimspeki. Í inngangi að þessu verki fjallar Svavar Hrafn Svavarsson meðal annars um vináttuhugtök Grikkja og Rómverja, um feril Ciceros og meðferð hans á stóískri siðfræði.

Eftir sama höfund hefur áður samræðan Um ellina komið út sem Lærdómsrit.

Undir Hraundranga

Ritstjóri: Sveinn Yngvi Egilsson

Undir Hraundranga

3.900,- / 3.120,-

Undir Hraundranga

Ritstjóri: Sveinn Yngvi Egilsson

Úrval ritgerða um Jónas Hallgrímsson.

Hér er að finna fjölbreytt skrif um ævi og örlög Jónasar Hallgrímssonar, um vísindastörf hans og hugmyndaheim, um áhrifavalda og umhverfi hans. Fjallað er um mörg áhugaverðustu verk skáldsins og tekist á um túlkun þeirra. Elstu ritgerðirnar eru eftir Konráð Gíslason og Hannes Hafstein. Auk núlifandi fræðimanna og skálda eiga margir þekktir höfundar frá 20. öld efni í bókinni. Meðal þeirra er Einar Ól. Sveinsson, Halldór Laxness, Sigurður Nordal og Svava Jakobsdóttir.

Útgáfuár: 2007

Undir oki siðmenningar

Sigmund Freud

Undir oki siðmenningar

2.160,- / 1.728,-

Undir oki siðmenningar

Sigmund Freud

Þýðing: Sigurjón Björnsson

Bókin Undir oki siðmenningar er eitt af síðustu ritum Sigmundar Freuds, samin árið 1929. Bókin er aðalrrit Freuds um menningarmál og grípur á veigamiklum spurningum varðandi stöðu mannsins í heiminum sem einstaklings- og samfélagsþegns.

 

Undirstöður reikningslistar

Gottlob Frege

Undirstöður reikningslistar

3.490,- / 2.792,-

Undirstöður reikningslistar

Gottlob Frege

Þýðing: Kristján Kristjánsson.

Inngang ritar Guðmundur Heiðar Frímannsson.

Heimspekingurinn og stærðfræðingurinn Gottlob Frege er talinn faðir nútímarökfræði og sá sem lagði hornsteininn að heimspekilegri merkingarfræði eins og hún er stunduð í dag. Verk hans vöktu furðu litla athygli meðan hann var á lífi, en á síðustu áratugum hefur heimspekingum í síauknum mæli orðið ljóst mikilvægi Freges og verk hans því hafin til þeirrar virðingar sem þau verðskulda. Merkastar má telja uppgötvanir hans á umsagnarökfræði og mögnurum (e. quantifiers), þ.e. aðferðum rökfræðinnar til að segja til um hvaða ályktanir megi draga af innri gerð setninga en ekki aðeins sambandinu milli heilla setninga eins og setningarökfræðin hafði áður gert.

Í þessari bók, eins og öðrum höfuðritum Freges, leitast hann við að sýna fram á að stærðfræði megi smætta niður í rökfræði. Sú kenning er nú almennt talin afsönnuð. Viðleitni Freges bar hins vegar ríkulegan ávöxt, þar með talda umsagnarökfræðina sem áður getur, sem og nýtt táknkerfi rökfræðinnar. Undirstöður reikningslistarinnar, sem út kom 1884, er þó laus við framandi tákn og formúlur, enda ætlaði höfundur henni að vera aðgengileg og auðskilin framsetning stærðfræðilegrar heimspeki sinnar. Í bókinni heldur hann fram röksmættakenningunni og svokallaðri hluthyggju um eðli talna og færir rök gegn þeirri kenningu annars vegar að stærðfræði sé leikur með tákn, óháður ytri veruleika (bókstafstrú), og hins vegar að lögmál stærðfræði og rökfræði séu í raun sálfræðileg lögmál (sálarhyggja). Hluthyggja Freges segir í sinni einföldustu mynd að töluorð gegni hlutverki einnefna í staðhæfingum stærðfræðinnar og að í sönnum staðhæfingum vísi einnefni til einhvers hlutar sem er til. Rök hans fyrir þessu eru meðal annars lykilhlutverk jafnaðar eða samsemdar til skilnings okkar bæði á tölum og hugtakinu tölu, en einnig á hlutarhugtakinu. Röksmættakenningin heldur því fram að einungis grundvallarreglur og skilgreiningar rökfræðinnar séu nauðsynlegar til að sanna setningar stærðfræðinnar og þar með séu þær rökhæfingar.

Báðar kenningarnar eru vandkvæðum bundnar, eins og Guðmundur Heiðar Frímannsson gerir grein fyrir í inngangi að Undirstöðum reikningslistarinnar. Engu að síður hafa röksemdafærslur Freges tvímælalaust mikinn heimspekilegan þunga, þær eru ómissandi hverjum þeim sem vill kynna sér heimspeki stærðfræðinnar og eru á endanum tilraunir til að svara hinum miklu gátum um hlutlægan veruleika og tengsl tungumálsins við heiminn.

Uncategorized

Showing 257–272 of 302 results