3.490,- / 2.792,-
Um sálgreiningu
Sigmund Freud
Þýðing: Maia Sigurðardóttir.
Inngang ritar Símon Jóh. Ágústsson.
Árið 1909 var Sigmund Freud boðið til Bandaríkjanna til að flytja fimm erindi við Clark-háskóla á 20 ára afmæli skólans og birtast þau í þessu riti. Erindi Freuds veita alþýðlegt og greinargott yfirlit um uppruna sálgreiningarinnar og helstu atriðin í hinni frægu kenningu höfundarins. Helstu umfjöllunarefni hans hér eru eðli kynhvatarinnar, tilfinningalíf barna, sefasýki og túlkun drauma.
Mikilvægi framlags Freuds til sálarfræðinnar og áhrif kenninga hans á mannskilning og lífssýn nútímamanna dyljast engum. Þótt ýmsar tilgátur hans séu umdeildar og aðrar taldar afsannaðar er aðferðum hans enn beitt í ríkum mæli á sviði sállækninga og hugtakakerfi hans hefur öðlast fastan sess meðal sálfræðinga. Mikilvægi Freuds felst ekki síst í þeim áhrifum sem hann hafði á samstarfsmenn sína og sporgöngumenn sem nýttu innsæi hans og frjóa hugsun til nýrrar kenningasmíðar. Það má því segja að hann hafi lokið upp dyrunum að nýrri og víðari sýn á sálarlíf mannsins en fyrir hafði verið.
Kjarninn í kenningu Freuds felst í aðgreiningu persónuleikans í þrjá meginþætti; frumsjálfið (id), sjálfið (ego) og yfirsjálfið (superego). Frumsjálfið leitast við að svala óbeisluðum grundvallarhvötum í samræmi við eitt af meginlögmálum sálarlífsins, vellíðunarlögmálið. Eftir því sem barn þroskast víkur þetta lögmál fyrir veruleikalögmálinu, sem birtist í því að barnið lærir að laga hegðun sína að efnislegum og veraldlegum kröfum. Yfirsjálfið metur síðan gerðir og hugsanir mannsins í samræmi við þau siðaboð sem hafa innhverfst, breyst úr ytri boðum og bönnum í samvisku. Önnur lykilatriði eru sú hugmynd Freuds að persónuleiki manna sé sterkt mótaður af reynslu þeirra í frumbernsku og kenningin um varnarhætti sjálfsins gegn kvíða og vanlíðan, þar á meðal bælingu tilfinninga og minninga, tilfærslu og göfgun. Það vill gleymast, sökum frægðar kenninganna í einfölduðum og afbökuðum myndum, að Freud var læknismenntaður skynsemishyggjumaður sem taldi að allt sálarlíf væri lögmálsbundið og að sálkönnunin færi okkur þekkingu sem bjargi fólki frá því að verða strengjabrúður hvata sinna. Því er þó ekki að neita að kenningar hans eru oft djarfar og ekki lausar við vankanta.
Inngangur Símons Jóh. Ágústssonar veitir greinargóða innsýn í lífshlaup og fræði Freuds, en besti inngangurinn að kenningum sálgreiningarinnar er án efa fyrirlestrarnir sjálfir.