3.490,- / 2.792,-
Gorgías
Platón
UPPSELD
Þýðing: Eyjólfur Kjalar Emilsson sem einnig ritar inngang.
Gorgías er ein glæsilegasta samræða Platons, en um ágæti þessa kunnasta heimspekings sögunnar er óþarft að fjölyrða. Þetta rit telst til hinna svokölluðu sókratísku samræðna, sem Platon ritaði tiltölulega snemma á ferli sínum og eru taldar endurspegla réttilega viðhorf Sókratesar sjálfs. Gorgías fjallar að nafninu til um mælskulist, en þegar líður á verkið leiðir sú rökræða til þess að leita þarf svara við mikilvægum spurningum um mannlegt líferni og stjórnarfar. Hér er að finna eina skýrustu heildarmyndina af siðfræði Platons og hér koma í fyrsta skipti fram ýmsar kenningar sem hann átti eftir að halda áfram að vinna úr í Ríkinu.
Mælskulist var á dögum Platons gríðarlega mikilvægt tæki, ekki hvað síst fyrir hvern þann sem vildi hafa áhrif í stjórnmálum, enda hafði hið talaða orð úrslitaáhrif þegar kom að því að sannfæra samborgara sína. Sókrates samræðunnar gagnrýnir þessa eftirsóttu listgrein harkalega og beitir fyrir sig greinarmuninum á skoðun og raunverulegri þekkingu. Það er aðeins á valdi mælskumannsins að sannfæra áheyrendur sína um hið fyrrnefnda, en skoðanirnar kunna að vera rangar og jafnvel um efni sem hann sjálfur hefur ekkert vit á. Þessi gagnrýni beinist um leið að lýðræðinu sem Platon var alla tíð andsnúinn. Hann taldi að unnt væri að komast að öruggum sannindum um gott og illt, en í lýðræðisríki væri óhjákvæmilegt að ákvarðanir fólksins mótuðust af þeim gervivísindum sem væru mælskulist stjórnmálamanna eða það sem við köllum í dag einfaldlega áróður. Lykilatriðið er í raun og veru það að líferni þess sem beitir fyrir sig mælskulistinni leitast aðeins við að uppfylla langanir og duttlunga hans hverju sinni, en ekki að vera réttvís eða höndla réttnefnda hamingju. Hérna býr að baki sú kenning að réttvísi sé manni sjálfum til góðs, sem er svar Platons við meginvanda allra siðfræðikenninga: hvers vegna ætti að breyta siðferðilega, jafnvel þegar slíkt fer öndvert gegn manns eigin hagsmunum? Hann heldur því fram að siðleysi sé til marks um ójafnvægi og stjórnleysi sálar sem láti stjórnast af ástríðum sínum. Slíkt ástand er sjúkdómur í sálinni og sál sem er sjúk getur vart talist gæfusöm. Þessa hugmynd ásamt fleirum þróar Platon síðan áfram í Ríkinu.
Það er auðséð að umfjöllunarefni Gorgíasar, gervivísindi, áróður, eðli refsinga og hlutverk stjórnmálamanna, svo eitthvað sé nefnt, eru síst minna aðkallandi nú á dögum en á ritunartíma verksins. Í inngangi ritsins er gerð skilmerkileg grein fyrir aðalefnisatriðum þess og frummyndakenningu Platons gerð nokkur skil.
Önnur verk Platons, sem komið hafa út sem Lærdómsrit, eru Ríkið, Menón, Samdrykkjan og Síðustu dagar Sókratesar.