17.450,- / 13.960,-
Sturlunga saga I-III
ÍSLENZK FORNRIT XX–XXII
STURLUNGA SAGA EÐA ÍSLENDINGA SAGAN MIKLA
BROT ÚR JARTEINUM GUÐMUNDAR ARASONAR
BROT ÚR ÞORGILS SÖGU SKARÐA
HRAFNS SAGA SVEINBJARNARSONAR
ÁRONS SAGA HJÖRLEIFSSONAR
Guðrún Ása Grímsdóttir gaf út með formála, skýringum og skrám.
Ritstjóri: Þórður Ingi Guðjónsson.
Sturlunga saga er varðveitt í tveimur óheilum skinnhandritum frá 14. öld og mörg um pappírshandritum frá 17. öld og síðar. Sturlunga er sagnasafn um atburði sem gerðust á Íslandi á tímabilinu 1117–1264. Eftirtaldar sögur og þættir fléttast saman í Sturlungusafnritinu: Geirmundar þáttur heljarskinns, Þorgils saga og Hafliða, Ættartölur, Sturlu saga, Formáli, Prestssaga Guðmundar Arasonar góða, Guðmundar saga dýra, Íslendinga saga Sturlu Þórðarsonar, Haukdæla þáttur, seinni hluti Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar, Þórðar saga kakala, Svínfellinga saga, Þorgils saga skarða, Sturlu þáttur og loks viðauki. Í þessari útgáfu eru ennfremur brot úr jarteinum Guðmundar Arasonar, brot úr Þorgils sögu skarða, sjálfstæð gerð Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar og Árons saga.
Sturlunga saga er mikilvægasta samtímafrásögn sem til er um valdabaráttu íslenskra höfðingja með þátttöku norska konungsvaldsins og Rómarkirkjunnar. Kjarni sagnasamsteypunnar eru fjörbrot íslenska goðaveldisins. Meginsöguefnin eru stríð milli náskyldra og tengdra höfðingja um lífsrými og valdaskiptingu innanlands, uggur brýst fram í draumum og dróttkvæðar vísur lofsyngja vígamanninn. Sturlunga er stríðssaga en greinir líka í fáum dráttum frá almannagötum, utanferðum, húsaskipan, ástum, dansi og veislum, sagnaritun, kersknikveðskap og hversdagslegri iðju. Sagan opnar lesanda leiftursýn á bændasamfélag miðalda en sviðsetur jafnframt örlagaþrungna atburði sem leiddu til þess að Íslendingar gengu Noregskonungi á vald laust eftir miðja þrettándu öld.