Laxdæla saga

Íslenzk fornrit V

Laxdæla saga

6.214,- / 4.971,-

Laxdæla saga

Íslenzk fornrit V

Laxdæla saga segir frá ástum og vígaferlum fólks í Laxárdal í Dölum fyrir og eftir aldamótin 1000. Hún er sannfræðileg að því leyti að hún segir frá alkunnu fólki og styðst sýnilega við miklar munnmælasagnir. En jafnframt ber hún í lýsingum augljós merki riddarasagna sem þýddar voru úr frönsku á dögum Hákonar konungs gamla á 13. öld, og því er talið að sagan muni rituð nær miðbiki þeirrar aldar. Í upphafi sögunnar er sagt frá landnámi Auðar djúp­ úðgu og síðan frá niðjum hennar, en allt stefnir að uppruna og viðgangi hins göfga höfðingja Ólafs pá í Hjarðarholti. Síðan koma til sögu Kjartan sonur hans og Bolli frændi hans og fóstursonur, og með ástum Kjartans og Guðrúnar Ósvífursdóttur tekur að hitna í kolunum. Guðrún er síðan sá meginás sem sagan hverfist um. Bolli ann henni einnig og fær hennar með nokkrum óheilindum. Þegar Kjartan kemur heim úr Noregsför og spyr gjaforð Guðrúnar taka ástir þeirra hamskiptum, og úfar rísa með frændum og fornvinum. Að eggjan Guðrúnar sitja bræður hennar og bóndi fyrir Kjartani fáliðuðum, og Bolli veitir honum banasár. En hvert víg kallar á hefnd. Bræður Kjartans fara með lið á hendur Bolla og vega hann þar sem hann er einn fyrir í seli með Guðrúnu; og í fyllingu tímans hefna synir þeirra föður síns og vega þann sem veitti honum banasár og þerrði blóð af spjóti sínu á blæju Guðrúnar. Sjálf lifir hún sína fjóra eiginmenn sem henni höfðu birst í táknrænum draumi á ungum aldri. Þegar hinn glæsti sonur hennar, Bolli Bollason, spyr hverjum manni hún hafi mest unnað, svarar hún með fleygustu orðum íslenskrar tungu: „Þeim var ég verst er ég unni mest.“


Halldórs þættir Snorrasonar eru auðkenndir I og II eða hinn fyrri og hinn síðari. Fyrri þáttur­inn er fremur sviplítil saga sem segir frá skiptum Halldórs við Einar þambarskelfi og Bergljótu konu hans. En síðari þátturinn er meðal gimsteina íslenskrar sagnalistar. Halldór fór á ungum aldri með Haraldi Sigurðarsyni suður til Miklagarðs og leysti þar ýmsar þrautir með konung­sefninu sem um má lesa í Morkinskinnu og Heimskringlu. Í þættinum er því lýst hversu vin­átta þeirra kólnar smám saman eftir heimkomuna til Noregs. Þverlyndi Halldórs og kappgirni stangast við konunglegan metnað sem þróast með Haraldi eftir að hann er sestur á veldisstólinn.


Stúfs þáttur er varðveittur í tveim gerðum, bæði sem sjálfstæð saga og sem innskot í konungasögur. Þetta er skemmtileg saga um rogginn Íslending sem stendur vel fyrir sínu við hirð Haralds konungs Sigurðarsonar.

Laxdæla saga

6.214 kr.

Flokkur: