3.490,- / 2.792,-
Valdstjórn og vísindi
C.P. Snow
UPPSELD
Þýðing: Baldur Símonarson. Inngang ritar Jónas H. Haralz.
Höfundur þessarar bókar, Snow lávarður, var eðlisfræðingur að mennt, starfaði á vettvangi breskra stjórnmála og embættismannakerfis, en varð þekktastur sem skáldsagnahöfundur. Öll þessi svið koma saman í þessari stuttu bók sem segir sögu tveggja vísindamanna, Henry Tizards og F. A. Lindemanns, seinna Cherwells lávarðs, sem báðir voru ráðgjafar breskra stjórnvalda á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar og deildu hart um hernaðarlegar lausnir. Þessi saga verður Snow tilefni hugleiðingar í skáldlegum búningi um hlutverk vísindamanna í stjórnkerfinu og vill hann draga af henni nokkrar ályktanir.
Snow hafði áður ritað um þá gjá sem hann taldi vera milli náttúruvísindanna og bóklegrar menningar. Hér er viðfangsefni hans öllu afmarkaðra: tengsl vísindaheimsins við heim stjórnmálanna, sem höfundur telur lúta nokkuð sérstæðum lögmálum. Því er þannig fyrir komið, segir hann, að örfáir menn taki ákvarðanir sem skipti sköpum fyrir alla borgarana og það er uggvænlegt hve þekking þeirra á vísindum, sem getur skipt höfuðmáli um það hvort ákvarðanirnar verði farsælar, er takmörkuð. Nauðsynlegt sé að komi til tengsl þarna á milli. Frammámenn í vísindum eru þó lítt til þess fallnir að starfa á vettvangi stjórnmála og stjórnsýslu og enn síður eiga stjórnmálamenn hægt um vik að kynna sér allt það sem máli skiptir á sviði vísindanna. Það kemur því fyrst og fremst í hlut sérstakra manngerða úr röðum vísindamanna að koma til liðs við stjórnvöld; þeir sem eiga stórafrek sín að baki eða þeir sem ekki standa í fremstu röð þrátt fyrir góða hæfileika, en fyrst og fremst fólk sem heldur óbrenglaðri vísindalegri dómgreind, þrátt fyrir leynd starfsins og umfang afleiðinga þess. Að mati höfundarins eru nefndir skipaðar slíkum mönnum oft gagnlegasta tækið sem völ er á, svo lengi sem þær hafi nokkurt vald til framkvæmda, markmið þeirra sé skýrt skilgreint og þær falli inn í stjórnkerfið. Sagan sem hann dregur þessar ályktanir af er hin fróðlegasta og skemmtileg aflestrar, ekki síst hinar glöggu mannlýsingar Snow lávarðar.
Höfundurinn miðar tillögur sínar og lærdóma alla við hið breska stjórnkerfi og vísindi í þágu hernaðar, sem hann telur illu heilli ávallt verða vaxtarbrodd vísindanna. Engu að síður er hugleiðingin um samband stjórnvalda og vísinda umhugsunarverð fyrir Íslendinga, eins og Jónas H. Haralz getur um í forspjalli.