Eyfirðinga sögur

Íslenzk fornrit IX

Eyfirðinga sögur

6.214,- / 4.971,-

Eyfirðinga sögur

Íslenzk fornrit IX

Víga-Glúms saga gerist á 10. öld en er rituð á fyrra hluta 13. aldar. Sagan fylgir hetju sinni frá bernsku til grafar. Glúmur er seinn í æsku og sætir yfirgangi af hálfu venslamanna. Hann siglir utan til Noregs, sækir heim móðurföður sinn og drýgir hetjudáð. Þegar til Íslands kemur fellir hann fjandmann sinn og hefst til metorða heima í héraði. Í tuttugu vetur er hann síðan mestur höfðingja í Eyjafirði og aðra tuttugu svo að engir voru meiri en til jafns við hann. Hann beitir ýmsum ráðum til að halda völdum og varðveita frið, en bíður að lokum ósigur er upp kemst að hann hefur svarið tvíræðan eið. Hrekst hann út í Öxnadal og andast þar blindur í hárri elli, þrem vetrum eftir kristnitöku.


Ögmundar þáttur dytts segir frá kænlegri hefnd Ögmundar, frænda Víga-Glúms, fyrir svívirðu sem honum var gerð úti í Noregi. En merkastur þykir þátturinn fyrir það að honum fylgir frásögn um Gunnar helming þar sem lýst er Freysdýrkun í Svíþjóð.


Svarfdæla saga er héraðssaga Svarfdæla á 10. öld og greinir frá miklum deilum og víga­ ferlum. Í sinni varðveittu mynd er sagan ung og ýkjufull, en geymir ýmis forn og merkileg minni, m.a. átakanlegar frásagnir af hinni ógæfusömu Yngvildi fagurkinn.


Þorleifs þáttur jarlsskálds tengist Svarfdælu, því að Þorleifur var bróðir Yngvildar fagur­ kinnar. Þátturinn er fremur unglegur, ritaður um 1300 eða á fyrra hluta 14. aldar. Hann geymir ýmis ævintýraleg minni, og er það frægast að Þorleifur kveður kvæðið Jarlsníð um Hákon jarl Sigurðarson (d. 995) og veldur með því mögnuðum gerningum í höllu jarls.


Valla-Ljóts saga er eins konar framhald Svarfdælu, greinir frá deilum Eyfirðinga og Svarfdæla, einkum Guðmundar ríka á Möðruvöllum og Ljóts Ljótólfssonar á Völlum.


Sneglu-Halla þáttur er bráðfyndinn og skemmtilegur. Hann er varðveittur í tveimur mismunandi gerðum í Morkinskinnu og Flateyjarbók. Hann hermir frá vist Halla við hirð Haralds harðráða, skiptum hans við konunginn og hirðmenn hans. Halli er orðheppinn og ráðslyngur og ber jafnan hærra hlut við hvern sem hann á að skipta.


Þorvalds þáttur tasalda og Þorgríms þáttur Hallasonar lýsa skörulegri framgöngu Íslendinga með konungum í Noregi.

Eyrbyggja saga

Íslenzk fornrit IV

Eyrbyggja saga

6.214,- / 4.971,-

Eyrbyggja saga

Íslenzk fornrit IV

Eyrbyggja saga er í handritum kölluð fullu nafni „Saga Þórsnesinga, Eyrbyggja og Álftfirðinga“, og bendir það til þess hve hún kemur víða við hjá ættum Snæfellinga, enda er hún nokkuð margbrotin. En einn maður tengir þó söguna saman næstum frá upphafi til enda; það er Snorri goði Þorgrímsson, mesti höfðingi Snæfellinga um sína daga fyrir og eftir 1000. Snorri kemur víða við sögur, auk Eyrbyggju mest við Laxdælu, og er hvarvetna lýst mjög á sama veg: hann er djúpvitur maður og ráðslyngur og ber hærra hlut í öllum deilu­ málum. Einstakir þættir sögunnar eru meistaralega sagðir, og þeir sem sökkva sér niður í Eyrbyggju meta hana flestum sögum meir.


Brands þáttur örva er lítil perla meðal fornra íslenskra smásagna; dæmisaga um óþrotlegt örlæti manns sem um síðir áminnir þiggjandann með táknrænum hætti, enda ætlunin aðeins að prófa hvort Brandur beri auknefni sitt með rentu.


Eiríks saga rauða og Grænlendinga saga eru samstæðar að því leyti að þær segja báðar frá fundi og byggingu Grænlands og síðan frá siglingum til Vínlands hins góða. Í þýðingum eru þær oft nefndar einu nafni Vínlandssögurnar. Þeim ber ekki saman um það hver fyrstur hafi fundið hin nýju lönd í vestri: samkvæmt Eiríks sögu var það Leifur heppni Eiríksson, en samkvæmt Grænlendinga sögu Bjarni Herjólfsson, sem ekki er getið í Eiríks sögu, en Leifur fer síðan og kannar löndin. Þannig er sögunum farið að öðru leyti, þær hafa sumt sameiginlegt en annað frábrugðið. Er líklegt talið að þær hafi verið ritaðar hvor í sínu lagi eftir munn­mælasögnum sem nokkuð hafi gengist í minni manna á þeim langa tíma sem leið milli atburða og skrásetningar. Sögurnar greina frá afrekum mikilla sægarpa og eru meginheimildir um merkilega atburði í sögu mannkynsins.


Grænlendinga þáttur gerist í upphafi 12. aldar og er líklega færður í letur aðeins svo sem öld síðar. Hann er sannfróð söguleg heimild og segir frá átakanlegum deilum sem urðu með höfðingjum á Grænlandi.

Færeyinga saga – Ólafs saga Odds

Íslenzk fornrit XXV

Færeyinga saga – Ólafs saga Odds

6.214,- / 4.971,-

Færeyinga saga – Ólafs saga Odds

Íslenzk fornrit XXV

Færeyinga saga er saga Götuskeggja, færeyskrar höfðingjaættar sem kennd var við óðalið Götu í Austurey. Fyrstur þeirra ættmenna er nefndur til sögunnar Þorbjörn Götuskeggur, faðir Þrándar sem er aðalpersóna sögunnar. Bróðir Þorbjarnar er Sigmundur í Skúfey, faðir bræðranna Brestis og Beinis sem voru hirðmenn Hákonar Hlaðajarls og höfðu helming eyjanna í lén af honum. Annan helming hafði Hafgrímur í Suðurey í lén af Haraldi konungi gráfeldi. Þessum lénsmönnum Noregshöfðingja tekst Þrándi í Götu að ryðja úr vegi þar til Sigmundur Brestisson kemur til eyjanna með aðstoð jarlsins eftir langa útlegð og mikil afrek í víkingaferðum. Sigmundur hefnir föður síns, sest að í Skúfey og tekur eyjarnar í lén af jarlinum. Síðan verður aðalefni sögunnar barátta milli tveggja ólíkra fylkinga, annars vegar Þrándar og frænda hans og hins vegar Sigmundar og afkomenda hans. Þrándur er heiðinn og fjölkunnugur bragðarefur sem einskis svífst í öflun auðs og valda og í baráttu sinni við Noregshöfðingja. Aftur á móti er Sigmundur vammlaus hetja og vígfimur með afbrigðum. Hann gerist maður Ólafs Tryggvasonar, lætur skírast, tekur Færeyjar í lén af honum og kemur kristni á eyjarnar.

Færeyinga saga jafnast á við helstu Íslendingasögur að spennu og dramatík.


Oddur Snorrason, sem munkur var á Þingeyrum á síðara hluta 12. aldar, tók saman á latínu sögu Ólafs konungs Tryggvasonar. Ekkert er varðveitt af þessari frumgerð sögunnar, en íslenskur texti er í tveimur handritum, ekki alveg heilum, og lok sögunnar í broti úr hinu þriðja. Þessir textar eru harla ólíkir og í raun þrjár gerðir sögunnar, sem allar munu þó eiga rætur að rekja til sömu frumþýðingar.

Ólafs saga Odds er að miklu leyti samin að fyrirmynd helgisagna, einna helst í ætt við játarasögur. Oddur reynir ekki að koma Ólafi Tryggvasyni í tölu heilagra manna, en leggur áherslu á að hann hafi verið fyrirrennari Ólafs helga eins og Jóhannes skírari var fyrirrennari Krists. Því til stuðnings leitar hann fanga bæði í Biblíuna og heilagra manna sögur. Sagan er með elstu rituðum heimildum um uppruna og uppvöxt Ólafs, kristniboð hans og endalok.

Grettis saga

Íslenzk fornrit VII

Grettis saga

6.214,- / 4.971,-

Grettis saga

Íslenzk fornrit VII

Grettis saga Ásmundarsonar er ævisaga frægasta útlaga Íslands. Grettir er óstýrilátur í bernsku og kastar fram kersknivísum. Þegar hann vex úr grasi gerist hann allra manna sterkastur og frækn­astur, berst við berserki, tröll og afturgöngur og léttir með því þrautum margra. En ofsi hans og ofmetnaður ganga úr hófi fram, og mesta afrek hans verður jafnframt hans mesta ógæfa: Hann fellir Glám hinn afturgengna, en draugurinn nær að biðja honum forbæna, og eftir það er hann heillum horfinn. Hann siglir utan til Noregs og vinnur þar afrek, en verður óviljandi valdur að húsbruna þar sem farast íslenskir menn. Þegar hann kemur heim til Íslands bíða hans þrenn ótíðindi: Faðir hans er andaður, Atli bróðir hans veginn og hann sjálfur gerður sekur skógarmaður á alþingi. Eftir það er hann á stöðugum hrakningi um landið, hrjáður af myrkhræðslu og ofsóttur af fjendum sínum. En í öllum þrengingum varðveitir hann kuldalega gamansemi og lætur fjúka spakmæli og kviðlinga, og oft nýtur hann stuðnings höfðingja í byggð eða hálftrölla í jökulheimum. Síðustu ár sín hefst hann við úti í Drangey ásamt Illuga, ungum bróður sínum, og þar er hann unninn með svikum og gjörningum.


Bandamanna saga gerist að miklu leyti á alþingi og er líklega rituð í lok Sturlungaaldar, gamansöm ádeila á fégræðgi og spillingu íslenskra höfðingja. Þeir ganga í bandalag til að klófesta auðæfi ungs kaupmanns, Odds Ófeigssonar. Horfir í fyrstu óvænlega fyrir Oddi, uns karl faðir hans kemur honum til bjargar, fær höfðingjana hvern af öðrum til fylgis við sig með skjalli og fémútum og teflir þeim síðan hverjum gegn öðrum uns brögð þeirra renna út í sandinn.


Odds þáttur Ófeigssonar segir frá hinum sama Oddi sem Bandamanna saga, en tengist sögunni aðeins að því leyti að Oddur er farmaður góður í þeim báðum. Þetta er skemmtileg saga og hefur m.a. haft áhrif á Njálu í frásögninni af því er Þráinn Sigfússon leynir Hrappi á skipi sínu.

Hákonar saga I-II

Íslenzk fornrit XXXI-XXXII

Hákonar saga I-II

10.363,- / 8.290,-

Hákonar saga I-II

Íslenzk fornrit XXXI-XXXII

Böglunga saga hefst þar sem Sverris sögu lýkur og segir frá stuttu valdaskeiði Hákonar Sverrissonar og þeim heiftúðugu flokkadráttum og valdabaráttu sem við tók eftir skyndilegt andlát hans. Eftir að sagt hefur verið frá sáttafundi í Hvítingseyjum 1208 er saga höfðingjanna rakin í stórum dráttum fram til valdatöku Hákonar Hákonarsonar 1217. Böglunga saga hefur varðveist í tveimur gerðum, sem báðar eru prentaðar í þessari útgáfu. Lengri gerðin er aðeins varðveitt á fáeinum skinnblöðum, en kringum 1600, meðan hún var enn heil, var hún þýdd á dönsku af norskum presti og fræðimanni, Peder Claussøn Friis. Sú þýðing er hér prentuð ásamt íslenskri þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar.


Hákonar saga Hákonarsonar er langmerkasta heimild sem varðveitt er um sögu Noregs á 13. öld. Sagan er rituð 1264–65 af Sturlu Þórðarsyni sagnaritara að beiðni Magnúsar konungs Hákonarsonar. Hákon var við völd 1217–1263, lengur en nokkur annar Noregskonungur. Meginefni fyrra hluta sögunnar fjallar um samskipti og deilur Hákonar og Skúla jarls Bárðar­ sonar. Það stuðlaði að sáttum milli þeirra þegar Hákon gekk að eiga Margréti dóttur Skúla, en jafnvel hertoganafnbótin sem Hákon veitti Skúla 1237 fullnægði ekki metnaði hans til lengdar. Tveimur árum síðar lét Skúli gefa sér konungsnafn, og þar með var friðurinn rofinn. Úrslita­ orrustunni vorið 1240 lauk með algerum sigri Hákonar konungs. Margir aðrir uppreisnar­flokkar risu upp gegn Hákoni, en honum tókst að friða Noreg og sameina undir sinni stjórn. Ennfremur lagði hann undir sig Ísland, Grænland og stóran hluta Bretlandseyja. Þar var hann staddur ásamt miklu liði þegar hann tók sótt og andaðist, 1263. Viðskipti Hákonar við Íslendinga fá verulegt rými í sögunni, og ýmsir íslenskir höfðingjar birtast þar í öðru ljósi heldur en í Sturlungu eða öðrum heimildum. Sturla orti mörg lofkvæði um Hákon og afrek hans og felldi þau inn í sögu hans, en fundum hans og konungs bar aldrei saman. Hins vegar varð hann hirðmaður Magnúsar sonar Hákonar og ritaði einnig sögu hans, sem er nú að mestu glötuð.


Af Magnúss sögu lagabætis eftir Sturlu Þórðarson hafa aðeins varðveist tvö skinnblöð. Texti þeirra er prentaður í þessari útgáfu ásamt nokkrum annálagreinum sem talið er að runnar séu frá þessari glötuðu sögu.

Harðar saga

Íslenzk fornrit XIII

Harðar saga

6.214,- / 4.971,-

Harðar saga

Íslenzk fornrit XIII

Harðar saga er, eins og flestar sögur þessa bindis, ýkjusaga frá 14. öld. Hörður er hraustur fullhugi, en óstýrilátur og dæmdur sekur skógarmaður. Hafðist hann síðast við í Geirshólmi í Hvalfirði með mönnum sínum sem kallaðir voru Hólmverjar, og lifðu þeir af ránum uns þeir voru sviknir og vegnir í griðum. En Helga kona Harðar, jarlsdóttir frá Gautlandi, bjargast frækilega á sundi úr hólminum með tvo syni þeirra.


Bárðar saga segir frá Bárði Dumbssyni sem er blendingur af ætt trölla og manna og hefst við í Snæfellsjökli. Hann er mörgum bjargvættur og einnig börn hans tvö, Helga og Gestur. Sagan er mjög ýkjufull og yfirnáttúrleg, en hana prýða nokkrar sérstæðar og merkilegar vísur, og í frásögnum af Helgu Bárðardóttur bregður fyrir angurværum blæ.


Þorskfirðinga saga (eða Gull-Þóris saga) hefur að hetju kappann Þóri sem hlýtur viðurnefni sitt af því að hann vinnur fé mikið frá víkingum sem brugðist höfðu i flugdrekaham og lágu á gullinu í helli einum norður við Dumbshaf. Og sagan segir að menn hafi það fyrir satt að Þórir hafi sjálfur brugðist í ormslíki og lagst á gullkistur sínar þar sem síðan heitir Gullfoss í Þorskafirði.


Flóamanna saga er auðug af fjölbreyttu frásagnarefni sem er að nokkru sótt í Landnámu og fornaldarsögur, en jafnframt grillir í arfsagnir. Garpur sögunnar er Þorgils Þórðarson sem nefndur var Örrabeinsstjúpur. Einna áhrifamestar eru frásagnir af för hans til Grænlands þar sem hann lendir í miklum hrakningum.

Í þessu bindi eru einnig nokkrir þættir sem nefndir skulu stuttlega:

Þórarins þáttur Nefjólfssonar er dæmisaga um Íslending sem verður fyrir rógi og fellur í ónáð hjá Noregskonungi, en réttir hlut sinn er hið sanna kemur í ljós.


Þorsteins þáttur uxafóts segir frá garpi sem berst við tröll, bæði lifandi og afturgengin.


Egils þáttur Síðu-Hallssonar er mjög forn dæmisaga, rituð til að sýna mátt og dýrð Ólafs konungs helga þegar í lifanda lífi.


Orms þáttur Stórólfssonar hermir frá miklum aflraunagarpi eins og Þorsteins þáttur uxafóts, enda sýnileg tengsl milli þáttanna sem báðir nutu mikilla vinsælda fyrr á tímum. Lýsing Orms er þó einkum sniðin eftir Gretti Ásmundarsyni, en Ormur tekur fyrirmyndinni fram að ofurmennsku afli.


Þorsteins þáttur tjaldstæðings segir frá göfugum landnámsmanni sem hlaut viðurnefni af því að hann tjaldaði yfir sóttveika farmenn sem enginn annar vildi liðsinna.


Þorsteins þáttur forvitna er dæmisaga um mann sem leysir erfiða þraut til yfirbótar fyrir hnýsni sína.


Bergbúa þáttur og Kumlbúa þáttur verða samferða í handritum og eiga það sameiginlegt að þar flytja yfirnáttúrlegar verur kveðskap fyrir mönnum. Í fyrra þættinum kveður bergbúinn Hallmundur dróttkvæðan flokk, og er þar að finna merkilega lýsingu á eldgosi. Í síðara þættinum tekur maður að nafni Þorsteinn sverð úr kumli. Eigandinn birtist honum í draumi og heitist við hann í vísu, en Þorsteinn svarar fullum hálsi í annarri vísu.


Stjörnu-Odda draumur hefur sem söguhetju Odda sem kunnur er fyrir stjörnuathuganir á 12. öld. Samkvæmt þættinum átti hann heima á Múla í Aðaldal. En þátturinn er raunar fornaldarsaga sem Oddi upplifir í merkilegum draumi, og fylgja brot úr tveimur kvæðum.

Heimskringla I

Íslenzk fornrit XXVI

Heimskringla I

6.214,- / 4.971,-

Heimskringla I

Íslenzk fornrit XXVI

UPPSELD

Heimskringla eftir Snorra Sturluson hefur að geyma samfelldar sögur Noregskonunga frá þjóðsögulegum tímum fram á síðara hluta 12. aldar. Verkinu lýkur í þann mund er Sverrir Sigurðarson brýst til ríkis í Noregi, en saga hans hafði þegar verið rituð af Karli Jónssyni, ábóta á Þingeyrum. Í þessari útgáfu er Heimskringlu skipt í þrjú bindi, og eru sex sögur í fyrsta bindinu.


Ynglinga saga hermir frá fornkonungum í Svíþjóð. Þeir röktu ættir sínar til Freys, sem öðru nafni nefndist Yngvifreyr og kom austan úr Asíu í föruneyti Óðins. Síðar fluttust Ynglingar til Noregs og urðu ættfeður Noregskonunga. Meginheimild sögunnar er kvæðið Ynglingatal eftir Þjóðólf úr Hvini, merkilegt kvæði sem haft hefur áhrif á mörg önnur fornskáld.


Hálfdanar saga svarta er stutt, en geymir þó ýmis forn og fróðleg minni. Hálfdan réð ríkjum austanfjalls í Noregi. Frægur er draumur sá sem Ragnhildi drottningu hans dreymir fyrir fæðingu Haralds sonar síns. Henni þykir lítill þyrnir vaxa úr hendi sér og verða tré svo mikið að limar þess „dreifast um allan Noreg og enn miklu víðara“.


Með Haralds sögu hins hárfagra má kalla að hefjist sannsögulegar frásagnir Heimskringlu, og styðst Snorri mjög við kvæði hirðskálda konungsins. Haraldur háði orrustur margar við aðra smákonunga, og lauk svo að hann sigraði þá alla og gerðist einn konungur yfir Noregi. Á dögum Haralds byggðist Ísland, og telur Snorri að ofríki konungsins hafi átt mikinn þátt í fólksstrauminum hingað til lands.


Hákonar saga góða. Þegar Haraldur hárfagri var áttræður gaf hann Eiríki syni sínum, sem auknefndur var blóðöx, vald yfir landi öllu. Yngsti sonur Haralds hét Hákon; hann var fóstraður af Aðalsteini Englandskonungi og því auknefndur Aðalsteinsfóstri. Hann sneri til Noregs ungur að aldri og var tekinn til konungs, en Eiríkur flæmdist úr landi. Hákon stýrði Noregi í 26 vetur að tali sögunnar, með þeim ágætum að hann hlaut viðurnefnið ‘góði’. Í lok sögunnar tilfærir Snorri kvæðið Hákonarmál eftir Eyvind skáldaspilli, eitt hið mesta snilldarverk meðal fornra norrænna kvæða.


Haralds saga gráfeldar. Þegar leið á veldistíð Hákonar góða komu synir Eiríks blóðaxar sunnan úr Danmörku og tóku að herja á ríki hans. Þeir voru kenndir við móður sína og kallaðir Gunnhildarsynir. Haraldur sem nefndur var gráfeldur fór fyrir þeim bræðrum. Þeir felldu Hákon í frægri orrustu á Fitjum á eynni Storð. Réðu þeir síðan fyrir Noregi um hríð uns Haraldur var drepinn með vélræðum af hálfu Hákonar Hlaðajarls. Hákon réð síðan sem jarl yfir Noregi langa hríð seint á 10. öld.


Ólafs saga Tryggvasonar segir frá hinum fræga og glæsilega kristniboðskonungi Noregs og Íslands. Ungur lá hann í víkingu, en tók kristna trú fyrir vestan haf og hélt síðan til Noregs. Hákon jarl var þá orðinn óvinsæll af landsfólki, og fór svo að þræll hans réð honum bana, en Ólafur var til konungs tekinn um land allt. Hann lagði mikið kapp á að kristna Noreg og þau lönd er þaðan voru byggð, meðal annarra Ísland. Eftir aðeins fimm ára konungstíð féll hann í mikilli sjóorrustu við eyna Svöld.

Heimskringla II

Íslenzk fornrit XXVII

Heimskringla II

6.214,- / 4.971,-

Heimskringla II

Íslenzk fornrit XXVII

UPPSELD

Ólafur helgi Haraldsson háði á yngri árum víkingu víða um lönd líkt sem nafni hans og frændi, Ólafur Tryggvason, og braust síðan einnig til valda í Noregi þar sem hann lauk því ætlunarverki hins fyrra Ólafs að kristna landsmenn. Hann var konungur 15 ár, 1015–30, en lenti í ófriði við norska stórbændur og var landflótta síðasta árið hjá mági sínum Jarizleifi konungi í Garðaríki. Sumarið 1030 hélt hann austan til Svíþjóðar og fékk þar liðsstyrk hjá Svíakonungi og heiman frá Noregi. Hélt hann liði þessu yfir til Þrándheims. En norskir bændur söfnuðu liði í móti og háðu við hann mikla orrustu á Stiklarstöðum í Veradal 29. júlí. Féll konungur þar og mikill hluti liðs hans. En þegar eftir orrustuna tóku að gerast krafta­verk sem tengdust líki hans. Varð hann síðan höfuðdýrlingur Norðurlanda í kaþólskum sið, og fjöldi pílagríma streymdi til legstaðar hans í Niðarósi.

Um Ólaf helga hafði margt verið ritað fyrir daga Snorra Sturlusonar, mest með helgi­ svip sem vænta mátti. Flest af því hefur Snorri þekkt er hann réðst í að semja sögu konungsins. Hann velur úr efninu það sem honum þykir henta, endursegir og umbreytir eldri sögum, hafnar ýkjusögum en skýrir alla atburði og lýsir á raunsæjan hátt, bregður upp fjölskrúðugum mannlífsmyndum og skapar mesta snilldarverk meðal sagnarita heimsins á miðöldum.

Síðar bætti Snorri við sögum þeirra Noregskonunga sem ríkt höfðu bæði á undan og eftir Ólafi helga, og þannig varð Heimskringla til, samfelld saga Noregskonunga frá þjóð­sögu­legum tímum allt til þess er Sverrir Sigurðarson kom til ríkis seint á 12. öld. Saga Sverris konungs hafði þegar verið rituð, svo vel að þar var ekki þörf um að bæta.

Heimskringla III

Íslenzk fornrit XXVIII

Heimskringla III

6.214,- / 4.971,-

Heimskringla III

Íslenzk fornrit XXVIII

Eftir fall Ólafs helga réðu Danir yfir Noregi um hríð, uns norskir höfðingjar, sem verið höfðu andstæðingar Ólafs, sóttu Magnús son hans ungan að aldri austur í Garðaríki og gerðu hann konung. Þegar Magnús þroskaðist hugðist hann hefna sín á drápsmönnum föður síns, en þá veitti Sighvatur skáld Þórðarson honum föðurlega áminningu í Bersöglisvísum sem Snorri Sturluson tekur að miklu leyti upp í sögu sína. Við það bætti hinn ungi konungur ráð sitt og ávann sér viðurnefnið ‘góði’.

Með Magnúsi kom síðar til ríkis hálfbróðir föður hans, Haraldur Sigurðarson, sem hafði aflað sér frægðar úti í Miklagarði. Haraldur var skörungur mikill, en þótti strangur stjórnandi og hlaut því auknefnið ‘harðráði’. Hann féll í orrustu við Stamforðabryggjur (Stamford Bridge) í Englandi 1066.

Eftir Harald stýrði Noregi um langt skeið sonur hans Ólafur sem var slíkur friðarmaður að hann hlaut viðurnefnið ‘kyrri’, enda er saga hans örstutt í Heimskringlu. En með tilkomu Magnúsar Ólafssonar, sem kallaður var berfættur, glæddust atburðir að nýju. Magnús herjaði víða og féll á Írlandi 1103.

Synir Magnúsar ríktu í fyrstu þrír saman: Sigurður, Eysteinn og Ólafur. Hinn yngsti þeirra varð skammlífastur, en Sigurður lifði lengst. Hann fór mikla frægðarför út til Jerúsalem og var síðan kallaður Jórsalafari. Einn hinn snjallasti af þáttum Heimskringlu er kappmæli eða „mannjafnaður“ þeirra bræðra, Eysteins og Sigurðar. Snorri hefur sótt efni í þessa frásögn til Morkinskinnu, en endurbætir hana frábærlega.

Friður ríkti innanlands í Noregi frá falli Ólafs helga fram að andláti Sigurðar Jórsalafara, eða í rétt hundrað ár (1030–1130). En þá hófst það tímabil Noregssögu sem almennt er kallað „borgarastríðin“ og stóð nær óslitið í 110 ár, frá andláti Sigurðar 1130 uns menn Hákonar gamla tryggðu völd hans með vígi Skúla hertoga í Niðarhólmi 1240. Fyrra skeiði stríðanna er lýst í Heimskringlu.

Til Sigurðar Jórsalafara kom vestan af Írlandi maður að nafni Gillikristur, sem öðru nafni nefndist Haraldur gilli, og kvaðst vera bróðir hans, sonur Magnúsar berfætts. Eftir dauða Sigurðar gerði hann kröfu til ríkis og var tekinn til konungs yfir hálfu landi móti Magnúsi Sigurðarsyni. Síðan börðust þeir um völdin og hafði Haraldur sigur. Lét hann taka Magnús, blinda hann og limlesta og setja í klaustur.

Þá kom fram annað konungsefni, Sigurður slembidjákn, sem einnig þóttist vera sonur Magnúsar berfætts. Tókst honum að ráða Harald gilla af dögum, en náði þó ekki konung­ dómi í Noregi og var sjálfur píndur til dauða. Þá urðu konungar synir Haralds gilla: Ingi, Eysteinn og Sigurður munnur, allir á barns aldri, og börðust þeir eða flokkar þeirra um völdin uns allir þrír lágu í valnum.

Næstur kom til valda Hákon herðibreiður, sonur Sigurðar munns – einnig barn að aldri, og rennur saga hans saman við Haraldssona sögu, því að menn Hákonar eiga í stríði við Inga Haraldsson og fella hann. En Erlingur jarl skakki hefnir Inga konungs, fellir Hákon herðibreið (1162) og lætur krýna Magnús son sinn til konungs. Magnús var ekki konung­ borinn í föðurætt, en dóttursonur Sigurðar Jórsalafara. Þeir feðgar eru við völd í Noregi þegar Heimskringlu lýkur, en falla báðir síðar fyrir Sverri konungi svo sem lýst er í Sverris sögu.

Íslendingabók, Landnáma

Íslenzk fornrit I

Íslendingabók, Landnáma

6.214,- / 4.971,-

Íslendingabók, Landnáma

Íslenzk fornrit I

Íslendingabók. „Ari hinn fróði Þorgilsson Gellissonar ritaði fyrstur manna hér á landi að norrænu máli fræði bæði forna og nýja,“ segir Snorri Sturluson í Heimskringlu. „Þykir mér hans frásögn öll merkilegust.“ Í formála kveðst Ari fyrst hafa gert Íslendingabók að frumkvæði biskupanna Þorláks Runólfssonar og Ketils Þorsteinssonar og einnig sýnt hana Sæmundi presti hinum fróða. Hafi hann síðan endurskrifað bókina, en sleppt úr henni „áttartölu og konungaævi“, þ.e. íslenskum ættartölum og ævisögum Noregskonunga. Fyrri gerð bókarinnar er glötuð, en Snorri hefur hagnýtt „konungaævina“ í Heimskringlu. En yngri gerðin hefur varðveist vel. Hún er samin um 1130 og geymir sögu Íslands frá landnámi fram til dauða Gissurar biskups Ísleifssonar 1118. Þetta er stutt en frábærlega traust heimilda­r­rit. Ari styðst við frásagnir manna sem hann vissi að voru spakir og „langt mundu fram“. Hann kann að telja alla lögsögumenn frá Hrafni Hængssyni sem tók lögsögu 1030 og skorðar tímatal atburða við embættisár þeirra. En mesta áherslu leggur hann á kristni­tökuna árið 1000 og sögu fyrstu biskupanna í Skálholti, Ísleifs Gissurarsonar og Gissurar sonar hans.


Landnámabók telur helstu landnámsmenn Íslands, segir hvar þeir námu land og greinir nokkuð frá uppruna þeirra og afkomendum. Bókin var sett saman á fyrra hluta 12. aldar, og mun Ari fróði hafa verið riðinn við hina fyrstu gerð, en hún er nú löngu glötuð. Elstu varðveittar gerðir Landnámu eru frá síðara hluta 13. aldar og frá 14. öld, en þær eru mjög auknar með nýjum ættartölum og frásögnum af ýmsu tagi. Elst er Sturlubók, sett saman af Sturlu Þórðarsyni lögmanni (d. 1284). Næst er Hauksbók, gerð af Hauki lögmanni Erlendssyni (d. 1334). Kveðst Haukur hafa ritað sína Landnámabók „eftir þeirri bók sem ritað hafði herra Sturla lögmaður […] og eftir þeirri bók annarri er ritað hafði Styrmir hinn fróði“. Styrmir lést 1245, en Landnámabók hans er glötuð. Þriðja forna gerðin, Melabók, er aðeins varð­veitt í brotum, og er það mikið mein því að hún hefur að mörgu leyti staðið næst frumtext­anum. – Sumt af viðaukum  Sturlubókar (og Hauksbókar) er sótt í kunnar heimildir, til að mynda Íslendingasögur (Egils sögu, Eyrbyggju, Vatnsdælu o.fl.). En hin  upprunalega Land­náma hefur verið gagnorð og traust heimild í líkingu við Íslendingabók. Sagt hefur verið, að þótt frumtextinn sé víða  óvís eða glataður með öllu, séu þær gerðir Landnáma­bókar sem enn eru til merkustu heimildir sem nokkur þjóð á um uppruna sinn.

Íslensk fornrit

Skoða körfu “Biskupa sögur I” hefur verið bætt í vörukörfuna þína.

Showing 11–20 of 29 results