Rannsókn á skilningsgáfunni

David Hume

Rannsókn á skilningsgáfunni

3.490,- / 2.792,-

Rannsókn á skilningsgáfunni

David Hume

Þýðandi: Atli Harðarson sem einnig ritar inngang.

Skotinn David Hume var meðal merkustu heimspekinga 18. aldar og telst, ásamt John Locke og George Berkeley, til hinna bresku raunhyggjumanna. Rannsókn á skilningsgáfunni er eitt aðgengilegasta og þekktasta rit hans, þar sem Hume birtir skilmerkilegt yfirlit yfir frumspeki sína, þekkingarfræði og sálarfræði. Heimspeki Humes, og þá einkum þessi bók, hefur þá sérstöðu að áhrif hennar á heimspekisöguna eru í öfugu hlutfalli við það fylgi sem hún hefur notið. Þannig mun Rannsókn á skilningsgáfunni hafa verið innblásturinn að hinu mikla kenningakerfi Kants, sem fann sig knúinn til að reyna að sýna fram á hvernig komist yrði hjá niðurstöðum Humes. Einn umdeildasti þátturinn í kenningum Humes eru rök hans fyrir efahyggju, sem gerð eru skil í þessari bók. Hann lítur svo á að mannleg þekking skiptist í þekkingu á staðreyndum annars vegar, sem við öðlumst í gegnum reynslu, og hins vegar þekkingu á venslum hugmynda, en hana er hægt að leiða í ljós með hugsuninni einni saman. Á þeim staðreyndum sem við ályktum um út frá öðrum staðreyndum en höfum enga reynslu af útaf fyrir sig er á hinn bóginn, að mati Humes, ekki hægt að hafa neina þekkingu. Þannig er til að mynda engin skynsamleg ástæða til að ætla að náttúran haldi áfram að fara eftir þeim lögmálum sem hún hefur gert hingað til. Þótt sólin hafi komið upp á hverjum morgni fram að þessu gefur það okkur ekki tilefni til að álykta að hún geri það einnig í fyrramálið.

Hume boðar þó ekki að menn skuli haga lífi sínu til samræmis við svo rótttæka efahyggju. Hann lítur svo á að slíkt væri ómögulegt, því vissar skoðanir séu öllu fólki eðlislægar og ómótstæðilegar, þar á meðal ályktanir um að orsakalögmál séu að verki í náttúrunni, þótt þær eigi sér enga skynsamlega réttlætingu. Þarna býr að baki sú kenning að hugsanir og athafnir manna eigi sér náttúrulegar orsakir og endurómur af þeirri lífssýn Upplýsingarinnar að upphefja það sem talið er náttúrulegur eiginleiki á kostnað hins áunna. Hume taldi að efahyggja sín myndi á endanum verða til góðs – því þótt ómögulegt væri að lifa samkvæmt henni, gætu rök hans leitt fólki fyrir sjónir á hve veikum grunni það byggði þekkingu sína og þannig alið á hóflegri efahyggju og varfærni í skoðanamyndun.

Bókin hefur að geyma, auk fróðlegs inngangs Atla Harðarsonar, stutta sjálfsævisögu höfundarins sem hann ritaði á dánarbeði árið 1776.

Rannsókn á skilningsgáfunni

3.490 kr.

Flokkur: