3.490,- / 2.792,-
Um skáldskaparlistina
Aristóteles
Þýðing: Kristján Árnason sem einnig ritar inngang.
Eftir heimspekinginn Aristóteles er varðveittur gríðarlegur fjöldi rita sem spanna flestar þær fræðagreinar sem til voru um hans daga. Áhrif hans á hina svokölluðu skólaspeki miðalda eru vel kunn og hugmyndir hans og hugtök hafa mótað heimspekisöguna allar götur síðan. Um skáldskaparlistina, það rit sem hér birtist, fór þó ekki að njóta hylli fyrr en á nýöld þegar vinsældir skólaspekinnar fóru óðum dvínandi en skáld og listamenn tóku að leita eftir fornum fyrirmyndum.
Þessi bók mun vera elsta heillega ritið sem til er um skáldskaparfræði og er talið vera fyrirlestrar sem Aristóteles flutti fyrir nemendur sína. Þó er glataður seinni hluti verksins, um skopleiki, sem greinilega hefur átt að fylgja í kjölfar greinargerðar Aristótelesar fyrir harmleiknum og söguljóðunum. Í samræmi við aðra heimspeki sína greinir hann náttúrulega þróun harmleiksins, sem stefnir að sínu eiginlega formi, og raunar eru rætur alls skáldskapar að hans mati náttúrulegar: hvöt til að líkja eftir og nautn fólks af eftirlíkingunum, sem tengist eðlislægri þekkingarþrá mannsins. Kenning Aristótelesar um verkan harmleikja er að þeir veiti ákveðna útrás eða kaþarsis fyrir þær vorkunnar- og skelfingartilfinningar sem þeir vekja þegar vel tekst til. Hann telur að harmleikirnir forði þannig fólki frá því að verða ofurselt þessum tilfinningum í eigin lífi og rekur þær aðferðir sem skáldin geta beitt til þess að verkið verði sem best, hvernig sagan skuli vera og hvernig beri að ná fram áhrifum með hvörfum og kennslum.
Aristóteles er því ósammála kennara sínum Platoni, sem taldi skáldskap skaðlegan og vildi úthýsa honum úr fyrirmyndarríki sínu. Þvert á móti lítur Aristóteles svo á að harmleikur feli í sér almenn sannindi, ekki það sem hefur gerst í raun og veru heldur það sem gæti gerst, athafnir og viðbrögð ákveðinnar manngerðar og að hin almennu sannindi séu æðri hinum sértæku sem sagnfræðin greinir frá. Í inngangi að ritinu fjallar Kristján Árnason um meginhugmyndir verksins í samhengi við viðhorf til skáldskapar að fornu og nýju.
Eftir Aristóteles hafa einnig komið út Lærdómsritin Frumspekin I og Siðfræði Níkomakkosar.