3.490,- / 2.792,-
Manngerðir
Þeófrastos
Þýðing: Gottskálk Þór Jensson sem einnig ritar inngang.
3. útgáfa 2007
Gríski heimspekingurinn Þeófrastos var uppi á annarri og þriðju öld fyrir Krist. Hann nam við Akademíu Platons og er talinn hafa fylgt Aristótelesi á ferðum hans áður en hann varð fyrsti skólastjóri Gangnaskólans í Aþenu. Honum er eignaður mikill fjöldi rita um ýmis heimspekileg og vísindaleg efni, en flest þeirra hafa glatast. Manngerðirnar, frægasta rit hans, hefur þó verið þekkt og lesið allt frá fornöld og náði raunar mestum vinsældum á 17. öld, þegar stælingar á því og ýmis afbrigði sama forms urðu að sérstakri bókmenntagrein hjá frönskum, þýskum og enskum höfundum.
Manngerðirnar I eru líka sérstaklega frumlegt verk. Þeófrastos lýsir í örstuttum greinum þrjátíu ámælisverðum sérkennum í háttum manna, en hvorki með aðferðum siðfræði eða mælskufræði, sem iðulega fjölluðu þó um sömu eiginleika í fornöld, heldur skilgreinir hann hvert sérkenni fyrir sig með eins konar orðskýringu og rekur dæmi af hegðun til dæmis nískupúkans eða hins meinfýsna í hversdagslegum aðstæðum. Aðrar manngerðir sem verða fyrir barðinu á Þeófrastosi eru meðal annars ólíkindatólið, smjaðrarinn, smásálin, dindilmennið, hrokagikkurinn og fruntinn. Hlutlægar lýsingar Þeófrastosar á tilsvörum manngerðanna og samskiptum þeirra við annað fólk fá hverja og eina til að standa ljóslifandi fyrir hugskotssjónum lesandans og munu margir kannast við ýmislegt í fari persónanna sem svo er lýst. Verkið er því á köflum óborganlega fyndið, sem án efa skýrir vinsældir þess á síðari tímum, en fyrir þessa útgáfu hefur þýðandi gert ítarlegar skýringar um þær sérgrísku aðstæður sem Þeófrastos vísar stundum til. Bókina prýða að auki teikningar úr enskri útgáfu Manngerðanna frá 19. öld. Þá eru birt í viðauka „Æviþáttur Þeófrastosar“ úr Lífi og skoðunum merkra heimspekinga eftir Díogenes Laertíos og skólaþýðing úr Bessastaðaskóla á tíu manngerðum. Loks er inngangur þýðandans, Gottskálks Þórs Jenssonar, um verkið og ævi höfundar hinn fróðlegasti.