10.363,- / 8.290,-
Morkinskinna I-II
Íslenzk fornrit XXIII-XXIV
Morkinskinna er mikið konungasagnarit frá fyrra hluta 13. aldar og greinir frá þeim konungum sem ríktu í Noregi eftir fall Ólafs helga á Stiklarstöðum árið 1030. Ritið mun í öndverðu hafa náð fram til þess tíma er Sverrir Sigurðarson tekur að berjast til valda í Noregi seint á 12. öld, en niðurlagið er glatað. Hér er á ferð elsta rit þar sem saga margra konunga er rakin ítarlega.
Í fyrra bindi útgáfunnar eru sögur Magnúsar góða Ólafssonar og Haralds harðráða Sigurðarsonar. Segir fyrst frá því er Magnús er tekinn úr fóstri austur í Garðaríki og settur á konungsstól í Noregi. Þegar hann vex úr grasi verður hann um hríð harður stjórnandi, en mildast við áminningu Sighvats skálds og er síðan nefndur Magnús hinn góði. Á seinasta ríkisári Magnúsar kemur Haraldur Sigurðarson föðurbróðir hans í Noreg, og þeir frændur ríkja þá saman um hríð. Síðan deyr Magnús skyndilega, og ríkir Haraldur einn eftir það. Haraldur er mikill ævintýramaður sem dvaldist ungur suður í Miklagarði og drýgði margar dáðir, en þegnum hans þótti hann öllu harðráðari en Magnús. Hann nýtur þó álits fyrir visku sína og dálæti á sagnalist og fær þá einkunn að hafa verið besti vinur Íslendinga meðal Noregskonunga. Sögu Haralds lýkur með örlagaríkri herferð hans til Bretlandseyja og falli hans í miklum bardaga við Stamfurðubryggju (Stamford Bridge) í Englandi árið 1066.
Í síðara bindi eru sögur þeirra konunga sem ríktu í Noregi eftir fall Haralds konungs harðráða. Fyrstur réð ríkjum Ólafur kyrri sonur hans. Ríkisár hans eru friðsöm og gjöful, en litlum sögum fer af þeim. Sonur Ólafs er Magnús berfættur sem er mikill hermaður og refsivöndur nágrannanna bæði í austri og vestri. Eftir fall hans á Írlandi 1103 skiptist ríkið milli sona hans sem eru ólíkir menn. Sigurður verður frægur fyrir Jórsalaferð sína í æsku, en Eysteinn bróðir hans reynist öflugur ríkisstjórnandi, lagamaður og ástsæll vinur þegna sinna. Noregur stendur í blóma á ríkisárum þeirra bræðra, en eftir það sígur á ógæfuhliðina. Við taka grimmir og óvitrir konungar, og brátt ríkir borgarastyrjöld í Noregi. Bræður berjast, og sér ekki fyrir endann á þeirri ófriðaröld þegar ritinu lýkur.
Ein höfuðprýði Morkinskinnu eru hinar mörgu frásagnir af samskiptum konunga við Íslendinga sem dveljast í Noregi, hinir svonefndu Íslendingaþættir. Sumir þeirra eru meðal meistaraverka íslenskra bókmennta, svo sem Auðunar þáttur vestfirska, Halldórs þáttur Snorrasonar, Hreiðars þáttur heimska og Sneglu-Halla þáttur. Þá er þess að geta að fá íslensk sagnarit geyma svo margar vísur sem Morkinskinna, og er talsverður hluti þeirra hvergi annars staðar varðveittur.