Kommúnistaávarpið

Karl Marx og Friedrich Engels

Kommúnistaávarpið

3.900,- / 3.120,-

Kommúnistaávarpið

Karl Marx og Friedrich Engels

Það kannast allir við Kommúnistaávarp Marx og Engels. Ávarpið er án efa eitt áhrifamesta pólitíska rit sem út hefur komið og alveg ábyggilega það áhrifamesta sem komið hefur út á síðustu tveimur öldum. Verkið var fyrst gefið út í byrjun árs 1848 og upp úr næstu aldamótum hafði það verið þýtt á u.þ.b. 30 tungumál. Eftir októberbyltinguna í Rússlandi árið 1917 varð ávarpið að eins konar testamenti kommúnistaflokka um heim allan. Flokkarnir vildu að Kommúnistaávarpið væri fáanlegt á viðráðanlegu verði. Verkið kom fyrst út á íslensku árið 1924 en þýðingin sem hér er endurbirt var gerð árið 1949. Sú þýðing hefur lengi verið illfáanleg. Nú hefur verið ráðin á því bót og Kommúnistaávarpið gefið út sem Lærdómsrit með ítarlegum skýringum og tveimur inngangsköflum.

„Vofa leikur nú ljósum logum um Evrópu – vofa kommúnismans.“ Upphafsorð þessi eru greypt í vitund fólks og til þeirra er sífellt vitnað. Í þessari kröftugu stefnuyfirlýsingu voru kenningar marxismans í fyrsta skipti settar fram með skýrum hætti. Hér er fullyrt að saga mannsins sé í raun saga sífelldrar stéttarbaráttu á milli kúgara og hinna kúguðu, á milli arðræninga og hinna arðrændu. Nú stendur yfir barátta á milli hinnar nýju borgarastéttar og öreigalýðsins. Borgarastéttin byggir völd sín á töfratækjum iðnbyltingarinnar; framleiðsluhættir og samgöngur þróast og breytast með undraverðum hraða. Þegar þessar breytingar samtvinnast viðskiptaháttum hins frjálsa markaðar fær borgarastéttin ekki „lengur ráðið við anda undirdjúpanna, sem [hún] hefur vakið upp“. Við slíkar aðstæður geisar farsótt offramleiðslunnar sem steypir þjóðfélögum í hverja kreppuna á fætur annarri. Skyndilega ríkir hungursneyð og stríð, og borgarastéttin kann engin ráð til að afstýra hinni síendurteknu vá verslunarkreppunnar. Hugsjón kommúnismans er stéttlaust þjóðfélag sem byggist á jöfnuði allra manna. Þegar öreigar allra landa hafa sameinast og steypt allri þjóðfélagsskipan af stóli með valdi er hægt að byggja upp réttlátt og mannúðlegt samfélag. Allir vita hversu áhrifamikil þessi kenning hefur verið. Til þessa dags er hún gífurlega umdeild og hún mun sennilega aldrei hverfa af sjónarsviði pólitískrar umræðu. En líkt og Páll Björnson skrifar í nýjum inngangi að Kommúnistaávarpinu þá er þetta ekki einungis pólitískt greiningarrit, heldur líka innblásið áróðursrit, augnabliksþrungið spádómsrit og ómissandi heimildarrit. Þetta er augljóslega verk sem allir ættu að kynna sér.

 

Kommúnistaávarpið

3.900 kr.

Flokkur: