Ágrip Fagurskinna

Íslenzk fornrit XXIX

Ágrip Fagurskinna

6.214,- / 4.971,-

Ágrip Fagurskinna

Íslenzk fornrit XXIX

Ágrip af Noregskonunga sögum (venjulega stytt í Ágrip) er sem nafnið sýnir yfirlitsrit um sögu konunganna. Efni og orðfæri bendir til að ritið muni samið í Noregi á síðasta áratug 12. aldar, en það er aðeins varðveitt í einu íslensku handriti. Upphaf og niðurlag vantar, en talið að það hafi hafist með Hálfdani svarta og endað 1177. Ritið er samið af lærðum manni, og víða bregður fyrir latínubornum lærdómsstíl. Ágrip hefur síðan verið hagnýtt í yngri og ítarlegri ritum um Noregskonunga – Fagurskinnu, Morkinskinnu og Heimskringlu. Þar var kominn frásagnarkjarni sem síðari sagnaritarar gátu hlaðið utan um.


Fagurskinna er nafn sem Þormóður Torfason gaf fornu handriti Noregskonungasagna, en síðan færðist nafnið yfir á sögur þær sem í handritinu voru. Sömu sögur voru einnig til í annarri skinnbók og báru þar heitið „Noregs konunga tal“. Báðar skinnbækurnar fórust í brunanum mikla í Kaupmannahöfn 1728, en sögurnar varðveittust í góðum uppskriftum á pappír. Fagurskinna er að miklu leyti útdráttur úr þrem ritum: Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Odd Snorrason, Elstu sögu (Helgisögu) Ólafs helga og Morkinskinnu, og hafa allar verið í eldri gerðum en þeim sem nú eru til. Þetta eru einmitt sömu rit sem verið hafa megin­ heimildir Snorra í Heimskringlu. Þannig verður sjálfkrafa margt sameiginlegt í Fagurskinnu og Heimskringlu, en auk þess er talið að Snorri hafi þekkt Fagurskinnu sjálfa. Höfundur Fagurskinnu styttir heimildir sínar mjög, en oft virðist handahóf ráða hvað hann tekur og hverju hann sleppir. Gjarna teygir hann úr frásögnum af miklum orrustum, en þó sleppir hann alveg að lýsa sjálfri Stiklarstaðaorrustu sem Snorri helgar mikið rúm. Í aðra röndina er hann gagnrýninn sagnaritari, sleppir t.a.m. öllu yfirnáttúrlegu efni og ýmsu öðru sem hann hefur talið ósennilegt. Eins og Snorri notar hann mjög fornan kveðskap máli sínu til stuðnings, og hafa við það varðveist ýmsar merkilegar vísur og kvæðabrot í Fagurskinnu.

Austfirðinga sögur

Íslenzk fornrit XI

Austfirðinga sögur

6.214,- / 4.971,-

Austfirðinga sögur

Íslenzk fornrit XI

Þorsteins saga hvíta hefst á landnámsöld, en er seint rituð, gerð til fyllingar framan við Vopnfirðinga sögu. Meginefnið eru kvonarmál Þorsteins fagra, löguð eftir Bjarnar sögu Hítdælakappa og Gunnlaugs sögu ormstungu.


Vopnfirðinga saga er meðal snjallari Íslendingasagna, átakanleg harmsaga sem lýsir deilum og vígaferlum náinna mága, frænda og fóstra: Brodd-Helga á Hofi og Geitis í Krossavík og síðan sonanna Bjarna á Hofi og Þorkels Geitissonar. En hún er jafnframt dæmisaga um umburðarlyndi og manngæsku sem sigrar að sögulokum.


Þorsteins þáttur stangarhöggs er ein hinna skáldlegu fornu smásagna, byggð á lýsingu Vopnfirðinga sögu af höfðingjanum Bjarna Brodd-Helgasyni. Þorsteinn stangarhögg vegur tvo heimamenn Bjarna til hefnda fyrir áreitni. Bjarni skorar Þorstein til einvígis, og þegar hann hefur sannprófað ágæti unga mannsins gefur hann honum upp sakir og ræður hann í þjónustu sína.


Hrafnkels saga Freysgoða er frægust allra Austfirðinga sagna. Þetta er djúpsæ sálarlífssaga um garpinn sem vinnur þungbæran eið og fellur á ofdrambi sínu, stillist síðan af biturri reynslu og gerist „gæfur og hægur“, en hefnir sín þó þegar færi gefst svo að fullt jafnvægi kemur fram að sögulokum. Um uppruna og eðli Hrafnkels sögu hafa verið skiptar skoðanir og afar líflegar umræður meðal fræðimanna.


Droplaugarsona saga mun vera elst hinna austfirsku sagna og líklega með hinum elstu Íslendingasögum, rituð á fyrra hluta 13. aldar. Frægur í annálum er bardaginn í Eyvindardal þegar Helgi Ásbjarnarson fellir nafna sinn Droplaugarson. Af hinum varðveitta texta sögunnar að dæma hefur höfundur hennar stuðst við fornar munnmælasagnir.


Í Austfirðinga sögum eru ýmsar fleiri sögur, styttri og lengri, sem nefndar skulu stuttlega:

Ölkofra þáttur er gamansöm ádeila á réttarfarið í landinu og fégræðgi höfðingja.


Brandkrossa þáttur er eins konar framhald Droplaugarsona sögu. Þátturinn er ritaður til að skýra nánar uppruna sögugarpanna.


Gunnars þáttur Þiðrandabana segir frá austmanni sem varð að bana Þiðranda Geitissyni úr Krossavík. Þorkell bróðir Þiðranda er til eftirmáls, en Þiðrandi er sendur vestur á land til Guðrúnar Ósvífursdóttur sem reynist honum vel og forðar honum utan. Í Laxdælu er endur­sagt niðurlag þáttarins sem þar er nefndur „Njarðvíkinga saga“.


Fljótsdæla saga er aðeins til í einu handriti sem framhald Hrafnkels sögu. Hún er skáld­ saga með sögulegu ívafi, samin til skemmtunar mönnum. Niðurlagið er glatað eða hefur aldrei verið samið; það hefur verið eða átt að vera uppskrift eða endursögn Droplaugarsona sögu. Fljótsdæla er vel sögð og rituð á hreinu og fögru máli.


Þorsteins saga Síðu-Hallssonar er merkileg fyrir þá sök að þar er sagt frá þátttöku Þorsteins í Brjánsbardaga (orrustunni við Clontarf hjá Dyflinni 1014), sem einnig er lýst í Njálu, og er talið að báðar sögurnar styðjist við glatað rit.


Draumur Þorsteins Síðu-Hallssonar segir frá því er Gilli, írskur þræll Þorsteins, drap hann um nótt til hefnda fyrir það að Þorsteinn hafði látið gelda hann.


Þorsteins þáttur Austfirðings segir frá Íslendingi er sýnir heimóttarskap við hirð Noregskonungs, en drýgir þó afrek og verður um síðir nýtur maður heima á Íslandi.


Þorsteins þáttur sögufróða gerist við hirð Haralds harðráða og geymir frægan vitnisburð um sagnaskemmtun Íslendinga.


Gull-Ásu-Þórðar þáttur, kenndur við íslenskt skáld sem fékk konu í Noregi, fjallar að öðru leyti um átök norskra höfðingja innbyrðis og við konunginn, Eystein Magnússon. Þátturinn er vel byggður og geymir hnyttileg tilsvör og fágæt spakmæli.

Biskupa sögur I

Íslenzk fornrit XV

Biskupa sögur I

6.214,- / 4.971,-

Biskupa sögur I

Íslenzk fornrit XV

Fyrsta bindi Biskupa sagna er skipt í tvo hluta. Í fyrra hluta er margvíslegt fræðilegt efni varðandi sögurnar, en í síðara hluta sögutextarnir sjálfir.

Fremst í fyrra hluta (Fræðum) eru tvær ritgerðir sem ætlað er að varpa ljósi á bók­ mennta­­greinina í heild sinni og það tímabil í sögu Íslands og Evrópu sem sögurnar fjalla um. Ásdís Egilsdóttir birtir ritgerð sem nefnist Biskupasögur og helgar ævisögur, þar sem hún fjallar almennt um ævisögur dýrlinga, sérstaklega hinna íslensku. Síðan kemur rit­gerð eftir Guðrúnu Ásu Grímsdóttur sem hún nefnir Úr sögu kristni og kirkju í Norðurálfu 1000–1400. Fyrst stiklar höfundur á stóru í kirkjusögu Evrópu og fjallar síðan um ýmsa þætti íslenskrar kirkjusögu á fyrstu öldum kristni í landinu.

Á eftir þessum inngangsritgerðum koma síðan formálar fyrir sögum þeim sem prentaðar eru í síðara hluta. Er þar um að ræða þrjú meginverk: Kristni sögu, Kristni þætti og Jóns sögu helga. Útgefendur fjalla hver um sitt útgáfuverk á fræðilegan og þó alþýðlegan hátt. Sigurgeir Steingrímsson ritar um Kristni sögu, Ólafur Halldórsson um Kristni þætti og Peter Foote um Jóns sögu helga ásamt Gísls þætti og Sæmundar þætti. Ritgerðir þessar tengjast mjög hinum ítarlegu skýringum og athugasemdum sem birtar eru neðanmáls í síðara hluta.

Þá eru í Fræðum skammstafana- og heimildaskrá, páfa-, biskupa- og konungaraðir, ættaskrár og landakort yfir helstu staði sem um er getið í sögutextunum.


Kristni saga byggist á margvíslegum heimildum, en er þó samfelld heild með handbragði sjálfstæðs rithöfundar, samin um miðbik 13. aldar. Frumheimildin er hin gagnorða frásögn Íslendingabókar af kristniboði Þangbrands, kristnitökunni og fyrstu biskupunum í Skálholti fram til dauða Gissurar Ísleifssonar 1118. En mörgu er við bætt, meðal annars ítarlegum frá­ sögnum af fyrstu kristniboðunum, Þorvaldi víðförla og Friðreki biskupi, sem ekki eru hjá Ara. Kristni þætti er að finna á víð og dreif í Ólafs sögu Tryggvasonar hinni mestu sem sett var saman snemma á 14. öld. Kjarni hennar er saga konungsins í Heimskringlu Snorra Sturlusonar, en aukið við ýmsu efni úr öðrum heimildum. Ólafur Tryggvason „kom kristni í Norveg og á Ísland“ að sögn Ara fróða, og því þótti við hæfi að skjóta frásögnum af kristniboði og kristnitöku inn í sögu hans. Þær birtast nú sem sjálfstæð heild í fyrsta sinn undir fyrirsögninni Kristni þættir. Fyrst er þáttur um Þorvald víðförla og síðan þættir um kristniboðana Stefni Þorgilsson og Þangbrand. Þá eru sjálfstæðir þættir af ýmsum atburðum sem tengdust kristninni, og loks er sérstök frásögn af sjálfri kristnitökunni.


Jóns saga helga. Kristniboðið hófst á Norðurlandi, og í þessu bindi er birt saga fyrsta Hólabiskupsins, Jóns helga Ögmundarsonar (1106–1123). Jóns saga var snemma rituð á latínu af Gunnlaugi Leifssyni, munki á Þingeyrum (d. 1218 eða 1219), en er aðeins varðveitt á íslensku í þremur gerðum. Jóns saga ber mikinn keim af dýrlingasögum miðalda og er að ýmsu leyti sniðin eftir Þorláks sögu, en geymir jafnframt mikinn frumlegan fróðleik um ævi Jóns og afrek á biskupsstóli, meðal annars um hið merkilega skólahald hans á Hólum sem bar blómlega ávöxtu í bókmenntaiðju á Norðurlandi. Jón biskup var tekinn í heilagra manna tölu á alþingi árið 1200, og jarteinasögur hans veita skýra og skemmtilega sýn inn í líf fólks í biskupsdæmi hans á 13. öld. Að lokum eru prentaðir tveir þættir sem tengjast Jóns sögu: Gísls þáttur Illugasonar og Sæmundar þáttur.


Í Viðauka I er prentað niðurlag Kristni sögu eftir Skarðsárbók Landnámu, að sumu leyti upprunalegra en niðurlagið í aðalhandriti sögunnar. Í Viðauka II eru prentaðir kaflar um kristniboð Íslands og kristnitöku úr helstu heimildum öðrum en þeim sem prentaðar eru í heild sinni í þessu bindi.

Biskupa sögur II

Íslenzk fornrit XVI

Biskupa sögur II

6.214,- / 4.971,-

Biskupa sögur II

Íslenzk fornrit XVI

Hungurvaka er saga fimm fyrstu biskupanna í Skálholti, frá Ísleifi Gissurarsyni, sem vígður var biskup 1056, til Klængs Þorsteinssonar sem andaðist 1176. Nafnið er dregið af því að höfundur vill að ritið veki hungur ungra manna til meira fróðleiks. Hungurvaka er stórmerk heimild um sögu Íslands á þessu tímabili, rituð í upphafi 13. aldar. Hverjum biskupi er lýst með sínum sérkennum, en hæst ber Gissur Ísleifsson.


Þorláks sögur helga. Eftir Klæng var biskup í Skálholti Þorlákur Þórhallsson, fyrsti og máttugasti dýrlingur Íslands (d. 1193). Hann var tekinn í heilagra manna tölu á alþingi árið 1198 og bein hans grafin úr jörðu og borin í Skálholtskirkju 20. júlí. Saga Þorláks var rituð oftar en einu sinni, bæði á latínu og íslensku. Latínusögur eru aðeins varðveittar í brotum, en til eru tvær heillegar sögur á móðurmálinu, kallaðar Þorláks saga eldri og yngri, eða Þorláks saga A og B. Þorláks saga A hefur í öndverðu verið skrifuð laust eftir 1200, um svipað leyti sem Hungurvaka. Þorláks saga B er framan af mjög samhljóða Þorláks sögu A, en þegar á líður skiljast sögurnar, og munar mestu að Þorláks saga B hefur alllangan þátt um deilur Þorláks biskups við höfðingja um yfirráð yfir kirkjustöðum. Frásögn þessi er nefnd Oddaverja þáttur af því að helsti andstæðingur Þorláks var Jón Loftsson í Odda.


Jarteinabækur Þorláks helga. Jarteinabók Þorláks biskups hin elsta (Jarteinabók I) er varðveitt í mjög fornu handriti, og er talið að þar sé um að ræða lítt breytta þá jarteinabók sem eftirmaður Þorláks, Páll biskup Jónsson, lét lesa upp á alþingi 1199. Síðan bættust í sífellu við ný kraftaverk, og því eru varðveittar margar jarteinabækur Þorláks. Í þessu bindi er auk elstu jarteinabókar prentuð ein yngri gerð í heild sinni og brot úr nokkrum öðrum.


Páls saga biskups. Eftirmaður Þorláks á biskupsstóli í Skálholti var systursonur hans, Páll Jónsson (d. 1211). Páll var vel lærður maður og mikill kirkjuhöfðingi, og lýsir sagan vel framkvæmdum hans og ýmsum atburðum í landinu um hans daga. Páll lét gera steinkistu mikla sem hann var lagður í eftir dauða sinn. Þessi steinþró Páls biskups fannst við upp­ gröft í Skálholti 1954 með beinum hans og útskornum biskupsstaf.


Ísleifs þáttur biskups er stutt en skemmtileg frásögn af bónorðsför Ísleifs þegar hann fékk Döllu Þorvaldsdóttur frá Ásgeirsá í Víðidal. Að síðustu eru hér prentuð ævaforn brot sem varðveist hafa af latínusögum um Þorlák helga ásamt íslenskri þýðingu.

Biskupa sögur III

Íslenzk fornrit XVII

Biskupa sögur III

6.214,- / 4.971,-

Biskupa sögur III

Íslenzk fornrit XVII

Árna saga biskups segir af ævi og kirkjustjórn Árna Þorlákssonar sem stýrði Skálholts­ biskups­dæmi á tímabilinu 1269–98. Hann var fæddur að Svínafelli 1237 af ætt Síðumanna, nam fræði af Brandi Jónssyni ábóta í Þykkvabæ. Hann sá í Árna „mikinn atgervismann í hag­ leik og riti og hvassan í skilningi til bóknáms.“ Árni var konunghollur og vinur erki­biskups, því oft í förum milli Íslands og Noregs. Hann lést í Björgvin 17. apríl 1298. Saga hans nær til 1291, sögulok eru líklega týnd. Meginásar Árna sögu snúast annars vegar um deilur kirkju­valds og leikmannavalds á Íslandi um forræði á kirknaeignum, svokölluð staðamál síðari, og hins vegar um lögtöku Jónsbókar á alþingi 1281. Sagan er sögð af sjónarhóli klerkastéttar og vilhöll biskupi enda talin samin á öndverðri 14. öld af frænda hans og eftirmanni á Skálholtsstóli, Árna Helgasyni, sem var lærdómsmaður og gjörkunnugur mönn­ um og málefnum í biskupsdæminu. Heimildir sögunnar eru annálar og skjöl úr skjala­safni Skálholts auk frásagna samtíðarmanna Árna biskups. Sagan er varðveitt í handritum sem síðasti þáttur Sturlunga sögu og ber mörg sömu einkenni í skörpum mann­lýsingum og lifandi frásögnum af atburðum, en framsetning er þrungin guðfræðilegum skilningi á hlut­skipti manna. Árna saga er ein mikilvægasta heimild um norsk-íslensk stjórnmál þessa tímabils.


Lárentíus saga fjallar um ævi Lárentíusar Kálfssonar sem var biskup á Hólum 1323–30. Hún er varðveitt í tveimur norðlenskum skinnhandritum frá 16. öld og munar töluverðu í efnisvali, en stíll hvorstveggja er hinn sami, hlýr frásagnarstíll, auðugur af skopskyni. Sagan er sögð af lærisveini Lárentíusar og hollvini, Einari Hafliðasyni presti á Breiðabólstað í Vesturhópi 1344–93. Fyrst segir af æsku Lárentíusar og Noregsvist hans. Þar nam hann kirkjulög og þjónaði Ólafskirkju í Niðarósi, átti ástarævintýri og fyrir komu kátleg atvik, en jafnframt leið Lárentíus þrautir. Hann fór sendiför á vegum erkibiskups til eftirlits kristnihaldi á Íslandi, féll í ónáð Jörundar Hólabiskups, sigldi aftur til Noregs og var kastað í myrkva­ stofu. Andstreymi bar Lárentíus með þolinmæði, hann var settur aftur í skip til Íslands, fór síðan um og kenndi í klaustrum, gerðist klausturbróðir á Þingeyrum og hlaut loks biskups­ tign. Sagan er studd annálagreinum og skjölum og er samtíðarheimild um samskipti Íslendinga og Norðmanna, klausturlifnað, bókagerð, dansleiki, tónmennt, daglega hætti og stjórnsemi Hólabiskups.


Söguþáttur Jóns Halldórssonar biskups. Jón Halldórsson var af norskum ættum, skólaður í París og Bologna. Hann var biskup í Skálholti 1322–39. Þátturinn er varðveittur í miðaldahandritum sem geyma siðbætandi ævintýri eða skemmtunarsögur, en Jón biskup mun hafa samið dæmisögur og notað í predikunum. Jón biskup kemur við Lárentíus sögu og var vígslufaðir höfundar hennar. Þátturinn er í anda íslenskra biskupasagna; bregður birtu á ævi góðs manns öðrum til trúbótar.


Biskupa ættir skiptast í tvo þætti. Annar er samtíningur um ættir á norðanverðu Íslandi á 13. og 14. öld og koma sumir þar nefndir við Lárentíus sögu, aðrir við Árna sögu. Seinni þátturinn á efnislega samleið með Hungurvöku; þar eru taldir fimm fyrstu biskupar í Skálholti í tímaröð og gerð grein fyrir ætterni hvers þeirra (sbr. bls. 28). Þættirnir eru varðveittir í handriti frá 14. öld og segist ritari skrifa þennan ætthring „til þess að þeim er eftir oss koma verði kunnugur sinn áttbogi sér til skemmtanar og að eigi falli úr minni dýrra manna ættir.“

Borgfirðinga sögur

Íslenzk fornrit III

Borgfirðinga sögur

6.214,- / 4.971,-

Borgfirðinga sögur

Íslenzk fornrit III

Hænsa-Þóris saga greinir frá atburðum sem gerðust á árunum 961–65, en mun rituð seint á 13. öld. Hænsa-Þórir var maður óvinsæll sem auðgaðist af kaupskap, meðal annars sölu hænsna. Hann brennir inni ágætan höfðingja af litlu tilefni og hlýtur fyrir það makleg mála- gjöld. Sagan er snotur og vel sögð og efnið átakanlegt.


Gunnlaugs saga ormstungu er rituð seint á 13. öld. Hún hefst á spádraumi Þorsteins Egilssonar á Borg. Óborin dóttir hans, Helga hin fagra, birtist í drauminum sem væn álft, en ernir tveir berjast um hana með beittum klóm; þeir tákna skáldin Gunnlaug ormstungu og Hrafn Önundarson sem síðar berjast um ástir Helgu. Þetta er snilldarleg rómantísk harm­ saga sem hefur jafnan notið mikilla vinsælda bæði heima og erlendis.


Bjarnar saga Hítdælakappa líkist Gunnlaugs sögu að efni, en er miklu frumstæðari að list og mun rituð alllöngu áður. Hér eru það skáldin Björn Arngeirsson og Þórður Kolbeinsson sem keppa um ástir hinnar fögru Oddnýjar eykyndils. Sagan er höll Birni, en Þórður hreppir konuna og stendur að lokum yfir höfuðsvörðum andstæðingsins.


Heiðarvíga saga er að mörgu leyti frumstæð og fornleg enda oft talin elst allra Íslendingasagna. Fyrri hluti sögunnar hermir frá Víga-Styr, miklum ójafnaðarmanni sem fær makleg málagjöld er ungur sveinn vegur hann til hefnda eftir föður sinn. Í síðara hluta sögunnar segir frá ófriði milli Húnvetninga og Borgfirðinga og mikilli orrustu sem þeir háðu á heiðinni milli héraða. Sagan er illa varðveitt, og er fyrri hlutinn aðeins til í endursögn Jóns Ólafssonar úr Grunnavík.


Gísls þáttur Illugasonar greinir frá því hversu söguhetjan hefnir föður síns og vegur Gjafvald, hirðmann Magnúsar berfætts Noregskonungs. Íslendingar í Noregi styðja Gísl dyggilega undir forystu Teits, sonar Gissurar Skálholtsbiskups, og Jóns Ögmundarsonar er síðar var biskup á Hólum. Um síðir kemst Gísl í sátt við konunginn og skipar rúm Gjafvalds við hirðina. Þetta er fögur dæmisaga um dirfsku og staðfestu, drengskap og vináttu.

Brennu-Njáls saga

Íslenzk fornrit XII

Brennu-Njáls saga

6.214,- / 4.971,-

Brennu-Njáls saga

Íslenzk fornrit XII

UPPSELD

Brennu-Njáls saga (eða Njáls saga, Njála) er lengst og frægust allra Íslendingasagna. Hún gerist á 10. öld og í upphafi 11. aldar, en er færð í letur nær lokum 13. aldar. Milli atburða og ritunartíma eru um það bil þrjár aldir, og er þess því vart að vænta að sagan sé reist á sönnum munnmælasögnum, enda er almennt viðurkennt nú á dögum að hún sé fyrst og fremst mikið skáldverk.

Njála er verk rithöfundar sem er hugfrjór og sér vítt um veröld hverja. Hann lifir á mótum tveggja tímabila sögu og menningar, milli Sturlungastorms og konungskyrrðar, milli þjóðfrelsis og þegnhlýðni, milli norrænna fræðaþula og suðrænna riddara. Hann hefur þekkt og numið fjöld eldri bókmennta – sögur, fræðirit, kveðskap, ættartölur og lögbækur. Hann hagnýtir þessar bókmenntir til eftirbreytni og endursegir jafnvel úr þeim heila þætti, ekki til þess að setja saman sanna sögu, heldur til að fella hana inn í sögu þjóðarinnar, til að gefa sínu ýkjufulla verki yfirbragð sannfræðinnar og skapa unaðsfulla spennu milli raunsæis og öfga, sannleika og skáldskapar.

Njálu hefur verið líkt við litskrúðugan haustskóg, og einnig við þroskaðan ávöxt sem er sætur af því að hann er í þann veginn að skemmast. Sögunni hefur einnig verið líkt við mikið haf með öldum og ládeyðu til skipta. Í hverjum kafla er stígandi, ris og hnig, and­ stæðum einstaklingum og fylkingum lýstur saman, en eftir orrustuna kemur logn og kyrrð. Tveir atburðir eru átakamestir, víg Gunnars á Hlíðarenda og brenna Njáls og sona hans. Í brennunni rís sagan hæst, en síðan kemur langur lokaþáttur eftirmála og hefnda uns garparnir tveir sem uppi standa, Kári og Flosi, fallast í faðma að sögulokum og lesandinn stígur hreinsaður út úr eldskírn harmleiksins.

Óvíða í bókmenntum heimsins birtist þvílíkur fjöldi einstaklinga sem hafa sín sérkenni er greina þá frá öllum öðrum. Sumir eru hófstilltir, aðrir örlyndir; sumir blendnir í skapi, aðrir göfuglyndir; sumir auvirðilegir, aðrir ofurglæstir, og þó enginn svo bjartur yfirlitum að mynd hans skýrist ekki af nokkrum skuggum.

Njála hrífur barnshugann með sínu einfalda tungutaki og stórfenglegu viðburðum, en síðan getur þroskaður maður lesið söguna aftur og aftur og ávallt fundið þar nýja snilld og speki.

Danakonunga sögur

Íslenzk fornrit XXXV

Danakonunga sögur

6.214,- / 4.971,-

Danakonunga sögur

Íslenzk fornrit XXXV

Skjöldunga saga er aðeins varðveitt í latneskri þýðingu eða endursögn Arngríms lærða og að nokkru í Ynglinga sögu og Eddu Snorra Sturlusonar. Hún mun hafa verið rituð um 1200, brautryðjandaverk í íslenskri sagnaritun. Sagan hefur í samþjöppuðu máli greint frá niðjum Skjaldar sonar Óðins í rúma 20 ættliði til Gorms hins gamla á 10. öld. Talið er að svonefnt Sögubrot af fornkonungum sé leifar af yngri og lengri gerð Skjöldunga sögu.


Knýtlinga saga hefur rakið sögu Danakonunga frá grárri forneskju fram til Knúts Valdimars­ sonar (d. 1202), en upphafið er glatað, og hefst sagan nú með Haraldi Gormssyni á 10. öld. Sagan er rituð á síðara hluta 13. aldar, og hallast menn mjög að því að höfundur muni vera Ólafur hvítaskáld Þórðarson, bróðir Sturlu sagnaritara og bróðursonur Snorra. Í sögunni segir: „Með honum (þ.e. Valdimar konungi gamla) var Ólafur Þórðarson og nam að honum marga fræði, og hafði hann margar ágætlegar frásagnir frá honum.“ Höfundur Knýtlinga sögu styðst við ýmis dönsk sagnarit, beint og óbeint, meðal annars Danasögu Saxa hins málspaka. Einnig sækir hann margt til Heimskringlu, og ætlun hans hefur verið að rita heildar­sögu Danakonunga eins og Snorri hafði ritað sögu Noregskonunga. Höfundur ver langmestu rými í sögu Knúts helga (d. 1086), á sama hátt sem Snorri skrifaði lengstu söguna um Ólaf helga.


Ágrip af sögu Danakonunga er ættartala Danakonunga þar sem jafnframt er stiklað á helstu sögulegum atburðum, sem oft varða einnig sögu grannlanda eins og vænta má, einkum Noregs. Helstu heimildir eru danskir annálar og Knýtlinga saga. Ritið mun vera íslenskt að uppruna, og Bjarni Guðnason getur þess til að höfundur sé Sturla Þórðarson.

Eddukvæði I-II

Íslenzk fornrit

Eddukvæði I-II

12.957,- / 10.366,-

Eddukvæði I-II

Íslenzk fornrit

Eddukvæði eru flest varðveitt í einu litlu skinnhandriti frá 13. öld, sem venjulega er nefnt Konungsbók eddukvæða. Fáeinum kvæðum úr öðrum handritum er hér bætt við safnið eins og í flestum útgáfum svo að kvæðin eru alls 36. Eddukvæði vöktu athygli lærðra manna þegar Brynjólfur Sveinsson biskup í Skálholti eignaðist handritið á 17. öld. Hann sendi það síðan Danakonungi, og eftir að fyrstu kvæðin, Völuspá og Hávamál, voru gefin út með latneskum þýðingum 1665 urðu þau fræg um Evrópu. Síðan hafa eddukvæðin verið talin meðal gersema heimsbókmenntanna. Í þeim birtast skáldlegar sýnir, stórbrotin tilfinningaátök, djúp speki og hárbeitt skop í hnitmiðuðu en þó frjálslegu formi. Kvæðin eiga sér eldfornar rætur í trúarbrögðum norrænna þjóða og sögnum og kvæðum af hetjum allt frá öld þjóðflutninga. Varðveitta mynd hafa þau fengið á víkingaöld eða síðar.

Í fyrra bindi eru goðakvæði. Frægast þeirra er Völuspá um sköpun heimsins og tortímingu í ragnarökum. Hávamál eru lögð Óðni í munn og flytja einkum speki um líf í mannheimi. Önnur goðakvæði segja frá ævintýrum og átökum í goðheimum og eru oft gamansöm þótt ógn ragnaraka vofi yfir. Skírnismál segja eftirminnilega sögu um hvernig Freyr kemst yfir jötunmeyna Gerði með hótunum um ofbeldi, en Þrymskviða segir gamansögu um hvernig sjálfur Þór endur- heimtir hamar sinn frá jötnum með því að bregða sér í kvengervi.

Í síðara bindi eru hetjukvæði sem segja sögur af fornfrægum hetjum eins og Sigurði Fáfnis- bana, Brynhildi Buðladóttur, Guðrúnu Gjúkadóttur, frændliði þeirra og mágum. Hetjurnar eru glæstar og bera af öðrum, bæði konur og karlar, en heitar ástríður og ósveigjanleg sæmdarvitund steypa þeim í glötun. Meðal áhrifamestu og fornlegustu hetjukvæða er Atlakviða, sem segir frá því hvernig Atli Húnakonungur svíkur og drepur mága sína Gjúkasyni, en kona hans Guðrún hefnir þeirra svo grimmilega sem hugsast getur með því að drepa Atla og syni þeirra tvo.

Í þessari útgáfu er texti kvæðanna birtur orði til orðs eins og hann er í handritum, en stafsetning samræmd með þeim hætti sem tíðkast í útgáfum félagsins. Hverri vísu fylgja ræki- legar skýringar, og í yfirgripsmiklum formála er gerð grein fyrir efni kvæðanna og rótum þeirra í norðurevrópskri menningu. Einnig er fjallað um listræn einkenni hvers kvæðis.

Egils saga

Íslenzk fornrit II

Egils saga

6.214,- / 4.971,-

Egils saga

Íslenzk fornrit II

Egill var sonur landnámsmannsins Skalla-Gríms, höfðingi Borgfirðinga á tíundu öld, vopna­garpur og víkingur og mesta nafngreint skáld Íslands á fornum tímum. Honum er fylgt frá vöggu til grafar, og ævisaga hans er eitt ágætasta listaverk meðal íslenskra fornbókmennta. Sagan styðst við vísur og kvæði eftir Egil og vafalaust einnig við fornar munnmælasagnir, en höfundur sögunnar bætir einnig miklu við frá eigin brjósti. Fróðleikur og list, raunsæi og skáldskapur vega salt í réttu jafnvægi. Að þessu leyti svipar Egils sögu mjög til Heimskringlu, enda hefur þess fyrir löngu verið til getið að Snorri Sturluson sé höfundur beggja ritanna. Bent hefur verið á fjölmörg einkenni í stíl og orðavali sem sameiginleg eru báðum ritunum (og einnig Snorra-Eddu). Í báðum kemur fram sami hæfileiki til að bregða upp ljóslifandi myndum, og iðulega er teflt fram tveimur andstæðingum sem skiptast á skoð­unum eða þreyta kappræður. Höfundi tekst með einstakri snilli að flytja mál þess sem talar hverju sinni svo að áheyrandi hlýtur að snúast á hans band. Í öðrum fornsögum er hvergi að finna neitt sem líkist fortöluræðum Heimskringlu og Eglu eða stenst samjöfnuð við þær.

Egils saga er heimildarrit að hætti síns tíma, en jafnframt bókmenntaverk sem lýtur lögmálum listarinnar. Tvívegis lendir Egill í miklum þrengingum, en bjargast í bæði skiptin fyrir kraft skáldskapar síns. Fjandmenn hans, Eiríkur konungur blóðöx og Gunnhildur drottning, hyggjast taka líf hans í Jórvík, en þá leysir hann höfuð sitt með því að yrkja á einni nóttu tvítuga lofdrápu um konunginn. Og þegar hann sjálfur ætlar að svipta sig lífi eftir missi Böðvars sonar síns, fær Þorgerður dóttir hans talið hann á að yrkja erfikviðu, en við það mýkjast harmar hans og hann yrkir sig í sátt við guðina sem hafa rænt hann sonum sínum. Sonatorrek hefur varðveist með sögunni og er eitt hið máttugasta snilldarverk íslenskra ljóðbókmennta.

Egill Skalla-Grímsson er stórbrotnasti maður sem lýst er í íslenskum fornsögum og þótt víðar væri leitað. Hann er að ásýnd líkur föður sínum og föðurföður, mikill vexti, ófríður sýnum og snemma sköllóttur, og frá þeim erfir hann tröllskap og hamremmi. En undir niðri á hann einnig glæsileik Þórólfanna, bróður síns og föðurbróður. Undir feldi sínum dreymir hann um konuna vænu sem glæsimennið Þórólfur hefur áður átt – og fær hennar með tilstyrk vinarins. Óðinn hefur gefið honum íþrótt skáldskapar til að leysa höfuð sitt og til að huggast í hörmum eftir bróður og syni. Egill Skalla-Grímsson er mögnuð samsteypa af dýrslegum ruddaskap, mannlegri viðkvæmni og guðdómlegri andagift.

Íslensk fornrit

Skoða körfu “Orkneyinga saga” hefur verið bætt í vörukörfuna þína.

Showing 1–10 of 29 results