Jómsvíkinga saga

Íslenzk fornrit XXXIII

Jómsvíkinga saga

7.490,- / 5.992,-

Jómsvíkinga saga

Íslenzk fornrit XXXIII

Jómsvíkinga saga er talin rituð kringum 1200. Hún segir í upphafi frá elstu Danakonungum sem áreiðanlegar heimildir eru til um: Gormi hinum gamla, Þyri konu hans, syni þeirra, Haraldi blátönn, og Sveini syni hans. Sögur af þessum Danakonungum koma engan veginn heim við lýsingar þeirra í evrópskum miðaldaheimildum. Haraldur Gormsson vegur Knút bróður sinn. Dánarfregnin ríður föður þeirra að fullu, og Haraldur verður konungur. Hákon Sigurðarson Hlaðajarl kemur til hirðar Haralds, og saman brugga þeir banaráð Gull-Haraldi, syni Knúts Gormssonar, Haraldi gráfeldi Noregskonungi og Gunnhildi móður hans. Þá segir frá herför Ottós „hins rauða“ Þýskalandskeisara til að kristna Danmörku og sigri hans með fulltingi Ólafs Tryggvasonar. Hákon kastar nýtekinni trú, flýr til Noregs og hættir að gjalda Haraldi skatt.

Jómsvíkinga saga er nánast eina heimildin sem segir frá Pálna-Tóka, aðalpersónu síðara hluta sögunnar. Haraldur Gormsson lætur drepa Áka Tókason, föðurbróður hans, og Pálna-Tóki hefnir hans á mjög niðurlægjandi hátt. Síðan víkur hann til Vindlands, reisir kastalann Jómsborg og stofnar þar víkingabræðralag. Þangað ráðast hinir fræknustu kappar. Sögunni lýkur á herferð Jómsvíkinga til Noregs þar sem þeir mæta Hákoni jarli og Eiríki syni hans í snarpri og tvísýnni orrustu í Hjörungavogi, en bíða ósigur. Frásögnin nær hámarki í lýsingunni á aftökum Jómsvíkinga, sem sýna mikið æðruleysi og hetjuskap og ögra böðlum sínum.

Sagan er fyrst og fremst skemmtisaga; höfundur lætur sér staðfræði og sannfræði í léttu rúmi liggja og sýnir konungum og öðrum höfðingjum algert virðingarleysi. Tvær drápur um bardagann í Hjörungavogi fylgja útgáfunni: Jómsvíkingadrápa eftir Bjarna Kolbeinsson Orkneyjabiskup og Búadrápa eftir Þorkel Gíslason. Þá fylgja þessu bindi konunga­sagna nokkrir þættir, sem einkum eru varðveittir í Flateyjarbók.

Jómsvíkinga saga

7.490 kr.

Flokkur: