Í reiðuleysi í París og London

George Orwell

Í reiðuleysi í París og London

3.490,- / 2.792,-

Í reiðuleysi í París og London

George Orwell

Þýðing: Uggi Jónsson sem einnig ritar inngang.

Nafn enska rithöfundarins George Orwell þekkir nánast hvert mannsbarn enda liggja eftir hann einhver mögnuðustu ádeiluverk 20. aldarinnar, skáldsögurnar 1984 og Dýrabær, sem jafnan er skipað í flokk sígildra heimsbókmennta. Skrif Orwells, sem raunar hét réttu nafni Eric Arthur Blair, takmörkuðust þó ekki við hinar áhrifamiklu skáldsögur, því á tiltölulega stuttum höfundarferli ritaði hann fjölda greina og ritgerða, auk nokkurra lengri bóka. Eitt einkenni á verkum Orwells er í hversu miklum mæli hann leitar í eigin reynslu – oftar en ekki reynslu sem hefur vakið hann til djúprar umhugsunar um samfélagsgerð og stjórnmál. Þannig fjallar hann meðal annars um þátttöku sína í borgarastríðinu á Spáni, lögreglustörf í bresku nýlendunni Búrma og, í þessari bók, um lifnaðarhætti skrautlegs flokks flækinga og undirmálsfólks sem höfundurinn deildi sjálfur kjörum með um tíma.

Í reiðuleysi í París og London kom út árið 1933, fyrsta bókin sem Orwell fékk útgefna. Hér segir af lífi í fátækt og óvissu, samfélagi sem hulið er augum borgarastéttarinnar og þótt ekki hafi fengist úr því skorið að hve miklum hluta höfundur rekur sanna atburði og hvar hann hefur skáldað í eyðurnar er ljóst að Orwell sækir margt í eigin reynslu. Frásögnin leiftrar því af lífi, lýsingar á fólki og atburðum eru fullar af kímni og höfundur lýsir af skarpskyggni óvæntum fylgifiskum örbirgðarinnar og áhrifum hennar á mannlífið. Án þess að gerast siðapostuli dregur hann fram hinar þversagnakenndu og oft glórulausu ástæður fyrir viðvarandi eymd fólks og bendir á leiðir til úrbóta. Verkið hefur því víðari skírskotun; hina pólitísku vídd, sem Orwell taldi það sem gæfi verkum sínum helst gildi, og er þar að auki öðrum þræði rannsókn á manneðlinu, átakanlegar lýsingar á því hvernig ógæfan getur rúið fólk mennskunni en líka á sannri  manngöfgi sem skýtur upp kollinum þar sem hennar er síst von.

Uggi Jónsson hefur skrifað inngang að eigin þýðingu á bókinni þar sem hann fjallar um höfundarferil Orwells, hugsjónir hans og tilurð þessa verks.

Í reiðuleysi í París og London

3.490 kr.