3.700,- / 2.960,-
Samdrykkjan
Platon
SAMDRYKKJAN ásamt Um fegurðina I.6. eftir Plótínos
Þýðing: Eyjólfur Kjalar Emilsson sem einnig ritar inngang og skýringar.
1999.
Samdrykkjan er ein af líflegustu samræðum Platons og jafnan álitin eitt hans mesta listaverk. Hér fara enda saman lýsing á manninum Sókratesi og sumar af merkustu og áhrifaríkustu hugmyndum Platons. Umræðuefnið er ástin og sviðið drykkjuveisla að hætti Grikkja þar sem gestir skemmta sér við ræðuhöld. Þetta form á heimspekiriti varð raunar fyrirmynd nýrrar bókmenntagreinar í fornöld. Meira er þó vert um þau áhrif sem kenningar Platons hér um ástina sem þrá eftir ódauðleika og fegurð – og á endanum eftir hinu fagra sjálfu – höfðu í gegnum nýplatónisma á kirkjufeður og kristni og þar með á vestræna hugsun allt fram yfir endurreisnartímann. Með þessari útgáfu Samdrykkjunnar fylgir ritgerð um fegurðina eftir Plótínos, upphafsmann nýplatonisma fornaldar, þar sem hann túlkar og endurhugsar kenningu Platons.
Gestirnir í Samdrykkju Platons skiptast á að halda lofræður um Eros. Eins og nærri má geta fjalla þeir fyrst og fremst um ástir milli karlmanna sem voru í ákveðnum myndum viðtekið lífsmynstur á Grikklandi til forna og má fræðast nokkuð um tilhögun þess af þessu verki. Bitastæðastur er hlutur Sókratesar í samræðunni. Hann rekur þá kenningu að Eros sé sjálfur hvorki fagur né góður, heldur sé eðli hans þrá eftir hinu góða og eftir nokkurs konar ódauðleika sem menn öðlast með getnaði – ýmist getnaði barna eða andlegra afurða, svo sem skáldskapar eða heimspeki. Sá sem þroskar þessa getnaðarhvöt rétt fer í gegnum stigveldi þar sem ást hans beinist fyrst að fegurð einstaks líkama en verður að ást á fegurð allra fagurra líkama, þá á fegurð í siðvenjum og vísindum og loks á sjálfri frummynd fegurðarinnar. Sköpunarverkin eru þeim mun fullkomnari eftir því sem þau eru getin í æðri fegurð og getur ástin á frummynd fegurðarinnar af sér sanna dyggð.
Um fegurðina er útbreiddasta verk Plótínosar. Þar ræðir hann eðli fegurðarinnar og samband hennar við mannssálina með þeirri niðurstöðu að fegurðin sé upprunnin í upphafi alls sem er, hinu góða sjálfu, og sé fyrsta birtingarmynd þessarar uppsprettu í heiminum. Sem fyrr segir byggir Plótínos mjög á Samdrykkjunni og fleiri verkum Platons.
Eyjólfur Kjalar Emilsson gerir báðum verkunum og áhrifum þeirra skil í inngangi. Eftir Platon eru einnig til Lærdómsritin Gorgías, Menón, Ríkið og Síðustu dagar Sókratesar.