Nytjastefnan

John Stuart Mill

Nytjastefnan

3.490,- / 2.792,-

Nytjastefnan

John Stuart Mill

Þýðing: Gunnar Ragnarsson.
Inngang ritar Roger Crisp en hann þýðir Þorsteinn Hilmarsson.

Hin svokallaða nytjastefna, sem á ensku nefnist utilitarianism, er einn af helstu straumunum í siðfræði 19. og 20. aldar. Höfuðrit hennar er þetta verk breska heimspekingsins Johns Stuarts Mill, sem þykir hafa sett hugmyndir nytjastefnunnar í hvað fágaðastan búning þótt hann væri ekki upphafsmaður þeirra. Mill er sá heimspekingur 19. aldar sem hvað ríkastan þátt hefur átt í að móta sýn nútímamanna á lýðræði og mannréttindi og nægir að nefna rit hans Frelsið og Kúgun kvenna í því sambandi, en bæði hafa komið út sem Lærdómsrit.

Kjarni nytjastefnunnar er að siðferðilegt réttmæti tiltekinnar breytni sé fólgið í því að hún stuðli að sem mestri almennri hamingju, en hamingja er að mati Mills fólgin í ánægju umfram sársauka. Kenningin telst því til þeirrar siðfræði sem metur réttmæti athafna út frá afleiðingum þeirra, öfugt við kenningar sem dæma þær réttar eða rangar í sjálfum sér. Nytjastefnan hefur jafnan mátt sæta ýmiss konar gagnrýni. Mönnum hefur sýnst hún leiða til þess að verstu illvirki geti í sumum tilfellum talist rétt breytni ef afleiðingin er aukin hamingja. Það er talið óraunhæft að ætla fólki sífellt að þurfa að reikna út þá hamingju og óhamingju sem hlýst af öllum mögulegum afleiðingum gjörða þess og þá þykir auðséð að margt annað en ánægja sé eftirsótt og eftirsóknarvert.

Rit Mills er glæsileg vörn fyrir nytjastefnuna þar sem hann leysir hugvitssamlega úr slíkum vandamálum. Fyrir það fyrsta eru hversdagslegar hugmyndir okkar um rétt og rangt mótaðar af reynslu fyrri kynslóða sem stjórnuðust ómeðvitað af nytjahyggju, þannig að morð, lygar og annað sem dró úr almennri hamingju var fordæmt. Fólk getur því stuðst við þetta innsæi en reiknað út afleiðingar í þeim tilfellum þar sem tvö sjónarmið stangast á. Þess ber þó að geta að Mill var gagnrýninn á viðtekið siðferði og leit svo á að það yrði að endurskoða í ljósi nytjahyggju. Enn fremur getur ánægja að hans mati verið til í misgöfugum  myndum sem eru misþung á metunum. Þannig setur hann fram heilsteypta og fágaða kenningu um grundvallaratriði mannlegs lífs.

Afar gagnlegur er inngangur Rogers Crisp að verkinu þar sem hann ræðir á gagnrýninn hátt kenningu Mills, mótbárur gegn henni og mögulegar úrlausnir.

Nytjastefnan

3.490 kr.

Flokkur: