3.490,- / 2.792,-
Samfélagssáttmálinn
Jean-Jacques Rousseau
Þýðing: Björn Þorsteinsson og Már Jónsson sem einnig ritar inngang.
Samfélagssáttmáli Rousseaus er sígilt stjórnspekirit og ein merkasta ritsmíð höfundarins, sem jafnframt því að teljast til færustu rithöfunda á franska tungu er álitinn einn af merkari hugsuðum síðari alda. Rousseau nálgast viðfangsefni sitt af vandvirkni – hugmyndin var sautján ár að komast á blað í endanlegu horfi – en jafnframt af gríðarlegri andagift og frumleika. Hann hafði megna óbeit á misrétti og leit svo á að manneskjan væri í eðli sínu góð, en hefði smám saman spillst sökum brenglaðra tengsla manna í millum í gölluðum samfélögum.
Verkið var samstundis bannað fyrst þegar það kom út árið 1762. Voru hugmyndir Rousseaus um sjálfræði einstaklingsins og gagnrýni hans á stjórnvöld og kaþólska trú taldar andstæðar siðum og reglum og hann var álitinn boða stjórnleysi. Samfélagssáttmálinn var þó prentaður á laun og hlaut mikla útbreiðslu. Þegar franska byltingin skall loks á var Rousseau hylltur sem faðir hennar, þótt raunar hvetti hann ekki til átaka heldur boðaði einatt frið og samninga. Í ritinu lýsir hann þeirri skipan stjórnarfars og mannlífs sem hann taldi heppilega, þó ekki í útópískum anda heldur samkvæmt því sem hann taldi almenn sannindi um samfélög manna. Hann lagði til algildan regluramma sem miða mætti úrbætur við, en taldi ekki nauðsynlegt að útfæra hann í smáatriðum. Ýmsar hugmyndir hans eru sóttar til hinna merku stjórnspekinga aldanna á undan, til að mynda Lockes, Hobbes og Macchiavelli, en engan þeirra telur hann hafa gert viðfangsefninu rétt eða fullnægjandi skil. Hans eigin hugmyndir eru frumlegar og oft róttækari en það sem forverar hans höfðu haft fram að færa og þar sem hann tekur upp hugmyndir annarra er það í því skyni að fella þær inn þannig að henti hans eigin kenningu. Stíll Rousseaus er iðulega persónulegur og mótaður hvort tveggja af mælsku höfundar og sterkri siðferðilegri sýn á stjórnmál, öfugt við hina köldu rökvísi sem einatt einkennir rit á þessu sviði.
Íslensk útgáfa Samfélagssáttmálans hlýtur að teljast nokkur tíðindi. Henni fylgir greinargóður inngangur Más Jónssonar um tilurð verksins og ævi hins sérstæða höfundar þess.