Birtíngur

Voltaire

Birtíngur

3.490,- / 2.792,-

Birtíngur

Voltaire

Þýðing: Halldór Laxness

Inngang ritar Þorsteinn Gylfason

Birtíng ritaði Voltaire á fáeinum vikum árið 1758. Bókin varð undir eins feykivinsæl og hefur verið það síðan, enda samdóma álit manna á öllum tímum að fáar bækur hafi verið ritaðar skemmtilegri. Voltaire er kunnur sem einn mesti andans maður á 18. öld. Hann var bæði skáld og fræðimaður, ritaði um heimspeki, sagnfræði og vísindi svo nokkuð sé nefnt og var einatt upp á móti stjórnvöldum í baráttu sinni gegn harðstjórn og hjátrú. Fá rit hans hafa þó haldið nafni hans jafn rækilega á lofti og „heimspekilega ævintýrið“ Birtíngur. Bókin er skrifuð sem viðbragð við löghyggju 18. aldar, sér í lagi heimspeki Leibniz sem komist hafi að þeirri niðurstöðu að skynsamleg regla væri á sköpunarverkinu og raunar gott betur, því Guð hlyti nauðsynlega að hafa skapa hinn besta mögulega heim þótt íbúar hans komi ekki alltaf auga á það. Hörmungar sjö ára stríðsins og jarðskjálftinn mikli sem skók Portúgal árið 1755 vöktu hjá Voltaire djúpstæðar spurningar um hvernig hægt væri í fúlustu alvöru að halda því fram, eins og kristin forlagatrú gerði en einkum þó postular löghyggju á borð við Leibniz, að allt ætti sér skynsamlega ástæðu og heimurinn væri eins og best yrði á kosið. Birtíngur er ein samfelld háðsádeila á þessa skoðun, þar sem prófessor Altúnga er látinn hafa eftir heimspeki Leibniz í skopstælingu, þar á meðal frumsetningu hans um hina einhlítu ástæðu, það er að segja að hver hlutur sé til af skynsamlegri ástæðu þar sem að sérhverjum sannindum hnígi skynsamleg rök. Dæmi Altúngu um að nef manna séu gerð fyr ir lonníettur og svín til þess að vera étin, enda höfum við lonníettur og étum svín, eru raunar ekki svo fjarri þeim rökum sem notuð voru til stuðnings löghyggju á 18. öld.

Birtíngur er þó öðru fremur kostuleg skemmtisaga. Þýðing Halldórs Laxness frá 1945, sem hér er endurútgefin, er gerð af mikilli orðsnilld og kímni svo sem verkinu hæfir. Þá hefur Þorsteinn Gylfason ritað fróðlegan og lifandi inngang um ádeilu Voltaires og ævi hans.

Eftir Voltaire hefur einnig komið út Lærdómsritið Zadig eða örlögin sem einnig er til á hljóðbók.

Birtíngur

3.490 kr.

Flokkur: