Fræðarinn I

Klemens frá Alexandríu

Fræðarinn I

3.490,- / 2.792,-

Fræðarinn I

Klemens frá Alexandríu

Þýðing: Clarence E. Glad sem einnig ritar inngang og skýringar.

Klemens frá Alexandríu var einn af hinum svonefndu kirkjufeðrum kristninnar. Hann starfaði í borginni Alexandríu í Egyptalandi á ofanverðri annarri öld eftir Krist og hafði mikil áhrif á mótun kristinnar trúar með því að hann varð fyrstur kristinna manna til að flétta skipulega saman gríska heimspeki og hina gyðing-kristilegu hugsun. Menningarsögulegt gildi verka hans er því ótvírætt. Klemens hlaut gríska menntun og þekkti vel til heimspeki Platons, Aristótelesar og stóuspekinganna, enda gætir víða áhrifa þeirra á hugsun hans. Hann leit svo á að heimspekin færði manni heim mikilvæga þekkingu á sjálfum sér, heiminum og Guði, þótt hún væri að vísu ekki nema hjálpartæki á vegi mannsins til hjálpræðis.

Fræðarinn er eitt grundvallarrita Klemensar. Hugsanlegt er að bókin hafi verið rituð sem leiðsagnarkver í kristilegu uppeldi, en í henni setur höfundur fram guðfræðilega undirstöðu kristinnar siðfræði. Maðurinn er skapaður í Guðs mynd og fullkomnun hans felst í aðlögun að Guði. Í augum Guðs erum við börn á þroskabraut og fræðari okkar er Kristur, sem hvetur, ráðleggur og huggar. Það er með því að reyna að líkjast honum í verkum okkar sem við ræktum með okkur allar dygðir. Í umfjöllun sinni um uppeldi, menntun og siðferði leggur hann út af hugtakinu paidagogos eða fræðari, sem vísar til þess sem í hefðbundnu grísku uppeldi hafði öllum stundum umsjón með dreng og var ábyrgur fyrir því að koma honum til manns. Kristur, hið holdgerða Orð, er fræðari okkar í þessum skilningi en einnig kennari.

Bókinni fylgir ítarlegur inngangur eftir Clarence E. Glad þar sem guðfræði Klemensar, áhrifavöldum hans og stöðu kristindómsins á 2. öld eru gerð skil. Auk þess geymir þessi útgáfa fjölda skýringa og viðauka, lesendum til glöggvunar.

Annað rit Klemensar frá Alexandríu, Hjálpræði efnamanns, hefur einnig komið út sem Lærdómsrit.

 

 

Fræðarinn I

3.490 kr.

Flokkur: