Rússa sögur og Igorskviða

Þýðing: Árni Bergmann

Rússa sögur og Igorskviða

3.490,- / 2.792,-

Rússa sögur og Igorskviða

Þýðing: Árni Bergmann

Þýðing: Árni Bergmann, sem einnig ritar inngangskafla, millitexta og skýringar.

Hér eru birtar Rússa sögur og Igorskviða saman í einu Lærdómsriti. Þessi verk eiga bæði rætur að rekja til 11. og 12. aldar.

Rússa sögur er úrval úr rússneskum annál, þar sem safna átti saman öllu því sem menn töldu sig vita um sögu Rússa frá upphafi vega. Það sem hér er þýtt eru valdir kaflar úr þeim annáli Rússa sem er þeirra frægastur og merkastur, en hann heitir Saga liðinna ára. Þessi annáll spannar hérumbil þrjár fyrstu aldir rússneskrar sögu. Ritið er ómetanleg heimild um sögu Rússlands og markar sjálft upphaf rússneskrar sagnaritunar. Í þessum annál kennir ýmissa grasa; þar er t.d. greint frá sögu slavneskrar tungu og stafrófs, kristnitöku Rússa og ýmsum bardögum sem háðir voru á þessum umbrotatímum. Rússneskir annálar hafa sérstakt yfirbragð fyrir margra hluta sakir, textarnir eru ritaðir upp hvað eftir annað og þeim breytt á ýmsan hátt í tímans rás. Þar blandast því saman sögur, kveðskapur og jafnvel skrýtlur úr öllum áttum.

Þetta eru sögur sem mótað hafa hugmyndir Rússa um uppruna sinn og þjóðareinkenni. Ennfremur eiga sögurnar augljósar hliðstæður í íslenskum fornbókmenntum og höfða því oft sterklega til Íslendinga sem alist hafa upp við Njálu og Heimskringlu. Þýðandi verksins, Árni Bergmann, dregur þennan skyldleika fram með greinargóðum og ítarlegum skýringartextum sem fylgja annálnum. Það er afar forvitnilegt að sjá hvernig bera má saman stef á borð við forlög, hefndir, kvenhetjur og hólm göngur í þessum ólíku sagnahefðum.

Igorskviða, sem hér er endurbirt í þýðingu Árna Bergmann, er skrifuð nokkru síðar en rússneski annállinn og segir frá atburðum sem gerðust árið 1185. Kviðan er nánast eina verkið af þessum toga sem hefur varðveist en hún sýnir að Rússar iðkuðu kveðskaparlistina með glæsibrag allt frá því þeir eignuðust ritmál. Igorskviða er einstakt verk í rússneskri sögu. Hún greinir frá ófriði sem ríkti á milli smákonunga landsins um langt skeið. En kviðan er ort af svo mikilli snilld að það er töfrum líkast og þótt hún sé stutt er hver setning þrungin miklum krafti. Alexander Púshkín sagði um Igorskviðu að hún risi sem einn og stakur minnisvarði upp af eyðimörk rússneskra fornbókmennta.

Rússa sögur og Igorskviða er ómissandi fyrir alla áhugamenn um bókmenntir og sögu. Rússa sögur eru tengdar saman með ítarlegum og greinargóðum skýringum þýðanda og Igorskviðu er fylgt úr hlaði með ritgerðum sem setja verkið í samhengi og útskýra stöðu þess í bókmenntum miðalda.

Rússa sögur og Igorskviða

3.490 kr.