Tilvistarstefnan er mannhyggja

Jean-Paul Sartre

Tilvistarstefnan er mannhyggja

3.490,- / 2.792,-

Tilvistarstefnan er mannhyggja

Jean-Paul Sartre

Þýðandi: Páll Skúlason.
Inngang ritar Vilhjálmur Árnason.

Tilvistarstefnan eða existensíalisminn er ein af helstu heimspekistefnum 20. aldar. Aðalhöfundur hennar var franski heimspekingurinn Jean-Paul Sartre, sem ávann sér frægð ekki aðeins sem einn merkasti hugsuður aldarinnar heldur einnig fyrir skáldverk sín og sem ákafur baráttumaður fyrir hugsjónum jafnaðarstefnunnar.

Tilvistarheimspekin leggur áherslu á ábyrgð mannsins og frelsi, hún hafnar því að athafnir mannsins stjórnist af fyrirfram ákveðnu eðli og bendir á að við höfum ætíð val um það hvernig við bregðumst við hlutskipti okkar. Maðurinn er samkvæmt þessari kenningu ekkert nema það sem hann gerir úr sér sjálfur, í raun getur ekkert utan hans sjálfs leiðbeint honum þegar kemur að því að taka ákvarðanir því siðferðileg gildi eiga sér ekki sjálfstæða tilveru heldur skapar hann þau sjálfur með athöfnum sínum.

Tilvistarstefnan er mannhyggja var upphaflega fyrirlestur sem Sartre flutti árið 1946. Um er að ræða einn af lykiltextum tilvistarstefnunnar sem jafnframt er aðgengilegur inngangur að heimspeki Sartres. Með þessum fyrirlestri vildi hann koma tilvistarstefnunni til varnar en tal hennar um haldleysi tilverunnar og angistina sem óhjákvæmilega fylgir því að velja í algjöru frelsi hafði boðið heim þeirri gagnrýni að um væri að ræða bölsýna sjálfdæmishyggju eða tómhyggju sem leiddi til aðgerðarleysis eða siðleysis. Sartre leitast við að uppræta þennan misskilning og sýna fram á að heimspeki sín sé í raun bjartsýn og leiði af sér sterkar siðferðisskuldbindingar enda berum við óskoraða ábyrgð á öllum athöfnum okkar og lýsum því yfir með vali okkar hvað við teljum rétt, fyrir sjálf okkur og alla aðra. Eitt lykilatriði tilvistarstefnunnar eru einmitt þau heilindi sem felast í að axla ábyrgðina á eigin breytni um leið og við göngumst við því að ekki er hægt að kenna aðstæðum okkar eða meintum eðliseiginleikum um það hvernig við bregðumst við hverju sinni.

Með þessari útgáfu eru birtar umræður sem upphaflega fylgdu í kjölfar fyrirlestrarins, í þýðingu Egils Arnarsonar, en þar svarar Sartre spurningum og gagnrýni á sjónarmið sín. Þá skýrir Vilhjálmur Árnason í inngangi á skilmerkilegan hátt frá lykilatriðum tilverustefnunnar með hliðsjón af ævi Sartres og þeim jarðvegi sem heimspeki hans sprettur upp af.

Tilvistarstefnan er mannhyggja

3.490 kr.

Flokkur: