Kúgun kvenna

John Stuart Mill

Kúgun kvenna

3.700,- / 2.960,-

Kúgun kvenna

John Stuart Mill

ásamt Um frelsi og menntun kvenna. Sögulegur fyrirlestur eftir Pál Briem og Fyrirlestri um hagi og réttindi kvenna eftir Bríeti Bjarnhéðinsdóttur.

Þýðing: Sigurður Jónasson. Inngang ritar Auður Styrkársdóttir.

Í þessu riti eru prentuð saman þrjú þau verk sem gegnt hafa lykilhlutverki í sögu baráttunnar fyrir réttindum kvenna á Íslandi. Rit Mills um kúgun kvenna var auk þess mikill áhrifavaldur á réttindabaráttu um öll Vesturlönd allt frá útgáfu þess árið 1869, en íslenska þýðingin, sem hér er endurútgefin, er frá aldamótaárinu 1900.

Höfundurinn er einn kunnasti heimspekingur 19. aldar, sér í lagi fyrir verk sín á sviði siðfræði og stjórnspeki. Vitna vinsældir hans og vægi í heimspeki samtímans um framsýni Mills og gríðarleg áhrif hans á hugarheim nútímamanna og hvergi er þetta ljósara en í skrifum hans um jafnréttismál. Kúgun kvenna er rituð í fyrsta lagi í þeim tilgangi að hrekja röksemdir gegn því að konur skyldu hafa réttindi á við karlmenn og í öðru lagi að sýna fram á að jafnrétti kæmi þjóðfélaginu öllu til góða, enda stæðu konur karlmönnum síst að baki varðandi getu og hæfileika. Hann telur að hvers konar kúgun komi ekki aðeins niður á heill þess sem fyrir henni verður, heldur ekki síður þess sem er í hlutverki kúgarans. Verkið ber það aðalsmerki Mills að djúpstæð hugsun hans um viðamikil efni er sett fram á listilega skýran og aðgengilegan hátt. Það er langt frá því að mikilvægi þess sé einvörðungu sögulegt, því röksemdir hans eiga enn erindi við jafnréttisumræðu okkar daga. Hér er enda fengist við eðli lykilhugtaka eins og frelsi og vald, sem eru drjúgur þáttur í heimspeki Mills.

Fyrirlestrar Páls Briem og Bríetar Bjarnhéðinsdóttur beina hvatningarorðum fyrst og fremst til kvenna að beita sér fyrir því að breytingum verði komið til leiðar. Ef Mill má gagnrýna fyrir að sýna konur sem atkvæðalítinn og undirokaðan hóp, er hér farið öfuga leið. Í fyrirlestri Páls frá 1885 er saga kvenfrelsisbaráttu í Bandaríkjunum rakin og framvarðarsveit hennar ásamt kvenhetjum Íslendingasagna lýst sem gerendum og fyrirmyndum. Það sama er uppi á teningnum í fyrirlestri Bríetar frá 1888, sem mun hafa verið fyrsti opinberi fyrirlestur konu hér á landi. Hún kveður upp harðan dóm yfir því misrétti sem viðgekkst í réttindum og kjörum kynjanna og leggur mikla áherslu á mikilvægi menntunar til handa konum. Báðir veita fyrirlestrarnir glögga innsýn í baráttu kvenna við íslenskar aðstæður í lok 19. aldar.

Inngangur Auðar Styrkársdóttur er ítarleg ritgerð um sögu jafnréttisbaráttu hér á landi og erlendis, þar sem hún setur hugmyndafræði hennar í samhengi við þjóðfélagsþróun og hugmyndasögu 19. aldar.

Kúgun kvenna

3.700 kr.