Heimskringla I

Íslenzk fornrit XXVI

Heimskringla I

6.214,- / 4.971,-

Heimskringla I

Íslenzk fornrit XXVI

UPPSELD

Heimskringla eftir Snorra Sturluson hefur að geyma samfelldar sögur Noregskonunga frá þjóðsögulegum tímum fram á síðara hluta 12. aldar. Verkinu lýkur í þann mund er Sverrir Sigurðarson brýst til ríkis í Noregi, en saga hans hafði þegar verið rituð af Karli Jónssyni, ábóta á Þingeyrum. Í þessari útgáfu er Heimskringlu skipt í þrjú bindi, og eru sex sögur í fyrsta bindinu.


Ynglinga saga hermir frá fornkonungum í Svíþjóð. Þeir röktu ættir sínar til Freys, sem öðru nafni nefndist Yngvifreyr og kom austan úr Asíu í föruneyti Óðins. Síðar fluttust Ynglingar til Noregs og urðu ættfeður Noregskonunga. Meginheimild sögunnar er kvæðið Ynglingatal eftir Þjóðólf úr Hvini, merkilegt kvæði sem haft hefur áhrif á mörg önnur fornskáld.


Hálfdanar saga svarta er stutt, en geymir þó ýmis forn og fróðleg minni. Hálfdan réð ríkjum austanfjalls í Noregi. Frægur er draumur sá sem Ragnhildi drottningu hans dreymir fyrir fæðingu Haralds sonar síns. Henni þykir lítill þyrnir vaxa úr hendi sér og verða tré svo mikið að limar þess „dreifast um allan Noreg og enn miklu víðara“.


Með Haralds sögu hins hárfagra má kalla að hefjist sannsögulegar frásagnir Heimskringlu, og styðst Snorri mjög við kvæði hirðskálda konungsins. Haraldur háði orrustur margar við aðra smákonunga, og lauk svo að hann sigraði þá alla og gerðist einn konungur yfir Noregi. Á dögum Haralds byggðist Ísland, og telur Snorri að ofríki konungsins hafi átt mikinn þátt í fólksstrauminum hingað til lands.


Hákonar saga góða. Þegar Haraldur hárfagri var áttræður gaf hann Eiríki syni sínum, sem auknefndur var blóðöx, vald yfir landi öllu. Yngsti sonur Haralds hét Hákon; hann var fóstraður af Aðalsteini Englandskonungi og því auknefndur Aðalsteinsfóstri. Hann sneri til Noregs ungur að aldri og var tekinn til konungs, en Eiríkur flæmdist úr landi. Hákon stýrði Noregi í 26 vetur að tali sögunnar, með þeim ágætum að hann hlaut viðurnefnið ‘góði’. Í lok sögunnar tilfærir Snorri kvæðið Hákonarmál eftir Eyvind skáldaspilli, eitt hið mesta snilldarverk meðal fornra norrænna kvæða.


Haralds saga gráfeldar. Þegar leið á veldistíð Hákonar góða komu synir Eiríks blóðaxar sunnan úr Danmörku og tóku að herja á ríki hans. Þeir voru kenndir við móður sína og kallaðir Gunnhildarsynir. Haraldur sem nefndur var gráfeldur fór fyrir þeim bræðrum. Þeir felldu Hákon í frægri orrustu á Fitjum á eynni Storð. Réðu þeir síðan fyrir Noregi um hríð uns Haraldur var drepinn með vélræðum af hálfu Hákonar Hlaðajarls. Hákon réð síðan sem jarl yfir Noregi langa hríð seint á 10. öld.


Ólafs saga Tryggvasonar segir frá hinum fræga og glæsilega kristniboðskonungi Noregs og Íslands. Ungur lá hann í víkingu, en tók kristna trú fyrir vestan haf og hélt síðan til Noregs. Hákon jarl var þá orðinn óvinsæll af landsfólki, og fór svo að þræll hans réð honum bana, en Ólafur var til konungs tekinn um land allt. Hann lagði mikið kapp á að kristna Noreg og þau lönd er þaðan voru byggð, meðal annarra Ísland. Eftir aðeins fimm ára konungstíð féll hann í mikilli sjóorrustu við eyna Svöld.

Heimskringla II

Íslenzk fornrit XXVII

Heimskringla II

6.214,- / 4.971,-

Heimskringla II

Íslenzk fornrit XXVII

UPPSELD

Ólafur helgi Haraldsson háði á yngri árum víkingu víða um lönd líkt sem nafni hans og frændi, Ólafur Tryggvason, og braust síðan einnig til valda í Noregi þar sem hann lauk því ætlunarverki hins fyrra Ólafs að kristna landsmenn. Hann var konungur 15 ár, 1015–30, en lenti í ófriði við norska stórbændur og var landflótta síðasta árið hjá mági sínum Jarizleifi konungi í Garðaríki. Sumarið 1030 hélt hann austan til Svíþjóðar og fékk þar liðsstyrk hjá Svíakonungi og heiman frá Noregi. Hélt hann liði þessu yfir til Þrándheims. En norskir bændur söfnuðu liði í móti og háðu við hann mikla orrustu á Stiklarstöðum í Veradal 29. júlí. Féll konungur þar og mikill hluti liðs hans. En þegar eftir orrustuna tóku að gerast krafta­verk sem tengdust líki hans. Varð hann síðan höfuðdýrlingur Norðurlanda í kaþólskum sið, og fjöldi pílagríma streymdi til legstaðar hans í Niðarósi.

Um Ólaf helga hafði margt verið ritað fyrir daga Snorra Sturlusonar, mest með helgi­ svip sem vænta mátti. Flest af því hefur Snorri þekkt er hann réðst í að semja sögu konungsins. Hann velur úr efninu það sem honum þykir henta, endursegir og umbreytir eldri sögum, hafnar ýkjusögum en skýrir alla atburði og lýsir á raunsæjan hátt, bregður upp fjölskrúðugum mannlífsmyndum og skapar mesta snilldarverk meðal sagnarita heimsins á miðöldum.

Síðar bætti Snorri við sögum þeirra Noregskonunga sem ríkt höfðu bæði á undan og eftir Ólafi helga, og þannig varð Heimskringla til, samfelld saga Noregskonunga frá þjóð­sögu­legum tímum allt til þess er Sverrir Sigurðarson kom til ríkis seint á 12. öld. Saga Sverris konungs hafði þegar verið rituð, svo vel að þar var ekki þörf um að bæta.

Heimskringla III

Íslenzk fornrit XXVIII

Heimskringla III

6.214,- / 4.971,-

Heimskringla III

Íslenzk fornrit XXVIII

Eftir fall Ólafs helga réðu Danir yfir Noregi um hríð, uns norskir höfðingjar, sem verið höfðu andstæðingar Ólafs, sóttu Magnús son hans ungan að aldri austur í Garðaríki og gerðu hann konung. Þegar Magnús þroskaðist hugðist hann hefna sín á drápsmönnum föður síns, en þá veitti Sighvatur skáld Þórðarson honum föðurlega áminningu í Bersöglisvísum sem Snorri Sturluson tekur að miklu leyti upp í sögu sína. Við það bætti hinn ungi konungur ráð sitt og ávann sér viðurnefnið ‘góði’.

Með Magnúsi kom síðar til ríkis hálfbróðir föður hans, Haraldur Sigurðarson, sem hafði aflað sér frægðar úti í Miklagarði. Haraldur var skörungur mikill, en þótti strangur stjórnandi og hlaut því auknefnið ‘harðráði’. Hann féll í orrustu við Stamforðabryggjur (Stamford Bridge) í Englandi 1066.

Eftir Harald stýrði Noregi um langt skeið sonur hans Ólafur sem var slíkur friðarmaður að hann hlaut viðurnefnið ‘kyrri’, enda er saga hans örstutt í Heimskringlu. En með tilkomu Magnúsar Ólafssonar, sem kallaður var berfættur, glæddust atburðir að nýju. Magnús herjaði víða og féll á Írlandi 1103.

Synir Magnúsar ríktu í fyrstu þrír saman: Sigurður, Eysteinn og Ólafur. Hinn yngsti þeirra varð skammlífastur, en Sigurður lifði lengst. Hann fór mikla frægðarför út til Jerúsalem og var síðan kallaður Jórsalafari. Einn hinn snjallasti af þáttum Heimskringlu er kappmæli eða „mannjafnaður“ þeirra bræðra, Eysteins og Sigurðar. Snorri hefur sótt efni í þessa frásögn til Morkinskinnu, en endurbætir hana frábærlega.

Friður ríkti innanlands í Noregi frá falli Ólafs helga fram að andláti Sigurðar Jórsalafara, eða í rétt hundrað ár (1030–1130). En þá hófst það tímabil Noregssögu sem almennt er kallað „borgarastríðin“ og stóð nær óslitið í 110 ár, frá andláti Sigurðar 1130 uns menn Hákonar gamla tryggðu völd hans með vígi Skúla hertoga í Niðarhólmi 1240. Fyrra skeiði stríðanna er lýst í Heimskringlu.

Til Sigurðar Jórsalafara kom vestan af Írlandi maður að nafni Gillikristur, sem öðru nafni nefndist Haraldur gilli, og kvaðst vera bróðir hans, sonur Magnúsar berfætts. Eftir dauða Sigurðar gerði hann kröfu til ríkis og var tekinn til konungs yfir hálfu landi móti Magnúsi Sigurðarsyni. Síðan börðust þeir um völdin og hafði Haraldur sigur. Lét hann taka Magnús, blinda hann og limlesta og setja í klaustur.

Þá kom fram annað konungsefni, Sigurður slembidjákn, sem einnig þóttist vera sonur Magnúsar berfætts. Tókst honum að ráða Harald gilla af dögum, en náði þó ekki konung­ dómi í Noregi og var sjálfur píndur til dauða. Þá urðu konungar synir Haralds gilla: Ingi, Eysteinn og Sigurður munnur, allir á barns aldri, og börðust þeir eða flokkar þeirra um völdin uns allir þrír lágu í valnum.

Næstur kom til valda Hákon herðibreiður, sonur Sigurðar munns – einnig barn að aldri, og rennur saga hans saman við Haraldssona sögu, því að menn Hákonar eiga í stríði við Inga Haraldsson og fella hann. En Erlingur jarl skakki hefnir Inga konungs, fellir Hákon herðibreið (1162) og lætur krýna Magnús son sinn til konungs. Magnús var ekki konung­ borinn í föðurætt, en dóttursonur Sigurðar Jórsalafara. Þeir feðgar eru við völd í Noregi þegar Heimskringlu lýkur, en falla báðir síðar fyrir Sverri konungi svo sem lýst er í Sverris sögu.

Íslendingabók, Landnáma

Íslenzk fornrit I

Íslendingabók, Landnáma

6.214,- / 4.971,-

Íslendingabók, Landnáma

Íslenzk fornrit I

Íslendingabók. „Ari hinn fróði Þorgilsson Gellissonar ritaði fyrstur manna hér á landi að norrænu máli fræði bæði forna og nýja,“ segir Snorri Sturluson í Heimskringlu. „Þykir mér hans frásögn öll merkilegust.“ Í formála kveðst Ari fyrst hafa gert Íslendingabók að frumkvæði biskupanna Þorláks Runólfssonar og Ketils Þorsteinssonar og einnig sýnt hana Sæmundi presti hinum fróða. Hafi hann síðan endurskrifað bókina, en sleppt úr henni „áttartölu og konungaævi“, þ.e. íslenskum ættartölum og ævisögum Noregskonunga. Fyrri gerð bókarinnar er glötuð, en Snorri hefur hagnýtt „konungaævina“ í Heimskringlu. En yngri gerðin hefur varðveist vel. Hún er samin um 1130 og geymir sögu Íslands frá landnámi fram til dauða Gissurar biskups Ísleifssonar 1118. Þetta er stutt en frábærlega traust heimilda­r­rit. Ari styðst við frásagnir manna sem hann vissi að voru spakir og „langt mundu fram“. Hann kann að telja alla lögsögumenn frá Hrafni Hængssyni sem tók lögsögu 1030 og skorðar tímatal atburða við embættisár þeirra. En mesta áherslu leggur hann á kristni­tökuna árið 1000 og sögu fyrstu biskupanna í Skálholti, Ísleifs Gissurarsonar og Gissurar sonar hans.


Landnámabók telur helstu landnámsmenn Íslands, segir hvar þeir námu land og greinir nokkuð frá uppruna þeirra og afkomendum. Bókin var sett saman á fyrra hluta 12. aldar, og mun Ari fróði hafa verið riðinn við hina fyrstu gerð, en hún er nú löngu glötuð. Elstu varðveittar gerðir Landnámu eru frá síðara hluta 13. aldar og frá 14. öld, en þær eru mjög auknar með nýjum ættartölum og frásögnum af ýmsu tagi. Elst er Sturlubók, sett saman af Sturlu Þórðarsyni lögmanni (d. 1284). Næst er Hauksbók, gerð af Hauki lögmanni Erlendssyni (d. 1334). Kveðst Haukur hafa ritað sína Landnámabók „eftir þeirri bók sem ritað hafði herra Sturla lögmaður […] og eftir þeirri bók annarri er ritað hafði Styrmir hinn fróði“. Styrmir lést 1245, en Landnámabók hans er glötuð. Þriðja forna gerðin, Melabók, er aðeins varð­veitt í brotum, og er það mikið mein því að hún hefur að mörgu leyti staðið næst frumtext­anum. – Sumt af viðaukum  Sturlubókar (og Hauksbókar) er sótt í kunnar heimildir, til að mynda Íslendingasögur (Egils sögu, Eyrbyggju, Vatnsdælu o.fl.). En hin  upprunalega Land­náma hefur verið gagnorð og traust heimild í líkingu við Íslendingabók. Sagt hefur verið, að þótt frumtextinn sé víða  óvís eða glataður með öllu, séu þær gerðir Landnáma­bókar sem enn eru til merkustu heimildir sem nokkur þjóð á um uppruna sinn.

Jómsvíkinga saga

Íslenzk fornrit XXXIII

Jómsvíkinga saga

7.490,- / 5.992,-

Jómsvíkinga saga

Íslenzk fornrit XXXIII

Jómsvíkinga saga er talin rituð kringum 1200. Hún segir í upphafi frá elstu Danakonungum sem áreiðanlegar heimildir eru til um: Gormi hinum gamla, Þyri konu hans, syni þeirra, Haraldi blátönn, og Sveini syni hans. Sögur af þessum Danakonungum koma engan veginn heim við lýsingar þeirra í evrópskum miðaldaheimildum. Haraldur Gormsson vegur Knút bróður sinn. Dánarfregnin ríður föður þeirra að fullu, og Haraldur verður konungur. Hákon Sigurðarson Hlaðajarl kemur til hirðar Haralds, og saman brugga þeir banaráð Gull-Haraldi, syni Knúts Gormssonar, Haraldi gráfeldi Noregskonungi og Gunnhildi móður hans. Þá segir frá herför Ottós „hins rauða“ Þýskalandskeisara til að kristna Danmörku og sigri hans með fulltingi Ólafs Tryggvasonar. Hákon kastar nýtekinni trú, flýr til Noregs og hættir að gjalda Haraldi skatt.

Jómsvíkinga saga er nánast eina heimildin sem segir frá Pálna-Tóka, aðalpersónu síðara hluta sögunnar. Haraldur Gormsson lætur drepa Áka Tókason, föðurbróður hans, og Pálna-Tóki hefnir hans á mjög niðurlægjandi hátt. Síðan víkur hann til Vindlands, reisir kastalann Jómsborg og stofnar þar víkingabræðralag. Þangað ráðast hinir fræknustu kappar. Sögunni lýkur á herferð Jómsvíkinga til Noregs þar sem þeir mæta Hákoni jarli og Eiríki syni hans í snarpri og tvísýnni orrustu í Hjörungavogi, en bíða ósigur. Frásögnin nær hámarki í lýsingunni á aftökum Jómsvíkinga, sem sýna mikið æðruleysi og hetjuskap og ögra böðlum sínum.

Sagan er fyrst og fremst skemmtisaga; höfundur lætur sér staðfræði og sannfræði í léttu rúmi liggja og sýnir konungum og öðrum höfðingjum algert virðingarleysi. Tvær drápur um bardagann í Hjörungavogi fylgja útgáfunni: Jómsvíkingadrápa eftir Bjarna Kolbeinsson Orkneyjabiskup og Búadrápa eftir Þorkel Gíslason. Þá fylgja þessu bindi konunga­sagna nokkrir þættir, sem einkum eru varðveittir í Flateyjarbók.

Kjalnesinga saga

Íslenzk fornrit XIV

Kjalnesinga saga

6.214,- / 4.971,-

Kjalnesinga saga

Íslenzk fornrit XIV

Kjalnesinga saga gerist á dögum Haralds hárfagra en er rituð á 14. öld, ýkjufull skemmti­saga sem minnir mjög á fornaldarsögur. Höfundur hefur verið kunnugur á söguslóðum og gefur mörgum persónum heiti eftir örnefnum. Aðalgarpur sögunnar er Búi Andríðsson; hann dvelst um skeið hjá Dofra konungi í Dofrafjalli í Noregi og getur soninn Jökul við Fríði dóttur hans. Þegar Jökull kemur til fundar við föður sinn vill hann ekki við honum gangast, og þreyta þeir fang sem lýkur svo að Búi bíður bana, en Jökull hverfur á braut. Einhverjum uppskrifara hefur ekki þótt nóg frá Jökli sagt og aukið við sérstökum Jökuls þætti Búasonar sem er enn ýktari en sagan, segir frá viðureign garpsins við tröll og forynjur og lýkur svo að hann verður konungur í Serklandi.


Víglundar saga er hugljúf frásögn af ástum þeirra Víglundar og Ketilríðar sem í fyrstu er mein­ að að eigast en ná þó saman að lokum. Sagan er með allra yngstu Íslendingasögum, samin undir sterkum áhrifum frá riddarasögum, og er Tristrams saga nánasta fyrirmyndin. Hún er prýdd með tregafullum dróttkvæðum stökum sem Víglundur kveður til ástmeyjar sinnar.


Króka-Refs saga er einnig ung skáldsaga, haglega rituð og einkar skemmtileg. Refur hlýtur viðurnefni sitt fyrir kænskubrögð sín sem aldrei bregðast. Snjallastur er orðaleikur hans þegar hann lýsir vígi Skálp-Grana á hendur sér, og minna gáturnar á skáldskaparmál Snorra- Eddu. Á kafla víkur sögunni til Grænlands þar sem Refur lendir í miklum ævintýrum.


Þórðar saga hreðu er til í tveim gerðum, og er önnur heil en hin í brotum. Sagan er að mestu leyti skáldskapur, en ekki í anda fornaldarsagna eða riddarasagna heldur stæling á eldri Íslendingasögum (Egils sögu, Njálu o.fl.). Þórður er kappi mikill sem verst árásum margra manna í senn ef á þarf að halda. Hann var hagleiksmaður mikill og smíðaði fræga skála í Flatatungu og víðar.


Finnboga saga er enn ein ýkjusagan frá 14. öld, löguð eftir eldri Íslendingasögum. Finnbogi rammi ólst upp á Flateyjardal norður. Hann er líkur Þórði hreðu að garpskap og vígfimi og berst létti­lega við ofurefli liðs. Sagan tengist Vatnsdælu þar sem segir frá skiptum Finnboga og frænda hans Bergs rakka við Ingimundarsyni. Hvor saga er vilhöll sínum hetjum, en auk þess liggja líklega að baki mismunandi munnmælasagnir sem valda því að margt ber á milli.


Gunnars saga Keldugnúpsfífls hefur mörg sömu efnisatriði sem Kjalnesinga saga og er líklega sniðin eftir henni. Hún er meðal allra yngstu Íslendingasagna.

Laxdæla saga

Íslenzk fornrit V

Laxdæla saga

6.214,- / 4.971,-

Laxdæla saga

Íslenzk fornrit V

Laxdæla saga segir frá ástum og vígaferlum fólks í Laxárdal í Dölum fyrir og eftir aldamótin 1000. Hún er sannfræðileg að því leyti að hún segir frá alkunnu fólki og styðst sýnilega við miklar munnmælasagnir. En jafnframt ber hún í lýsingum augljós merki riddarasagna sem þýddar voru úr frönsku á dögum Hákonar konungs gamla á 13. öld, og því er talið að sagan muni rituð nær miðbiki þeirrar aldar. Í upphafi sögunnar er sagt frá landnámi Auðar djúp­ úðgu og síðan frá niðjum hennar, en allt stefnir að uppruna og viðgangi hins göfga höfðingja Ólafs pá í Hjarðarholti. Síðan koma til sögu Kjartan sonur hans og Bolli frændi hans og fóstursonur, og með ástum Kjartans og Guðrúnar Ósvífursdóttur tekur að hitna í kolunum. Guðrún er síðan sá meginás sem sagan hverfist um. Bolli ann henni einnig og fær hennar með nokkrum óheilindum. Þegar Kjartan kemur heim úr Noregsför og spyr gjaforð Guðrúnar taka ástir þeirra hamskiptum, og úfar rísa með frændum og fornvinum. Að eggjan Guðrúnar sitja bræður hennar og bóndi fyrir Kjartani fáliðuðum, og Bolli veitir honum banasár. En hvert víg kallar á hefnd. Bræður Kjartans fara með lið á hendur Bolla og vega hann þar sem hann er einn fyrir í seli með Guðrúnu; og í fyllingu tímans hefna synir þeirra föður síns og vega þann sem veitti honum banasár og þerrði blóð af spjóti sínu á blæju Guðrúnar. Sjálf lifir hún sína fjóra eiginmenn sem henni höfðu birst í táknrænum draumi á ungum aldri. Þegar hinn glæsti sonur hennar, Bolli Bollason, spyr hverjum manni hún hafi mest unnað, svarar hún með fleygustu orðum íslenskrar tungu: „Þeim var ég verst er ég unni mest.“


Halldórs þættir Snorrasonar eru auðkenndir I og II eða hinn fyrri og hinn síðari. Fyrri þáttur­inn er fremur sviplítil saga sem segir frá skiptum Halldórs við Einar þambarskelfi og Bergljótu konu hans. En síðari þátturinn er meðal gimsteina íslenskrar sagnalistar. Halldór fór á ungum aldri með Haraldi Sigurðarsyni suður til Miklagarðs og leysti þar ýmsar þrautir með konung­sefninu sem um má lesa í Morkinskinnu og Heimskringlu. Í þættinum er því lýst hversu vin­átta þeirra kólnar smám saman eftir heimkomuna til Noregs. Þverlyndi Halldórs og kappgirni stangast við konunglegan metnað sem þróast með Haraldi eftir að hann er sestur á veldisstólinn.


Stúfs þáttur er varðveittur í tveim gerðum, bæði sem sjálfstæð saga og sem innskot í konungasögur. Þetta er skemmtileg saga um rogginn Íslending sem stendur vel fyrir sínu við hirð Haralds konungs Sigurðarsonar.

Ljósvetninga saga

Íslenzk fornrit X

Ljósvetninga saga

6.214,- / 4.971,-

Ljósvetninga saga

Íslenzk fornrit X

Ljósvetninga saga er varðveitt í tveimur gerðum, eldri gerð sem aðeins er til í brotum og yngri gerð sem er samfelld en aukin nokkrum sjálfstæðum þáttum sem varla hafa verið í frumgerðinni. Þannig er sagan illa varðveitt, og auk þess mun hún frá upphafi hafa verið óhagleg í sniðum og samsett af þremur mjög svo sundurleitum hlutum. Í fyrsta hluta segir frá deilum manna vegna óspektarmanns er Sölmundur hét. Í miðhlutanum segir frá því er Þórir Helgason á Laugalandi í Hörgárdal og Þorkell hákur á Öxará, sonur Þorgeirs goða á Ljósavatni, komu á flot illmæli um Guðmund ríka á Möðruvöllum. Lýkur svo að Guðmundur fer að Þorkatli og fellir hann eftir vasklega vörn. Í síðasta hluta sögunnar segir frá margvís­ legum ófriði milli yngri kynslóða, niðja Guðmundar ríka og Þorgeirs goða. Talið hefur verið að sagan muni rituð um eða eftir miðja 13. öld. En síðustu atburðir hennar gerast eftir miðja 11. öld, og teygist hún þannig nær í tíma en títt er um Íslendingasögur. Svipmót hennar við samtíðarsögur (Sturlungasögur og konungasögur) og tengsl við persónur þeirra, svo og frumstæð úrvinnsla úr munnmælasögnum, bendir til að hún kunni að vera með elstu Íslendingasögum, rituð á öndverðri 13. öld.


Reykdæla saga gerist á svipuðum slóðum sem Ljósvetninga saga en fyrr í tíma, á 10. öld, og því snertast sögurnar lítt. Reykdæla skiptist nokkuð glögglega í tvo hluta, og er fyrri hlutinn stundum kenndur við Vémund kögur (1.–16. kap.), en síðari hlutinn við Víga-Skútu (17.–30. kap.). Önnur aðalpersóna í fyrra hlutanum er móðurbróðir ribbaldans Vémundar, Áskell goði, sem jafnan reynir að koma á sættum og leynir banasári sínu til að firra vand­ ræðum; göfugur heiðingi mótaður af söguhöfundi eftir kristnum siðaboðum. Sagan skiptist ekki aðeins í tvo meginkafla heldur og í marga smáþætti sem eru bláþráðum tengdir og því líkir að vera böngulega samdir eftir munnmælasögnum. Aldur sögunnar er óvís, en frum­ stæð gerð hennar og tíðar vísanir til munnmælasagna eru hvort tveggja fornleg einkenni.


Hreiðars þáttur er ein af perlum fornbókmenntanna. Hreiðar er heimóttarlegur íslenskur piltur sem leitar frama við hirð Noregskonungs en er hafður þar að spotti. Hann virðist fákænn en veit þó sínu viti undir niðri, enda reynist hann afreksmaður í mörgum greinum og mannast svo sem á söguna líður. Þó skilur hann að honum hentar best að hverfa heim í Svarfaðardal þar sem hann „gerist mikill maður fyrir sér“ og býr til elli.

Morkinskinna I-II

Íslenzk fornrit XXIII-XXIV

Morkinskinna I-II

10.363,- / 8.290,-

Morkinskinna I-II

Íslenzk fornrit XXIII-XXIV

Morkinskinna er mikið konungasagnarit frá fyrra hluta 13. aldar og greinir frá þeim konungum sem ríktu í Noregi eftir fall Ólafs helga á Stiklarstöðum árið 1030. Ritið mun í öndverðu hafa náð fram til þess tíma er Sverrir Sigurðarson tekur að berjast til valda í Noregi seint á 12. öld, en niðurlagið er glatað. Hér er á ferð elsta rit þar sem saga margra konunga er rakin ítarlega.

Í fyrra bindi útgáfunnar eru sögur Magnúsar góða Ólafssonar og Haralds harðráða Sigurðarsonar. Segir fyrst frá því er Magnús er tekinn úr fóstri austur í Garðaríki og settur á konungsstól í Noregi. Þegar hann vex úr grasi verður hann um hríð harður stjórnandi, en mildast við áminningu Sighvats skálds og er síðan nefndur Magnús hinn góði. Á seinasta ríkisári Magnúsar kemur Haraldur Sigurðarson föðurbróðir hans í Noreg, og þeir frændur ríkja þá saman um hríð. Síðan deyr Magnús skyndilega, og ríkir Haraldur einn eftir það. Haraldur er mikill ævintýramaður sem dvaldist ungur suður í Miklagarði og drýgði margar dáðir, en þegnum hans þótti hann öllu harðráðari en Magnús. Hann nýtur þó álits fyrir visku sína og dálæti á sagnalist og fær þá einkunn að hafa verið besti vinur Íslendinga meðal Noregskonunga. Sögu Haralds lýkur með örlagaríkri herferð hans til Bretlandseyja og falli hans í miklum bardaga við Stamfurðubryggju (Stamford Bridge) í Englandi árið 1066.

Í síðara bindi eru sögur þeirra konunga sem ríktu í Noregi eftir fall Haralds konungs harðráða. Fyrstur réð ríkjum Ólafur kyrri sonur hans. Ríkisár hans eru friðsöm og gjöful, en litlum sögum fer af þeim. Sonur Ólafs er Magnús berfættur sem er mikill hermaður og refsivöndur nágrannanna bæði í austri og vestri. Eftir fall hans á Írlandi 1103 skiptist ríkið milli sona hans sem eru ólíkir menn. Sigurður verður frægur fyrir Jórsalaferð sína í æsku, en Eysteinn bróðir hans reynist öflugur ríkisstjórnandi, lagamaður og ástsæll vinur þegna sinna. Noregur stendur í blóma á ríkisárum þeirra bræðra, en eftir það sígur á ógæfuhliðina. Við taka grimmir og óvitrir konungar, og brátt ríkir borgarastyrjöld í Noregi. Bræður berjast, og sér ekki fyrir endann á þeirri ófriðaröld þegar ritinu lýkur.

Ein höfuðprýði Morkinskinnu eru hinar mörgu frásagnir af samskiptum konunga við Íslendinga sem dveljast í Noregi, hinir svonefndu Íslendingaþættir. Sumir þeirra eru meðal meistaraverka íslenskra bókmennta, svo sem Auðunar þáttur vestfirska, Halldórs þáttur Snorrasonar, Hreiðars þáttur heimska og Sneglu-Halla þáttur. Þá er þess að geta að fá íslensk sagnarit geyma svo margar vísur sem Morkinskinna, og er talsverður hluti þeirra hvergi annars staðar varðveittur.

Orkneyinga saga

Íslenzk fornrit XXXIV

Orkneyinga saga

6.214,- / 4.971,-

Orkneyinga saga

Íslenzk fornrit XXXIV

Orkneyinga saga greinir frá Orkneyjajörlum frá því um 900 og fram á 13. öld. Sumir telja að svo sem sagan er til okkar komin sé hún yngri en Heimskringla, en einhverja Orkneyinga sögu hefur Snorri þekkt, sem hann kallar Jarla sögu(r), og hefur hún verið stofn þeirrar sögu sem varðveitt er. Sagan ber þess glögg merki að hún hefst sem fortíðarsaga og breytist síðan smám saman yfir í samtíðarsögu. Hún er stórmerk heimild og segir frá mörgum áhrifa­miklum atburðum. Bent hefur verið á tengsl Orkneyinga við Oddaverja og einnig við Hvassafellsmenn í Eyjafirði, niðja Þorgeirs Hallasonar (d. 1169). Til þessara tengsla kynni að mega rekja ritun sögunnar.


Legenda de sancto Magno, stutt helgisaga Magnúsar Eyjajarls á latínu, er prentuð hér ásamt íslenskri þýðingu útgefandans.

Um Magnús Erlendsson Eyjajarl hinn helga eru til tvær sjálfstæðar sögur:


Magnúss saga skemmri er framan af útdráttur úr Orkneyinga sögu, en síðan er henni fylgt nokkuð nákvæmlega þegar kemur að frásögnum af helgum Magnúsi.


Magnúss saga lengri hefur verið eignuð Bergi Sokkasyni sem ábóti var á Munkaþverá á 14. öld. Sagan er að nokkru byggð á Orkneyinga sögu, en langir kaflar eru þýðing úr latínu­ riti eftir Robert frá Cricklade, príor í Oxford, sem uppi var á 12. öld.


Helga þáttur og Úlfs gerist í Orkneyjum kringum 1000 en er saminn á 14. öld. Þetta er skáldleg dæmisaga um þróun þriggja kynslóða frá grimmri heiðni til göfugrar kristni.

Sverris saga

Íslenzk fornrit XXX

Sverris saga

6.214,- / 4.971,-

Sverris saga

Íslenzk fornrit XXX

Sverris saga er eitt af stórvirkjum íslenskra bókmennta, eins og Sigurður Nordal komst að orði. Þetta er samtímasaga, ævisaga Sverris Sigurðarsonar Noregskonungs (d. 1202), elsta veraldlega konungasagan sem varðveitt er í heild. Samkvæmt formála er upphaf sögunnar ritað af Karli ábóta Jónssyni í viðurvist Sverris sjálfs, sem „réð fyrir hvað rita skyldi“. Sagan er rituð af mikilli list og persónulýsing konungsins er ein sú skýrasta og blæbrigðaríkasta sem fyrirfinnst í fornum sögum.

Sverrir Sigurðarson ólst upp í Færeyjum og var þar settur til bókar og vígður til prests. Hann er samkvæmt sögunni 24 ára gamall þegar hann kemst að því að hann er í raun laun­ sonur Sigurðar konungs Haraldssonar sem var auknefndur munnur, og þá býr hann ferð sína til Noregs til að „sjá hvað í vill gerast“. Átta árum síðar hefur hann lagt alla helstu andstæð­inga sína að velli og er einn viðurkenndur konungur yfir öllum Noregi. Sverrir sat hins vegar ekki lengi á friðarstóli. Sífellt efldust ófriðarflokkar gegn honum, auk þess sem hann átti í hörðum deilum við kirkjuna og var bannfærður af páfa 1198. Sagan lýsir þessum átökum vel frá sjónar­ hóli Sverris. Þá eru í Viðauka þessarar útgáfu prentuð brot úr ýmsum samtíma­heimildum sem varpa á þau ljósi úr öðrum áttum. Þessi rit eru svonefnd Ræða gegn biskupum sem rituð var undir handarjaðri Sverris sjálfs, Danasaga Saxa hins málspaka og þrjú ensk sagnarit frá því um 1200.

Meðal þess sem sagan hefur að geyma eru margar mjög merkilegar ræður sem Sverrir á að hafa flutt yfir mönnum sínum, og þarna er einnig lýst draumum Sverris og þeirri herstjórnarlist sem í fyllingu tímans lyfti þessum ókunna og allslausa presti frá Færeyjum upp í veldisstól norska konungsríkisins. Álit samtímamanna á list og heimildargildi sögunnar birtist í því meðal annars að allir síðari höfundar Noregskonungasagna, að Snorra Sturlusyni meðtöldum, ljúka umfjöllun sinni árið 1177, árið sem Sverrir gerðist foringi fámenns og illa búins hers Birkibeina og hóf að brjótast til valda.

Vatnsdæla saga

Íslenzk fornrit VIII

Vatnsdæla saga

6.214,- / 4.971,-

Vatnsdæla saga

Íslenzk fornrit VIII

Uppseld

Vatnsdæla saga er ættarsaga Vatnsdæla frá landnámi Ingimundar gamla um 900 fram til dauða Þorkels kröflu í upphafi 11. aldar. Höfundur sýnir hneigð til að skipta söguhetjum í flokka. Sumir eru vitrir og göfgir (Ingimundur, Þorsteinn sonur hans og Þorkell krafla dóttursonar-sonur hans); aðrir eru óspakir og flasfengnir (Bergur rakki, Jökull Ingimundarson), enn aðrir illir og göldróttir (Þórólfur sleggja, Hrolleifur mikli og Ljót móðir hans). Sagan skerst í hóp yngri sagna með ýkjum sínum og grunnum mannlýsingum, en þó hlýtur hún að vera nokkuð gömul því að endursögn hennar er í Sturlubók Landnámu.


Hallfreðar saga greinir frá skrykkjóttum ástum Hallfreðar og Kolfinnu Ámundadóttur, en öðrum þræði gerist sagan erlendis og segir meðal annars frá skiptum Hallfreðar við Ólaf konung Tryggvason. Hallfreður var skáld konungsins og orti um hann fræga erfidrápu. Sagan er gamansöm og ágætavel sögð. Hún tengist ýmsum öðrum fornsögum, meðal annars Heims­kringlu, og hefur verið talið að hún sé eldri en Heimskringla og hafi Snorri notað hana.


Kormáks saga er skyld Hallfreðar sögu að efni. Báðir sögugarparnir eiga sér ástkonur og yrkja um þær skrautlegar vísur, en sýna kynlega ófýsi til að kvænast þeim. Almennt er talið að Kormáks saga sé eldri og hafi haft áhrif á yngri söguna. Sú skoðun hefur komið fram að Kormáks saga muni vera hreint skáldverk og vísurnar ortar sem þáttur í frásögninni. Fleiri telja þó að vísurnar séu fornar, líklega með réttu eignaðar Kormáki, og sagan sé spunnin út frá efni þeirra.


Hrómundar þáttur halta greinir frá hrikalegum atburðum sem gerðust í Hrútafirði seint á 10. öld. Hrómundur þjófkennir flokk yfirgangssamra austmanna og lætur dæma þá seka á alþingi. Þeir sækja hann heim á bæ hans og fella hann eftir frækilega vörn; austmenn falla sumir en aðrir flýja fyrir Hallsteini syni Hrómundar sem uppi stendur. Í þættinum eru þrjár vísur eignaðar Hrómundi. Í Landnámu er ágrip þáttarins, og þar eru fleiri vísur en í sjálfum þættinum. Bendir það til að hann kunni að vera styttur í sinni varðveittu gerð.


Hrafns þáttur Guðrúnarsonar er dæmisaga um góðan dreng sem ratar í raunir, en sleppur þó óskaddaður með tilstyrk góðra vina. Að lokum nýtur hann sjálfs Ólafs helga sem birtist Magnúsi syni sínum framliðinn í draumi.

Vestfirðinga sögur

Íslenzk fornrit VI

Vestfirðinga sögur

6.214,- / 4.971,-

Vestfirðinga sögur

Íslenzk fornrit VI

Gísla saga Súrssonar er ein hin vinsælasta í flokki hinna skemmri Íslendingasagna. Efnið er harmsögulegt og þó kímni blandið, áhrifameira vegna þess að við eigast nánir ættingjar, venslamenn og vinir. Gísli vegur mág sinn til hefnda eftir annan mág, er dæmdur sekur skógarmaður og þolir útlegð lengst allra Íslendinga næstur Gretti, ofsóttur af fjandmönnum uns hann er felldur eftir frækilega vörn. Hann er skáld gott og yrkir um andstreymi sitt og illa drauma, en kona hans Auður veitir honum styrk og fylgir honum að síðustu í útlegðinni af óbilandi tryggð.


Fóstbræðra saga segir frá Þorgeiri Hávarssyni og Þormóði Kolbrúnarskáldi. Þeir sórust á ungum aldri í fóstbræðralag og hétu því „að sá þeirra skyldi annars hefna er lengur lifði“. Þormóður er skáld og ásthneigður, en Þorgeir óspektarmaður og vegur menn af litlu tilefni. Eftir víg Þorgeirs fer Þormóður til Grænlands að hefna hans og lendir þar í miklum ævintýrum. Hann er giftumaður og áform hans ná fram að ganga – einnig sú ósk að hann fái að falla á Stiklarstöðum með konungi sínum, Ólafi helga, en í frásögninni af dauða Þormóðar rís list sögunnar hæst.


Þáttur Þormóðar segir frá því hversu Þormóður Kolbrúnarskáld komst á fund Knúts ríka Dana­konungs og síðan Ólafs helga Noregskonungs. Þátturinn er að mestu óháður Fóstbræðra sögu. Hann er varðveittur í Flateyjarbók og einnig í Elstu sögu (Helgisögu) Ólafs helga, og sýnir það að hann er ærið forn.


Hávarðar saga Ísfirðings er blandin ýkjum fornaldarsagna og vafalaust frá yngsta skeiði Íslendingasagna á 14. öld. Persónur skiptast í tvo flokka, illar og góðar. Varmennið Þorbjörn vegur Ólaf bjarnyl, son Hávarðar, en faðirinn hefnir sonarins með vaskleik eftir að hafa legið sorgfullur í rekkju sinni í þrjá vetur.


Auðunar þáttur vestfirzka er einn hinn frægasti og snjallasti allra Íslendingaþátta. Þetta er dæmisaga um þrautseigan mann og trygglyndan sem stenst hættur og mannraunir til að fullkomna sitt ætlunarverk, hlýtur að verðleikum stórgjafir af erlendum konungum, en jafnar metin fullkomlega með sinni eigin gjöf að sögulokum.


Þorvarðar þáttur krákunefs er einnig dæmisaga um Íslending sem færir erlendum konungi ríkulega gjöf, en hlutverkaskipan er önnur og ekki heldur jafn haglega lagt á vogarskálarnar sem í Auðunar þætti.

Íslensk fornrit

Showing 17–29 of 29 results