Marteinn Lúther

Gunnar Kristjánsson

Marteinn Lúther

7.990,- / 6.392,-

Marteinn Lúther

Gunnar Kristjánsson

Svipmyndir úr siðbótasögu.

Siðbótartíminn á fyrri hluta sextándu aldar hafði mikil áhrif á þróun vestrænnar sögu. Áhrifin teygðu sig vítt og breitt um álfuna og höfðu djúptæk og varanleg áhrif hér á landi. Marteinn Lúther var bannfærður og fordæmdur um alla eilífð af kirkjuyfirvöldum og gerður útlægur og réttdræpur af veraldlegum yfirvöldum. Hann var litríkur persónuleiki sem naut mikillar alþýðuhylli. Siðbótartíminn var tímabil mikilla breytinga á meginlandi Evrópu. Þessari bók er ætlað að opna áhugasömum lesendum dyrnar inn í þann heim. Höfundur bókarinnar, Gunnar Kristjánsson prófastur á Reynivöllum í Kjós, hefur um langt árabil stundað rannsóknir á siðbótartímanum. Hér er brugðið upp svipmyndum af þessu viðburðaríka tímabili.

Menning við ysta haf. Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða

Menning við ysta haf. Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða

7.500,- / 6.000,-

Menning við ysta haf. Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða

Markmiðið með útgáfu þessa greinasafns er að skapa samræðu um þetta efni og kortleggja um leið þó ekki væri nema brot af þeim handritum og bókmenntaverkum sem rísa úr djúpinu frá miðöldum til okkar tíma.
Þegar spáð er í íslenska bókmennta- og menningarsögu má sjá hvernig mörg merkisverk íslenskra bókmennta eiga rætur sínar að rekja til Vestfjarða og Stranda. Markmiðið með útgáfunni á greinasafninu Menning við yst haf er að skapa samræðu um þetta efni og kortleggja um leið þó ekki væri nema brot af þeim handritum og bókmenntaverkum sem rísa úr djúpinu frá miðöldum til okkar tíma. Útgáfan er lokahluti verkefnisins Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða (2017–2021) og byggir að hluta á erindum sem flutt voru á Hrafnseyri (sumarið 2017) og tveimur málþingum á Ísafirði, (2018 í Edinborgarhúsinu og 2021 í Safnahúsinu). Tilurð verkefnisins hvílir í sumarnámskeiði Íslenskudeildar Manitoba-háskóla á Vestfjörðum (2007-2015) og samstarfi deildarinnar í því efni við Háskólasetur Vestfjarða. Verkefnið hefur notið stuðnings prófessorsembættis Jóns Sigurðssonar við Háskóla Ísland sem Guðmundur Hálfdanarson gegnir og hann skrifar formála bókarinnar.Greinarhöfundar eru fræðimenn og rithöfundar frá Íslandi, Kanada og Danmörku, og ritstjórar bókarinnar eru Birna Bjarnadóttir, rannsóknasérfræðingur við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, og Ingi Björn Guðnason, bókmenntafræðingur og staðarhaldari á Hrafnseyri.

Mennt og máttur

Max Weber

Mennt og máttur

3.490,- / 2.792,-

Mennt og máttur

Max Weber

Þýðing: Helgi Skúli Kjartansson.

Inngang ritar Sigurður Líndal.

Max Weber var ótvíræður frumkvöðull á sviði félagsfræða og gætir áhrifa hans víða innan þeirra og annarra skyldra greina. Hann lauk aftur á móti doktorsprófi í lögfræði, gegndi prófessorsstöðu í hagfræði og var þar að auki vel að sér í sagnfræði og heimspeki. Enn fremur fjallaði þessi mikli fræðimaður mjög um stjórnmál eftir að heimsstyrjöldin fyrri braust út og tók sjálfur virkan þátt í þeim.

Skarpskyggni Webers og frumleiki koma skýrt fram í fyrirlestrunum tveimur sem þessi bók hefur að geyma. Í þeim fyrri, um starf fræðimannsins, gerir hann grein fyrir hinni umdeildu kenningu sinni um hlutleysi vísindanna. Samkvæmt henni geta vísindi og fræði aldrei leiðbeint okkur um gildismat og jafnvel sjálf markmið þekkingarleitarinnar eru skilgreind óháð þeim. Viðhorf Webers tengist þeirri kenningu hans að vestræn menning hafi um langt skeið einkennst af framsókn vissrar tegundar reglubundins skilnings þar sem röklega skilgreind hugtök séu lögð til grundvallar skipulagningu og sjálfsskilningi samfélaga.  Þessi staðreynd er í sjálfri sér hvorki jákvæð né neikvæð en afleiðingar hennar eru samfélagsgerð okkar, þar á meðal efnahagskerfið, sem söguspeki Webers fæst að miklu leyti við að greina. Hlutleysi vísindanna er önnur slík afleiðing. Weber hvetur fólk til að horfast í augu við þann veruleika, sem vísindi og fræði hafa leitt í ljós, að mannlífið hljóti ávallt að fela í sér átök ósættanlegra viðhorfa sem þau sjálf séu ófær um að meta, hversu nöturlegur sem sá veruleiki sé.

Seinni fyrirlesturinn fjallar um félagsfræði ríkisins og siðfræði stjórnmála. Sérhverja siðferðilega athöfn segir hann vera réttlætta ýmist með tilliti til svonefnds hugarfarssiðgæðis eða ábyrgðarsiðgæðis, sem séu ósættanleg lögmál. Siðferði hugarfarsins miðar við skilyrðislaust rétta breytni og dulin forsenda þeirra er blind trú á stefnu sögunnar að „réttu marki“. Slíkt siðferði glímir við þann óyfirstíganlega vanda hvort gott markmið réttlæti valdbeitingu og getur ekki átt heima í stjórnmálum þar sem valdið sé verkfæri þeirra. Því verður réttlæting stjórnmálamanns fyrir verkum sínum ætíð að felast í fyrirséðum afleiðingum þeirra.

Hér er aðeins tæpt á nokkrum lykilatriðum í hinum yfirgripsmiklu kenningum Webers sem ávallt hafa veriðumdeildar og ótvíræð kveikja að þeirri umræðu sem höfundurinn taldi markmið alls fræðastarfs að skapa. Í inngangi Sigurðar Líndal er varpað glöggri mynd af Weber og kenningar hans skýrðar með upplýsandi hætti.

Menón

Platón

Menón

3.490,- / 2.792,-

Menón

Platón

Þýðing: Sveinbjörn Egilsson.
Inngang rita Eyjólfur Kjalar Emilsson og Gunnar Harðarson.
Samræðuna Menón er Platón talinn hafa ritað á mörkum fyrsta skeiðs starfsævi sinnar og miðtímabils hennar. Ritið hefst á því að spurt er eftir skilgreiningu, eins og í elstu verkum Platóns, að þessu sinni á dygðinni. Smám saman fer þó umræðan að snúast um sjálfa leitina að skilgreiningum og þar með bæði þekkingarfræði og heimspekilega aðferðafræði almennt. Þaðan leiðist rökræðan svo að þeirri kenningu Platóns að nám sé upprifjun á meðfæddri þekkingu, sem Sókrates tekst á hendur að sanna í verki í kafla sem er einn sá kunnasti í verkum Platóns.

Ógöngurnar sem upprifjunarkenningunni er ætlað að leysa eru eftirfarandi: Ef við þekkjum ekki það sem við leitum að, eins og dyggðina sem Sókrates segist ekki vita hvað sé, getum við í rauninni hvorki leitað þess né borið kennsl á það þegar það finnst. Ef við þekkjum það hins vegar fyrirfram er leitin ljóslega óþörf. Þetta leiðir það af sér að öll leit sé ómöguleg. Í fljótu bragði virðast þetta tómir útúrsnúningar. Þegar við leitum hlutar þekkjum við hann auðvitað en staðsetning hans er ókunn. Þegar við viljum komast að einhverri staðreynd er munur á því  að þekkja spurninguna og þekkja svarið. En þegar spurt er um skilgreiningu, til dæmis hvað er dyggð, er ekki hægt að grípa til sömu mótraka. Lausn Platóns er því önnur, nefnilega sú að hver þau sannindi sem við lærum hafi sálin í raun þekkt fyrir fæðinguna, enda sé hún ekki dauðleg eins og líkaminn, og þau rifjist upp fyrir okkur við réttar kringumstæður. Máli sínu til stuðnings lætur Sókrates dreng sem ekkert kann í flatarmálsfræði leiða út ýmis sannindi um form og hlutföll með því einu að spyrja hann spurninga. Enn fremur er sú kenning Sókratesar að dygð sé þekking – nánar tiltekið þekking á því hvað sé manni til góðs – rædd í Menóni með þeirri óvæntu niðurstöðu að úr því að dygðin verði ekki kennd sé hún sönn skoðun frekar en þekking.

Menón kemur út í lítt breyttri skólaþýðingu Sveinbjarnar Egilssonar. Gunnar Harðarson fjallar í inngangi um þýðinguna og þýðandann en Eyjólfur Kjalar Emilsson um efni samræðunnar.

Önnur Lærdómsrit eftir Platón eru Gorgías, Ríkið, Samdrykkjan og Síðustu dagar Sókratesar.

Mikilhæfur höfðingi

Jón Sigurðsson

Mikilhæfur höfðingi

3.990,- / 3.192,-

Mikilhæfur höfðingi

Jón Sigurðsson

Ólafur Stefánsson Stephensen (1731-1812) komst til æðstu metorða á Íslandi, fyrstur Íslendinga á síðari öldum. Færa má rök fyrir því að Ólafur hafi verið einn síðasti varðstöðumaður um forn landsréttindi í gömlum konunghollum stíl, um tækifæri almúga til bærilegrar lífsafkomu í landinu og umleið sérstakan rétt íslenskrar höfðingjastéttar áður en þjóðfrelsishugmyndir 19. aldar mótuðust og bárust út hingað.

Útgáfuár: 2011

 

Miklir heimspekingar

Bryan Magee

Miklir heimspekingar

3.380,- / 2.704,-

Miklir heimspekingar

Bryan Magee

Þýðing: Gunnar Ragnarsson

Inngangur að vestrænni heimspeki.

Í þessari bók eru fimmtán samræður um hugmyndir og kenningar margra frægustu og stórbrotnustu heimspekinga Vesturlanda frá Forngrikkjum til okkar daga. Meðal þeirra eru Platon, Aristóteles, DEscartes, Hume, Kant, Schopenhauer, Nietzsche, Russell og Wittgenstein.

Bryan Magee, viðkunnur enskur heimspekingur, rithöfundur og útvarpsmaður ræðir hér við fimmtán þekkta heimspekinga um verk þessara hugsuða. Útlista þeir torskilin hugtök og flóknar kenningará skýru og skiljanlegu máli. Hér er á ferðinni tilvalið lesefni fyrir áhugafólk um heimspeki og ágætur inngangur handa nemendum í heimpeki.

Útgáfuár: 2002

 

Minnisblöð Maltes Laurids Brigge

Rainer Maria Rilke

Minnisblöð Maltes Laurids Brigge

3.700,- / 2.960,-

Minnisblöð Maltes Laurids Brigge

Rainer Maria Rilke

Benedikt Hjartarson þýddi og ritaði inngang.

„Og maður á engan og ekkert að og flækist um heiminn með ferðatösku og bókakassa og nánast án nokkurrar forvitni. Hvers konar líf er þetta eiginlega? Ekkert hús, ekkert erfðagóss, engir hundar. Ef maður ætti í það minnsta endurminningar. En hver á sér slíkar?“

Eina skáldsaga Rilkes hefur að geyma ljóðrænar lýsingar á glímu söguhetjunnar við stórborgina og glundroða nútímans, grimmilegar æskuminningar og brot úr evrópskri menningarsögu. Hér er á ferð tímamótaverk eftir einn af meisturum evrópskrar nútímaljóðlistar frá árinu 1910.

Napóleon

Herman Lindqvist

Napóleon

4.900,- / 3.920,-

Napóleon

Herman Lindqvist

Þýðing: Borgþór Kjærnested

Sagan um Napóleon er um fátæka föðurlandssinnan, ástríðufulla kvennamanninn og ákafa sögumanninn sem dreymdi um að verða rithöfundur eða vísindamaður, en lenti í hringiðu frönsku byltingarinnar, greip tækifærið og varð valdamesti maður síns tíma. Hvernig gat þetta gerst? Hvað fékk hann til að setja keisarakórónu á höfuð sér? Var það stórmennskubrjálæði eða eðlileg umbun fyrir mikinn og stórbrotinn frægðarferil? Frá dögum Rómverja hefur enginn stjórnað jafn víðáttumiklu riti né stýrt þvílíkum herafla og Napóleon Bonaparte. Hann dreymdi um sameinaða Evrópu sem hafði einn gjaldmiðil, ein lög og eina höfuðborg: París. Draumur hans kostaði milljónir manna lífið. Styrjaldir hans, umbætur í stjórnsýslu og ákvarðanir hafa haft áhrif á þjóðir Evrópu, Suður-Ameríku og Bandaríkin allt til þessa dags.

Lesandinn dregst inn í skemmtilega og hrífandi lýsingu sænska rithöfundarins Hermans Lindqvist á lífshlaupi Napóleons í bók sem hefur verið þýdd á mörg tungumál. Á þriðja hundrað litmynda prýða bókina.

 

Náttúra, vald og verðmæti

Ólafur Páll Jónsson

Náttúra, vald og verðmæti

3.490,- / 2.792,-

Náttúra, vald og verðmæti

Ólafur Páll Jónsson

Umhverfisrit Bókmenntafélagsins

Bókin glímir við ýmsar grundvallarspurningar um samband manns og náttúru, meðferð valds í lýðræðissamfélagi og rætur þeirra verðmæta sem gefa mannlegri tilveru gildi.

Bókin er í senn greining á þeim hugtökum sem notuð eru til að fjalla um náttúru, vald og verðmæti og beitt gagnrýni á margt af því sem hefur verið sagt og gert síðustu ár.

Í þessu fyrsta Umhverfisriti Bókmenntafélagsins er tekist á við nokkur helstu átaka- og álitamál samtímans með aðferðum heimspekinnar.

Útgáfurár: 2007

Nytjastefnan

John Stuart Mill

Nytjastefnan

3.490,- / 2.792,-

Nytjastefnan

John Stuart Mill

Þýðing: Gunnar Ragnarsson.
Inngang ritar Roger Crisp en hann þýðir Þorsteinn Hilmarsson.

Hin svokallaða nytjastefna, sem á ensku nefnist utilitarianism, er einn af helstu straumunum í siðfræði 19. og 20. aldar. Höfuðrit hennar er þetta verk breska heimspekingsins Johns Stuarts Mill, sem þykir hafa sett hugmyndir nytjastefnunnar í hvað fágaðastan búning þótt hann væri ekki upphafsmaður þeirra. Mill er sá heimspekingur 19. aldar sem hvað ríkastan þátt hefur átt í að móta sýn nútímamanna á lýðræði og mannréttindi og nægir að nefna rit hans Frelsið og Kúgun kvenna í því sambandi, en bæði hafa komið út sem Lærdómsrit.

Kjarni nytjastefnunnar er að siðferðilegt réttmæti tiltekinnar breytni sé fólgið í því að hún stuðli að sem mestri almennri hamingju, en hamingja er að mati Mills fólgin í ánægju umfram sársauka. Kenningin telst því til þeirrar siðfræði sem metur réttmæti athafna út frá afleiðingum þeirra, öfugt við kenningar sem dæma þær réttar eða rangar í sjálfum sér. Nytjastefnan hefur jafnan mátt sæta ýmiss konar gagnrýni. Mönnum hefur sýnst hún leiða til þess að verstu illvirki geti í sumum tilfellum talist rétt breytni ef afleiðingin er aukin hamingja. Það er talið óraunhæft að ætla fólki sífellt að þurfa að reikna út þá hamingju og óhamingju sem hlýst af öllum mögulegum afleiðingum gjörða þess og þá þykir auðséð að margt annað en ánægja sé eftirsótt og eftirsóknarvert.

Rit Mills er glæsileg vörn fyrir nytjastefnuna þar sem hann leysir hugvitssamlega úr slíkum vandamálum. Fyrir það fyrsta eru hversdagslegar hugmyndir okkar um rétt og rangt mótaðar af reynslu fyrri kynslóða sem stjórnuðust ómeðvitað af nytjahyggju, þannig að morð, lygar og annað sem dró úr almennri hamingju var fordæmt. Fólk getur því stuðst við þetta innsæi en reiknað út afleiðingar í þeim tilfellum þar sem tvö sjónarmið stangast á. Þess ber þó að geta að Mill var gagnrýninn á viðtekið siðferði og leit svo á að það yrði að endurskoða í ljósi nytjahyggju. Enn fremur getur ánægja að hans mati verið til í misgöfugum  myndum sem eru misþung á metunum. Þannig setur hann fram heilsteypta og fágaða kenningu um grundvallaratriði mannlegs lífs.

Afar gagnlegur er inngangur Rogers Crisp að verkinu þar sem hann ræðir á gagnrýninn hátt kenningu Mills, mótbárur gegn henni og mögulegar úrlausnir.

Óbyggð og allsnægtir

Frank Fraser Darling

Óbyggð og allsnægtir

3.490,- / 2.792,-

Óbyggð og allsnægtir

Frank Fraser Darling

Þýðing: Óskar Ingimarsson. Inngang ritar Eyþór Einarsson.

Óbyggð og allsnægtir eftir breska vistfræðinginn Frank Fraser Darling urðu til sem Reith-fyrirlestrar ársins 1969 en breska ríkisútvarpið, BBC, býður árlega einum frammámanni í vísindum og fræðum að halda þessa fyrirlestra um efni sem á erindi til þjóðfélagsins alls. Fyrirlestrar Fraser Darlings voru merkt framlag til umræðunnar um ábyrgð mannsins gagnvart náttúrunni á þeim tímum sem vitundarvakning var að verða um vistfræði og mikilvægi náttúruverndar. Höfundurinn var lærður búfræðingur og starfaði um tíma sem bóndi, en hlaut síðar doktorsgráðu í dýrafræði og gerðist frumkvöðull með rannsóknum sínum á vistkerfi mannsins þar sem hann samþættaði náttúrusögu, dýrafræði og erfðafræði og var fyrir framlag sitt sleginn til riddara og sæmdur ýmsum öðrum viðurkenningum.

Fraser Darling var einn af kunnustu baráttumönnum fyrir náttúruvernd, ferðaðist víða um heim til að gera rannsóknir á áhrifum mannsins á umhverfið og vakti athygli á ýmiss konar misnotkun sem ógnaði náttúrunni og gerir enn í dag. Nýstárleg sýn hans á þessi efni, þar sem saman kemur ríkulegt innsæi og öguð vísindi, hefur orðið áhrifamikil á sviði vistfræðirannsókna þar sem verk hans eru enn í fullu gildi. Hann hvatti stjórnmálamenn til að axla ábyrgð og varaði við því að stefnan í umhverfisvernd væri mörkuð af yfirborðskenndum og einfölduðum útskýringum. Í Óbyggð og allsnægtum fjallar Fraser Darling um þrjú af mest aðkallandi vandamálum umhverfisfræðinnar: fólksfjölgun, mengun og nýtingu náttúruauðlinda. Öll þessi efni eru ekki síður brýn nú á dögum en þegar bókin kom fyrst út, en höfundurinn er einn þeirra sem hvað mestar þakkir eiga skildar fyrir að hafa  komið af stað hinni miklu hreyfingu sem nú leitar leiða til lausnar. Hann kemur reyndar víðar við í bókinni og bregður á athyglisverðan hátt ljósi vistfræðinnar á efni á borð við tækniþróun, byggingarlist og siðfræði kynlífsins.

Eyþór Einarsson grasafræðingur ritar forspjall um umhverfisfræði og þá vakningu í náttúruvernd sem rétt var að byrja að berast til Íslands á þeim árum sem bókin kom út.

Ógöngur

Gilbert Ryle

Ógöngur

3.490,- / 2.792,-

Ógöngur

Gilbert Ryle

Þýðing: Garðar Á. Árnason sem einnig ritar inngang.

Breski heimspekingurinn Gilbert Ryle er einn af helstu fulltrúum hinnar svokölluðu hversdagsmálsheimspeki, sem er grein af meiði rökgreiningarhefðarinnar í heimspeki á 20. öld. Ryle, sem nam og kenndi við Oxford-háskóla, leitast í verkum sínum við að skýra tengsl hugtaka með því að greina notkun þeirra í daglegu máli. Hann leit svo á að flest heimspekileg vandamál væru til komin vegna einhvers konar misbeitingar tungumálsins, oftar en ekki svokallaðrar „kvíavillu“. Hugmyndin er sú að hugtök megi flokka niður í tilteknar kvíar (e. categories) sem
ákvarða röklega gerð þeirra. Þegar reynt er að beita hugtökum úr tiltekinni kví til að svara spurningum sem kalla á hugtök úr annarri verður útkoman merkingarleysa og heimspekilegur hnútur. Greining á kvíavillum er nauðsynleg til að átta sig á því hvernig slík vandamál eru vaxin og öguð beiting hugtaka lykillinn að lausn þeirra.

Ógöngur eru fyrirlestrar frá 1953 þar sem Ryle beinir sjónum sínum að einni gerð slíkra vandamála, tilfellum þar sem tvær kenningar reynast ósamrýmanlegar án þess að þær séu að leita svara við sömu spurningum. Gjarnan er um að ræða annars vegar vísindalega kenningu, til að mynda skýringar taugalífeðlisfræðings á skynjun, og hins vegar hversdagslega þekkingu okkar á fyrirbæri eins og skynjun, sem er ósamrýmanleg við þá skýringu lífeðlisfræðingsins að skynjun sé ferli í taugakerfi og heila. Í slíku tilfelli, segir Ryle, er lausnin fólgin í því að rannsaka hversdagslega notkun orða á borð við „að sjá“ og „að heyra“ en slík rannsókn leiðir í ljós að slíkar sagnir tilheyra ekki sömu kví og þær sem lýsa ferli eða ástandi og því eiga ekki við skýringar á borð við þá að skynjunin sem við upplifum sé afleiðing ferlis taugaboða eða samsvarandi ferli. Ryle hafði áður tekist með sama hætti á við hið klassíska vandamál um samband líkama og sálar í höfuðverki sínu, Hugtakið hugur, og hér beitir hann hugtakagreiningu sinni meðal annars á þverstæðuna um Akkilles og skjaldbökuna (sú þverstæða er oft kennd við Zenó frá Elea) og vandamálið um frjálsan vilja.

Ógöngum fylgir sjálfsævisöguleg grein höfundar þar sem hann fjallar um lífshlaup sitt en fyrst og fremst hvernig hugsun hans þróaðist. Þá veitir inngangur Garðars Á. Árnasonar fróðlegt yfirlit um sögu þeirra hugmyndastrauma sem Ryle mótaðist af og viðhorf hans til heimspekinnar.

Óraplágan

Slavoj Žižek

Óraplágan

3.490,- / 2.792,-

Óraplágan

Slavoj Žižek

Slóvenski heimspekingurinn, samfélagsrýnirinn og sálgreinandinn Slavoj Žižek hefur vakið heimsathygli fyrir gáskafull skrif sín og fyrirlestra þar sem allt á milli himins og jarðar, og meira til, ber á góma. Nú hefur Žižek komið tvisvar hingað til lands og flutt fjölsótta fyrirlestra um fjölbreytileg hugðarefni sín. Það er samdóma álit fólks að hrein unun sé að hlusta á þetta menningarfyrirbæri – því að það er hann – og enn æðisgengnari upplifun að lesa bækur hans. Sitt sýnist hverjum um sumar óútreiknanlegar tengingar hans, t.a.m. hugmyndafræðina sem hann telur birtast í hönnun klósettskála, en oft virðist hálfur tilgangurinn einmitt vera að skilja fólk eftir ýmist í ráðþrota spurn eða yfirgengilegri hrifningu. Žižek notar skírskotanir í alkunnar kvikmyndir, poppstjörnur, stjórnmál, heimspeki, vísindi, bókmenntir og svo mætti lengi telja, til að framkalla eina allsherjar rússíbanareið ólíkra hugmynda. Óraplágan, í þýðingu Hauks Más Helgasonar á bók Žižeks sem út kom 1997 undir nafninu The Plague of Fantasies, er alls engin undantekning frá þessari lofsamlegu lýsingu. Žižek tekur sér fyrir hendur að greina hina hugmyndafræðilegu óra sem óhjákvæmilega umlykja okkur öll í nútímasamfélagi. Hann telur það vera djúpstæðan misskilning, og mjög útbreiddan, að við lifum á tímum sem eru lausir við alla heildstæða hugmyndafræði. Algengt er að hugsuðir fullyrði að hugmyndafræði, t.d. kommúnismi og frjálshyggja, heyri fortíðinni til og að nú svífum við um í hugmyndafræðilegu tómarúmi. Žižek er á öðru máli og telur þetta vera einbera óra. Sannfæringin um útdauða hugmyndafræðinnar er einmitt óræk vísbending þess að við lifum í þéttriðnara neti hugmyndafræði en nokkru sinni. Hugmyndafræðina má m.a. finna í hönnun klósettskála, ólíkum hefðum kvenna í skapahárarakstri, þeim kynlífsstellingum sem okkur eru hugleiknastar og öryggisleiðbeiningum í flugvélum. Í slíkum hversdagslegum fyrirbærum má finna þjóðareinkenni og hugmyndafræði sem skilur að okkur og hina, sem gera hlutina öðru vísi og geta því verið viðfang útskúfunar og ofsókna. Við kennum „hinum“ (sem getur vísað til hinna ýmsu minnihlutahópa) um það sem miður fer og höfum á tilfinningunni að þeir séu djöflar sem toga í spottana á bak við tjöldin. Óhugsandi er að flýja undan þessari hugmyndafræði. Hér er á ferðinni stórskemmtileg bók sem kemur hugmyndum lesandans á sífellda hreyfingu.

Verkinu fylgir skemmtilegur inngangur sem setur Órapláguna m.a. í samhengi við önnur rit Žižeks og gerir nokkra grein fyrir megindráttunum í margslunginni heimspeki hans.

Orðræða um aðferð

René Descartes

Orðræða um aðferð

3.490,- / 2.792,-

Orðræða um aðferð

René Descartes

Þýðing: Magnús G. Jónsson.

Inngang ritar Þorsteinn Gylfason.

Franski heimspekingurinn René Descartes var án nokkurs vafa einn mesti hugsuður allra tíma. Sögulegt mikilvægi hans fyrir heimspeki og vísindabyltingu 17. aldar dylst engum, en verk hans eru ekki síður víðlesin á okkar dögum vegna frumlegra og hugvitssamlegra röksemda sem eiga enn virkan hlut í umræðu um ýmis sígild vandamál heimspekinnar. Descartes er, með nokkurri einföldun, nefndur faðir rökhyggjunnar á nýöld og í verkum sínum leitast hann við að móta nýjan hugsunarhátt og aðferðafræði sem skyldi verða þekkingarlegur grundvöllur allra vísinda.

Orðræða um aðferð, frá 1637, er eitt af höfuðverkum Descartes. Það ber það aðalsmerki hans að stíll og framsetning eru hvarvetna óbrotin og skýr og er ritið því aðgengilegra en ýmis önnur meginrit heimspekisögunnar. Orðræðan var upphaflega inngangur að stærra verki sem samanstóð af þremur ritgerðum til viðbótar, um ljósfræði, háloftafræði og rúmfræði, þar sem höfundurinn notaði í verki þá aðferðafræði sem hann setti fram í Orðræðunni. Meðal þeirra nýjunga sem fram komu við beitingu hinnar nýju aðferðar var einföldun á táknkerfi stærðfræðinnar, hnitafræði, uppgötvun tregðulögmálsins og skýringar á ýmsum fyrirbærum ljósfræði, til að mynda ljósbroti og regnboganum. Reglurnar fjórar sem mynda aðferðafræði Descartes virðast í fljótu bragði sáraeinfaldar og sjálfsagðar: að hafa ekkert fyrir satt nema augljóst sé að svo sé, að rekja hvert vandamál sundur í smáþætti, að byrja á einföldum atriðum og fikra sig upp að hinum flóknu og loks að fella ekkert undan og yfirfara allar niðurstöður rækilega. En þegar aðferðin er gaumgæfð með hliðsjón af beitingu Descartes á henni kemur í ljós að kjarni hennar er hugmyndin um smættir, sem er síður en svo sjálfsögð. Viðleitnin til einföldunar sem býr að baki aðferðafræðinni er nátengd þeirri skoðun Descartes að sérhvert eðlisfræðilegt fyrirbæri megi á endanum skýra til fulls með stærðfræðilegri kraftfræði og það er þessi hugmynd um smættir, sem eru svo áberandi í vísindum okkar tíma, sem er að verki þegar hann skýrir til að mynda ljósfræði með kraftfræði og einfaldar rúmfræði í bókstafareikning.

Ýmsar aðrar meginhugmyndir Descartes koma fram í þessu riti. Þeirra á meðal eru vélhyggja um alla efnishluti og sú kenning að andinn sé til sem veruleiki óháður líkamanum, og raunar sé sjálfstæð tilvist sjálfsins öruggur grundvallarpunktur allrar þekkingar. Margar þessara hugmynda ollu frá upphafi hörðum en frjóum ágreiningi og lýsir Þorsteinn Gylfason í vönduðum inngangi að Orðræðu um aðferð aðalatriðum frumspeki Descartes, auk aðferðafræðinnar í samhengi við hræringar vísinda og heimspeki
nýaldar.

Einnig hefur annað höfuðrit Descartes, Hugleiðingar umfrumspeki, komið út í Lærdómsritaröðinni.

Orðræða um frumspeki

Gottfried Wilhelm Leibniz

Orðræða um frumspeki

3.490,- / 2.792,-

Orðræða um frumspeki

Gottfried Wilhelm Leibniz

Þýðing: Gunnar Harðarson.
Inngang ritar Henry Alexander Henrysson.

Gottfried Wilhelm Leibniz var einn merkasti heimspekingur nýaldar og fjölfræðingur sem lagði drjúgan skerf til rannsókna samtíma síns á sviðum eðlisfræði, verkfræði, jarðfræði, guðfræði, sagnfræði og ekki síst stærðfræði þar sem hann var frumkvöðull rannsókna í tölfræði og örsmæðareikningi, auk fleiri greina. Það eru þó heimspekirit fjölfræðingsins sem halda nafni hans á lofti í dag og koma þrjú þeirra út í þessu bindi: Orðræða um frumspeki, Nýtt kerfi um eðli verundanna og Mónöðufræðin eða frumforsendur heimspekinnar. Í þessum ritum birtast tilraunir Leibniz til að skýra frumgerð veruleikans, en hið háleita markmið hans var að finna hinn frumspekilega grunn sem sameiginlegur væri allri heimspeki og vísindum.

Orðræða um frumspeki (1686) hefur að geyma yfirlit yfir frumspeki Leibniz og þykir marka upphafið að fullþroska heimspeki hans, sem var þó í sífelldri þróun og hann setti aldrei fram sem heilsteypt kerfi. Í Nýju kerfi um eðli verundanna (1695) birtist greinargerð fyrir eðli verunda og gagnrýni á kenningu Descartes þar að lútandi, auk eigin kenningar Leibniz um einingu sálar og líkama. Mónöðufræðin (1714) fjalla um frumverundir hins efnislega veruleika, sem Leibniz telur vera óefnislegar mónöður, í raun skynjanir og langanir, sem hafa til að bera hið virka afl sem gerir öllum fyrirbærum kleift að ná tilgangi sínum.

Leibniz er, með nokkurri einföldun, talinn til rökhyggjumanna nýaldar og stendur á mörkum skólaspeki miðalda, sem leitaðist við að styðja kristna guðfræði með skynsamlegum rökum, og hinnar nýju vélhyggju, sem beindi sjónum að mælanlegum eiginleikum hluta fremur en eðli þeirra eða tilgangi. Svokallaðar tilgangsorsakir leika þó stórt hlutverk í heimspeki Leibniz. Við erum samkvæmt kenningum hans skynsemisverur, hverra tilgangur það er að velja hinn góða möguleika. Aftur á móti er það lykilatriði í frumspeki Leibniz að mónöðurnar séu fyrirfram samstilltar í eilífu samræmi og að ekkert í sköpunarverkinu geti verið öðruvísi en það er, þar sem Guð hljóti að hafa skapað hinn besta mögulega heim. Þetta atriði er eitt hið þekktasta úr allri heimspeki Leibniz, þökk sé háðsádeilu Voltaires, Birtíngi. Með þessu viðurkennir Leibniz þó ekki algjöra nauðhyggju, því þótt athafnir okkar séu ætíð fyrirsjáanlegar eru þær ekki röklega nauðsynlegar. Við höfum frjálsan vilja í þeim skilningi að við getum hugsað okkur annan möguleika en þann sem við höfum valið, auk þess sem val okkar ræðst af eðlislægum tilhneigingum okkar, það er að segja viljanum.

Bókinni fylgir fróðlegur og skýrandi inngangur eftir Henry Alexander Henrysson.

Öryggi í öndvegi

Lýður Björnsson

Öryggi í öndvegi

3.499,- / 2.799,-

Öryggi í öndvegi

Lýður Björnsson

Safn til iðnsögu Íslendinga. Saga flugvirkjunar á Íslandi.

 

 

Uncategorized

Showing 161–176 of 302 results