Mennt og máttur

Max Weber

Mennt og máttur

3.490,- / 2.792,-

Mennt og máttur

Max Weber

Þýðing: Helgi Skúli Kjartansson.

Inngang ritar Sigurður Líndal.

Max Weber var ótvíræður frumkvöðull á sviði félagsfræða og gætir áhrifa hans víða innan þeirra og annarra skyldra greina. Hann lauk aftur á móti doktorsprófi í lögfræði, gegndi prófessorsstöðu í hagfræði og var þar að auki vel að sér í sagnfræði og heimspeki. Enn fremur fjallaði þessi mikli fræðimaður mjög um stjórnmál eftir að heimsstyrjöldin fyrri braust út og tók sjálfur virkan þátt í þeim.

Skarpskyggni Webers og frumleiki koma skýrt fram í fyrirlestrunum tveimur sem þessi bók hefur að geyma. Í þeim fyrri, um starf fræðimannsins, gerir hann grein fyrir hinni umdeildu kenningu sinni um hlutleysi vísindanna. Samkvæmt henni geta vísindi og fræði aldrei leiðbeint okkur um gildismat og jafnvel sjálf markmið þekkingarleitarinnar eru skilgreind óháð þeim. Viðhorf Webers tengist þeirri kenningu hans að vestræn menning hafi um langt skeið einkennst af framsókn vissrar tegundar reglubundins skilnings þar sem röklega skilgreind hugtök séu lögð til grundvallar skipulagningu og sjálfsskilningi samfélaga.  Þessi staðreynd er í sjálfri sér hvorki jákvæð né neikvæð en afleiðingar hennar eru samfélagsgerð okkar, þar á meðal efnahagskerfið, sem söguspeki Webers fæst að miklu leyti við að greina. Hlutleysi vísindanna er önnur slík afleiðing. Weber hvetur fólk til að horfast í augu við þann veruleika, sem vísindi og fræði hafa leitt í ljós, að mannlífið hljóti ávallt að fela í sér átök ósættanlegra viðhorfa sem þau sjálf séu ófær um að meta, hversu nöturlegur sem sá veruleiki sé.

Seinni fyrirlesturinn fjallar um félagsfræði ríkisins og siðfræði stjórnmála. Sérhverja siðferðilega athöfn segir hann vera réttlætta ýmist með tilliti til svonefnds hugarfarssiðgæðis eða ábyrgðarsiðgæðis, sem séu ósættanleg lögmál. Siðferði hugarfarsins miðar við skilyrðislaust rétta breytni og dulin forsenda þeirra er blind trú á stefnu sögunnar að „réttu marki“. Slíkt siðferði glímir við þann óyfirstíganlega vanda hvort gott markmið réttlæti valdbeitingu og getur ekki átt heima í stjórnmálum þar sem valdið sé verkfæri þeirra. Því verður réttlæting stjórnmálamanns fyrir verkum sínum ætíð að felast í fyrirséðum afleiðingum þeirra.

Hér er aðeins tæpt á nokkrum lykilatriðum í hinum yfirgripsmiklu kenningum Webers sem ávallt hafa veriðumdeildar og ótvíræð kveikja að þeirri umræðu sem höfundurinn taldi markmið alls fræðastarfs að skapa. Í inngangi Sigurðar Líndal er varpað glöggri mynd af Weber og kenningar hans skýrðar með upplýsandi hætti.

Mennt og máttur

3.490 kr.

Flokkur: