Kveðja frá Hinu íslenska bókmenntafélagi

 

Sigurður Líndal prófessor var forseti Hins íslenska bókmenntafélags í ein 48 ár, lengur en nokkur annar fyrr eða síðar. Sigurður tók hið forna félag að sér skömmu eftir 150 ára afmæli þess og var nýhættur störfum þegar 200 ára afmæli félagsins var fagnað árið 2016. Það kom í hans hlut að ferja þetta forna félag gegnum umbrotatíma og breyta því varanlega.   

Óhætt er að kalla forsetaár Sigurðar blómaskeið í sögu félagsins að mörgu leyti. Má nefna ritröðina Lærdómsrit Bókmenntafélagsins sem hleypt var af stokkunum árið 1970 og eru þau nú á annað hundrað. Einnig ritstýrði Sigurður Líndal Sögu Íslands í ellefu bindum í tilefni 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar og skrifaði sjálfur ýmsa kafla í ritið. Hann ritstýrði einnig Skírni á tímabili og sat í stjórn Hins íslenska fornritafélags. Spor Sigurðar í íslensku bókmenntalífi eru stór og varanleg.   

Ásamt Bókmenntafélaginu helgaði Sigurður Líndal Háskóla Íslands sín bestu ár. Hann var ekki síður sérfróður um sagnfræði en lögfræði og setti það mjög svip á störf hans. Hann kenndi réttarsögu við Háskóla Íslands áratugum saman og lét eftir sig mörg fræðirit á þessu sviði. Auk þess var hann margoft ráðunautur stjórnvalda í mikilvægum málum, m.a. þegar kom að endurskoðun stjórnarskrárinnar.  

Sigurður Líndal var þægilegur í viðkynningu, lipur sögumaður, ritfær og greinargóður túlkandi laga og sögu, atorkumikill félagsmálamaður, fylginn sér en lagið að leysa úr flækjum og miðla málum. Bókmenntafélagið þakkar honum trausta forystu áratugum saman og farsælt og gott starf í þágu félagsins.