Saga tímans

Stephen Hawking

Saga tímans

3.490,- / 2.792,-

Saga tímans

Stephen Hawking

UPPSELD

Þýðing: Guðmundur Arnlaugsson. Inngang ritar Lárus Thorlacius.

Stephen Hawking hefur farið fremstur í flokki kennilegra eðlisfræðinga samtímans og er í fararbroddi þeirrar greinar eðlisfræðinnar sem nefnist heimsfræði og tekur til uppruna, eðlis og þróunar alheimsins. Hawking hefur einnig lagt sig fram um að setja niðurstöður sínar og kenningar fram á aðgengilegan og skýran hátt fyrir almenning og þessi bók, sem er frægasta verk hans af þeim toga, hefur notið stöðugra vinsælda um allan heim. Heimsfræðin leitar enda svara við einhverjum mest heillandi ráðgátunum um heiminn en það kemur einnig til að framsetning Hawkings er afar skýr og lifandi.

Heimsfræði á rætur sínar annars vegar í afstæðiskenningu Einsteins og hins vegar þeirri uppgötvun Hubbles að alheimurinn sé að þenjast út. Í ljósi hins síðarnefnda hafa menn talið að heimurinn eigi upptök sín í punkti með óendanlegan efnisþéttleika og óendanlegri sveigju rúmsins, svokallaðri sérstöðu eða miklahvelli. Hawking vakti fyrst athygli fyrir að sýna fram á að tíminn eigi sér upphaf í miklahvelli í öllum heimslíkönum þar sem tilteknum almennum skilyrðum er fullnægt. Uppgötvun svokallaðs örbylgjukliðar er síðan talin hafa staðfest kenninguna um miklahvell endanlega. Sérstæður myndast einnig þegar massamikil stjarna fellur saman og verður að svartholi, sem eru annað af helstu rannsóknarefnum Hawkings. Við slíkar aðstæður bregðast lögmál eðlisfræðinnar og massi svartholanna sogar allt að sér. Hawking uppgötvaði aftur á móti geislun sem svarthol senda frá sér þegar par agnar og andagnar lendir í návígi við svarthol en aðeins önnur ögnin lendir inni í því og hin verður eftir. Þessa geislun hefur síðan tekist að mæla.

Í Sögu tímans gerir höfundurinn grein fyrir þessum uppgötvunum og skýrir rækilega eðlisfræði sína, án þess að nota flóknar stærðfræðijöfnur en með fjölda skýringamynda. Hann fjallar einnig um það sem nú er eitt helsta markmið eðlisfræðinga, að gera grein fyrir þyngdaraflinu út frá forsendum skammtafræðinnar, og varpar skýru ljósi á heimsmynd eðlisfræði nútímans sem mörgum virðist svo framandi.

Inngangur Lárusar Thorlacius veitir gagnlegt yfirlit um rannsóknir Hawkings og þróun heimsfræðinnar. Þá eykur enn gildi ritsins orðskýringalisti í bókarlok með ýmsum eðlisfræðilegum hugtökum sem koma fyrir í bókinni.

Saga tímans

3.490 kr.