Sjávarútvegur og eldi
Ásta Dís Óladóttir og Ágúst Einarsson
Í bókinni er gerð grein fyrir tveimur atvinnugreinum, sjávarútvegi og eldi, þar sem framleidd eru matvæli sem seld eru um allan heim, en nú á tímum verða matvæli að vera í boði sem víðast, allan ársins hring og á samkeppnishæfu verði. Í bókinni er lögð áhersla á hve mikilvægt er að Íslendingar beri gæfu til þess að tryggja gæði og afhendingaröryggi afurða sinna úr sjávarútvegi og eldi á erlenda markaði alla daga ársins. Gerð er grein fyrir sögulegri þróun sjávarútvegs og eldis og stöðu þeirra í nútímanum. Fjallað er um alla þætti sjávarútvegs, allt frá veiðum til sölu auk grunnþátta fiskeldis og áhrifum þessara atvinnugreina á samfélag og landsframleiðslu. Umhverfis- og þróunarmálum eru gerð skil auk þess sem stjórnun fiskveiða hérlendis og erlendis er lýst. Auk þess er fjallað um alþjóðavæðingu, nýsköpun og tækifæri, samfélagslega þætti, stöðu kvenna og fæðuöryggi. Í bókinni eru margar frásagnir úr íslensku efnahagslífi.
Útgefandi bókarinnar er Hið íslenska bókmenntafélag og bókin er ætluð öllum þeim sem hafa áhuga á sjávarútvegi og eldi. Í bókinni er staðfest sú skoðun að 20. öldin sé öld sjávarútvegsins á Íslandi. Ýmislegt bendir til þess að fiskeldi, ekki hvað síst landeldi, geti orðið auk sjávarútvegs einn aðalatvinnuvegur Íslendinga á 21. öldinni. Brýnt er að setja sér markmið hérlendis og á heimsvísu um eflingu sjávarútvegs og eldis sem einn mikilvægasta þáttinn í fæðuöryggi framtíðarinnar og þá er forsenda allra athafna að gætt sé að fullu að verndun umhverfisins.
Hægt er að kaupa rafræna útgáfu af bókinni hjá heimkaup.
Um höfundana
Dr. Ásta Dís Óladóttir er prófessor við Háskóla Íslands og fyrrverandi deildarforseti Viðskiptadeildar Háskólans á Bifröst. Ásta Dís er stjórnarformaður Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Vísindasjóðs Háskólans á Akureyri og Jafnvægisvogarráðs, auk þess að sitja í stjórn Samherja og Ice Fresh. Ásta Dís starfaði áður sem framkvæmdastjóri ýmissa fyrirtækja og hefur setið í fjölmörgum stjórnum, t.a.m. Samkeppniseftirlitsins, Byggðastofnunar, nýsköpunarfyrirtækja, tryggingafélaga, fjármálafyrirtækja, fjárfestingasjóða og verslana. Hún hefur sinnt kennslu og rannsóknum á sviði stjórnunar og alþjóðaviðskipta við Háskóla Íslands, Háskólann á Bifröst, Háskólann í Reykjavík og Copenhagen Business School, birt fjölmargar greinar og bókarkafla á innlendum og alþjóðlegum vettvangi auk þess að rita með Ágústi bókina Fisheries and Aquaculture. The Food Security of the Future sem Elsevier gaf út árið 2021. Þá hefur hún hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín, meðal annars fyrir að stuðla að eflingu kennslu og rannsókna í sjávarútvegi og fyrir störf sín á sviði jafnréttismála.
Dr. Ágúst Einarsson er prófessor emeritus við Háskólann á Bifröst, fyrrverandi rektor skólans og var um árabil prófessor og deildarforseti í Háskóla Íslands. Hann starfaði áður sem framkvæmdastjóri útgerðar og fiskvinnslu og sat í stjórnum margra fyrirtækja og samtaka þeirra. Ágúst tók virkan þátt í stjórnmálum, var alþingismaður og gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum í samfélaginu og var til að mynda formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, samninganefndar ríkisins, Framtakssjóðs Íslands og ráðgjafanefndar Hafrannsóknastofnunar og sat í stjórn Landsvirkjunar og Borgarleikhússins. Ágúst hefur skrifað fjölda bóka, meðal annars um rekstrarhagfræði, menningarhagfræði,
kvikmyndir, tónlist, heilbrigðismál og íþróttir, flutt erindi og birt greinar í tímaritum, bókum og ráðstefnuritum. Síðasta bók Ágústar Rekstrarhagfræði og samfélagið sem hann ritaði með Axel Hall lektor í Háskólanum í Reykjavík kom út árið 2022. Ágúst var um árabil varaforseti samtaka evrópskra fræðimanna um frumkvöðla og lítil og meðalstór fyrirtæki.