Vandræðaskáld

Samuel Johnson

Vandræðaskáld

3.490,- / 2.792,-

Vandræðaskáld

Samuel Johnson

Þýðing: Atli Magnússon sem einnig ritar inngang.

Vandræðaskáld er frásögn hins kunna breska rithöfundar og orðabókarsmiðs Samuels Johnson af ævi samtímamanns síns, skáldsins Richards Savage. Johnson, sem var uppi á 18. öld, var eftir dauða sinn hylltur sem mesti bókmenntajöfur sinna tíma en lífshlaup hans var markað erfiðleikum, deilum og þunglyndi eins og greint er frá í inngangi að þessu riti. Þekking hans á bókmenntum, ritsnilld og hin gríðarlegu fræðiafrek sem orðabók hans er til vitnis um, auk litríks persónuleika Johnsons, hafa þó markað honum óumdeildan sess sem eins af merkilegustu rithöfundum Breta fyrr og síðar.

Vandræðaskáld er um margt merk heimild um tíðarandann í Lundúnum á þeim tíma sem ýmiss konar útgáfustarfsemi var í örum vexti, launuð blaðamennska var að verða til og bókmenntasamfélagið samanstóð að miklu leyti af fátækum skáldum sem bitust um að selja útgefendum efni fyrir lága þóknun. Einn þessara manna var Richard Savage, sem setti mikinn svip á þetta samfélag og Johnson kynntist náið. Annar var svo um tíma Johnson sjálfur. Vandræðaskáld er sérkennileg og einstaklega glögg mannlýsing þar sem Johnson dregur fram bresti hins hrokafulla skálds, sem steypti sjálfum sér markvisst í glötun, en finnur þó til svo ríkrar samkenndar og samúðar með honum að hann leitast við að réttlæta jafnharðan breytni hans, þótt hvergi sé dregin fjöður yfir gallana. Sagan verður því harmræn og er öðrum þræði hugleiðing um stöðu listamannsins í samfélaginu, en Savage leit svo á að skáldgáfa sín veitti sér forréttindi og ætlaðist til virðingar og raunar framfærslu af hendi annarra. Reyfarakennd ætternissaga hans þar sem hann hélt því fram að hann væri óskilgetinn sonur aðalsfólks á líklega ekki við rök að styðjast, en Savage kúgaði þó um tíma fé af fólkinu sem hann hélt fram að væri fjölskylda sín. Hann fann sárt til þess að vera ofurseldur duttlungum og smekk manna, en var fyrirhyggjulaus og taldi sér ekki sæmandi að hegða sér í samræmi við aðstæður sínar, sólundaði jafnharðan því fé sem honum áskotnaðist og var alla tíð haldinn sárri biturð yfir hlutskipti sínu. Hvað sem líður skáldgáfu hans, lýsir Johnson honum sem þversagnakenndum einstaklingi, snillingi sem skorti alla almenna skynsemi, siðapostula sem drýgði þó flestar syndir og fáguðum herramanni sem dvaldi þó heimilislaus meðal ógæfufólks.

Atli Magnússon greinir í inngangi frá ævi og verkum Johnsons og tíðaranda Lundúna á tímum þessara tveggja sérvitringa.

Vandræðaskáld

3.490 kr.