Við fögnum fjölbreyttri og glæsilegri útgáfu á þessu 200 ára starfsafmæli Hins íslenska bókmenntafélags. Alls eru þetta 19 titlar sem koma út nú í ár og af því tilefni höldum við útgáfuhóf n.k. miðvikudag kl. 17 í Garðastræti 37 (húsnæði GAMMA).
Sigurður Líndal prófessor var forseti Hins íslenska bókmenntafélags í ein 48 ár, lengur en nokkur annar fyrr eða síðar. Sigurður tók hið forna félag að sér skömmu eftir 150 ára afmæli þess og var nýhættur störfum þegar 200 ára afmæli félagsins var fagnað árið 2016. Það kom í hans hlut að ferja þetta forna félag gegnum umbrotatíma og breyta því varanlega.
Óhætt er að kalla forsetaár Sigurðar blómaskeið í sögu félagsins að mörgu leyti. Má nefna ritröðina Lærdómsrit Bókmenntafélagsins sem hleypt var af stokkunum árið 1970 og eru þau nú á annað hundrað. Einnig ritstýrði Sigurður Líndal Sögu Íslands í ellefu bindum í tilefni 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar og skrifaði sjálfur ýmsa kafla í ritið. Hann ritstýrði einnig Skírni á tímabili og sat í stjórn Hins íslenska fornritafélags. Spor Sigurðar í íslensku bókmenntalífi eru stór og varanleg.
Ásamt Bókmenntafélaginu helgaði Sigurður Líndal Háskóla Íslands sín bestu ár. Hann var ekki síður sérfróður um sagnfræði en lögfræði og setti það mjög svip á störf hans. Hann kenndi réttarsögu við Háskóla Íslands áratugum saman og lét eftir sig mörg fræðirit á þessu sviði. Auk þess var hann margoft ráðunautur stjórnvalda í mikilvægum málum, m.a. þegar kom að endurskoðun stjórnarskrárinnar.
Sigurður Líndal var þægilegur í viðkynningu, lipur sögumaður, ritfær og greinargóður túlkandi laga og sögu, atorkumikill félagsmálamaður, fylginn sér en lagið að leysa úr flækjum og miðla málum. Bókmenntafélagið þakkar honum trausta forystu áratugum saman og farsælt og gott starf í þágu félagsins.
verður haldinn í Eddu – húsi íslenskunnar, laugardaginn 18. nóvember kl. 15. Dagskrá: 1. Venjuleg aðalfundarstörf, sbr. 18.–20. gr. félagslaga.
Erindi: Að loknum aðalfundarstörfum flytur Ásta Kristín Benediktsdóttir erindi um módernistann Jakobínu Sigurðardóttur.
Félagsmenn eru hvattir til að mæta og þiggja kaffiveitingar í boði félagsins.
Stjórn og fulltrúaráð.
BRIM GERIST BAKHJARL HINS ÍSLENSKA BÓKMENNTAFÉLAGS
Brim gerist bakhjarl Hins íslenska bókmenntafélags
Sjávarútvegsfyrirtækið Brim hf. og Hið íslenska bókmenntafélag hafa gert með sér samstarfs- og styrktarsamning þess efnis að Brim gerist bakhjarl félagsins til næstu fjögurra ára og styrkir félagið um 16 milljónir króna á því tímabili.
Samningnum er ætlað að efla starfsemi Bókmenntafélagsins, einkum útgáfustarf þess, í þeim tilgangi að styðja og styrkja íslenska tungu og koma á framfæri vönduðum ritum á sviði menningar- og atvinnusögu um leið og horft er til framtíðar.
Brim er eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins með starfsstöðvar víða um land og gerir út fjölda veiðiskipa. Brim er í forystuhlutverki hvað varðar samfélagsábyrgð fyrirtækja í atvinnurekstri og leggur ríka áherslu á umhverfismál og nýsköpun í starfsemi sinni. Brim tekur þannig virkan þátt í uppbyggingu íslensks samfélags. Íslensk tunga er snar þáttur í samheldni og styrk samfélagsins og er í reynd hluti af þeim mikilvægu innviðum þess sem Brim vill efla.
Bókmenntafélagið hefur gegnt mikilvægu menningarhlutverki frá stofnun þess árið 1816 með útgáfu fræði- forn- og menningarrita. Þannig hefur félagið stutt margvísleg fræðistörf og varðveislu og eflingu íslenskrar tungu. Félagið var mikilvægur starfsvettvangur þeirra manna sem hrundu af stað sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á nítjándu öld. Hún byggðist á því að reisa við sjálfstæðar menntir og menningu í landinu undir forystu Íslendinga sjálfra. Þeir gerðu sér ljóst að tungumálið – þetta mál sem við tölum enn – er dýrasti þáttur íslenskrar menningar. Félagið hefur starfað óslitið í 205 ár. Í því starfi er fólgin menningararfleifð sem núlifandi kynslóð ber að ávaxta, efla og endurnýja.
Bókmenntaarfurinn og allt sem er honum tengt er óaðskiljanlegur hluti íslenskrar menningar en atvinnuvegir þjóðarinnar eru einnig snar þáttur í íslenskri menningu um leið og þeir eru forsenda og undirstaða hagsældar. Það er sérstaklega ánægjulegt að Brim sem leiðandi sjávarúrvegsfyrirtæki landsins skuli nú ákveða að gera þennan styrktar- og samstarfssamning við Bókmenntafélagið og gerast þannig bakhjarl þess.
Það er afar mikilvægt að menningarfyrirtæki njóti stuðnings frá atvinnulífinu. Vonir eru við það bundnar að hið glæsilega fordæmi sem Brim hefur sett geti orðið öðrum til eftirbreytni.
KOSNING FORSETA OG VARAFORSETA
Hins íslenska bókmenntafélags til ársloka 2022 hefur farið fram.
Jón Sigurðsson, fv. bankastjóri Norræna fjárfestingarbankans, var endurkjörinn sem forseti, Ármann Jakobsson, prófessor, var endurkjörinn sem varaforseti.
Í fulltrúaráð félagsins voru að þessu sinni endurkjörnir
Reynir Axelsson, dósent og Ármann Jakobsson, prófessor.
Í ráðinu sitja einnig Auður Hauksdóttir prófessor, Björg Thorarensen, hæstaréttardómari, Snjólaug G. Ólafsdóttir, fv. skrifstofustjóri Norðurlandaskrifstofu stjórnarráðsins og Þorsteinn Hilmarsson, sviðsstjóri.
AÐALFUNDUR HINS ÍSLENSKA BÓKMENNTAFÉLAGS
verður haldinn 9. febrúar 2021 kl 16:00 sem fjarfundur (zoom)
Félagsmenn eru hvattir til að taka þátt í aðalfundinum og eru vinsamlegast beðnir að staðfesta þátttöku sína með með tölvupósti til hib@hib.is. Væntanlegir þátttakendur munu fá fundargögn send fyrir fundinn með tölvupósti í það tölvupóstfang sem þeir gefa upp fyrir fundinn.
Kosning forseta og varaforseta Hins íslenska bókmenntafélags og manna í fulltrúaráð félagsins árið 2021.
Kjósa skal forseta og varaforseta sérstaklega til ársloka 2022. Jón Sigurðsson fv. ráðherra og forstjóri Norræna fjárfestingarbankans sem verið hefur forseti félagsins frá 2015 gefur kost á sér til endurkjörs. Stjórn og fulltrúaráð leggja til að Jón verði kosinn forseti félagsins til ársloka 2022.
Ármann Jakobsson sem verið hefur varaforseti félagsins frá 2017 gefur kost á sér til endurkjörs. Stjórn og fulltrúaráð leggja til að Ármann verði kosinn varaforseti félagsins til ársloka 2022.
Í fulltrúaráð félagsins skal kjósa tvo menn til ársloka 2026. Reynir Axelsson gefur kost á endurkjöri. Ármann Jakobsson gefur einnig kost á endurkjöri og stjórn og fulltrúaráð leggja til að þeir verði kosnir í fulltrúaráð til ársloka 2026.
Fulltrúaráð félagsins skipa nú:
Reynir Axelsson dósent til ársloka 2020.
Auður Hauksdóttir prófessor til ársloka 2022.
Þorsteinn Hilmarsson sviðstjóri til ársloka 2022.
Björg Thorarensen hæstaréttardómari til ársloka 2024.
Snjólaug G. Ólafsdóttir lögfræðingur til ársloka 2024.
Ármann Jakobsson prófessor til ársloka 2020.
Kjörgengir til embættis forseta, varaforseta og í fulltrúaráð eru allir félagsmenn.
Skrá yfir félaga í Hinu íslenska bókmenntafélagi fylgdi hausthefti Skírnis 2020. Kjörgögn hafa verið send öllum félagsmönnum í pósti; fylgibréf, kjörseðill og tvö umslög. Á kjörseðlinum sem fylgir á grænu blaði er kjósandi beðinn um að rita nöfn þeirra manna sem hann vill kjósa í hverja stöðu. Kjörseðilinn skal láta í umslag merkt Kjörseðill og senda það lokað ásamt fylgibréfi í umslagi merktu KJÖRSTJÓRI BÓKMENNTAFÉLAGSINS, Hagatorgi, 107 Reykjavík fyrir janúarlok 2021.
AÐALFUNDI 2020 FRESTAÐ
Aðalfundi Hins íslenska bókmenntafélags, sem átti að vera þann 12. desember, hefur verið frestað þar til í janúar, af augljósum ástæðum.
Nánari upplýsingar birtast hér á vefnum þegar nær dregur.
SVERRIR KRISTINSSONKJÖRINNHEIÐURSFÉLAGI
Á aðalfundi Hins íslenska bókmenntafélags þann 17. nóvember var lögð fram einróma tillaga forseta og fulltrúaráðs að Sverrir Kristinsson yrði gerður að heiðursfélaga Bókmenntafélagsins í virðingar- og viðurkenningarskyni. Var það samþykkt með lófataki. Hið íslenska bókmenntafélag þakkar honum farsæl störf sem bókavörður félagsins í hálfa öld og mikilvægt framlag hans til eflingar menningarlegri bókaútgáfu á Íslandi á sviði bókmennta, sögu, minja og myndlistar.
Aðalfundur Hins íslenska bókmenntafélags 2018
verður haldinn á Hótel Sögu, 2. hæð í Heklu II, laugardaginn 17. nóvember kl. 14:30
Dagskrá: 1. Venjuleg aðalfundarstörf, sbr. 18.–20. gr. félagslaga. 2. Kosning heiðursfélaga, sbr. 23. gr. félagslaga.
Erindi: Að loknum aðalfundarstörfum flytur Haraldur Bernharðsson, dósent við Háskóla Íslands, erindi sem hann kallar Umhverfi íslenskrar tungu 1818, 1918 og 2018. Fyrirspurnir og umræður að erindi loknu. Félagsmenn eru hvattir til þess að fjölmenna og þiggja kaffiveitingar í boði félagsins.
Stjórn og fulltrúaráð.
Svipmyndir af nokkrum forvígismönnum í 200 ára sögu Hins íslenska bókmenntafélags. Úr dagskrá sem flutt var á afmælishátíð Bókmenntafélagsins í Ráðhúsi Reykjavík þann 19. nóvember 2016.