Um félagið

Elsta félag og bókaforlag á Íslandi

Hið íslenska bókmenntafélag var stofnað árið 1816 og hefur starfað óslitið síðan. Það tók við hlutverki Hins íslenzka lærdómslistafélags sem stofnað hafði verið 1779, en starfsemi þess lá niðri um þær mundir sem Bókmenntafélagið var stofnað. Voru félögin formlega sameinuð árið 1818. Þess eru fá dæmi meðal annarra þjóða og einsdæmi hér á landi að frjálst félag geti státað af slíkri hefð. Stofnun þess olli á sínum tíma þáttaskilum í viðhorfi manna til íslenskrar tungu og bókmennta síðari alda.

Forseti Hins íslenska bókmenntafélags er Ármann Jakobsson og varaforseti er Björg Thorarensen. Í fulltrúaráði sitja Reynir Axelsson, Auður Hauksdóttir, Björg Thorarensen, Þorsteinn Hilmarsson og  Snjólaug Ólafsdóttir og Salvör Nordal. Bókavörður félagsins er Kristján Garðarsson og rekstrarstjóri er Ólöf Dagný Óskarsdóttir.

Menntir og menning

Á öðrum áratug 19. aldar var svo komið að áhugi manna beindist allur að fornu máli og menningu Íslendinga, en hvorki var hirt um nútíð né framtíð, þannig að svo virtist sem íslenskan bættist senn í hóp hinna dauðu tungumála eins og t.d. engilsaxneska. Allt menntalíf og fræðastarfsemi stóð höllum fæti og bókaútgáfa var afar fátækleg. Við stofnun Bókmenntafélagsins varð gagnger breyting. Grundvallarstefna þess var að reisa við sjálfstæðar menntir og menningu á Íslandi undir forystu Íslendinga sjálfra, þannig að íslensk þjóðmenning yrði virkt afl í sókn þjóðarinnar til andlegra og efnalegra framfara.

Fyrstu skrefin

Bókmenntafélagið hófst þegar á fyrsta starfsári handa um útgáfu bóka og tímarita og hefur sú starfsemi verið meginviðfangsefni þess síðan. Sturlunga saga var fyrsta ritið, en Árbækur Espólíns fylgdu eftir og með þeim eignaðist þjóðin í fyrsta sinn samfellda sögu sína. Jafnframt var hafin útgáfa tímaritsins Íslenzk sagnablöð og síðar Skírnis sem hefur komið út síðan 1827 og er elst tímarita á Norðurlöndum. Þessi útgáfa er nokkuð táknræn fyrir stefnu félagsins – annars vegar að treysta böndin til fortíðar og hins vegar að veita erlendum straumum til landsins og laga þá að hefðum og hugsunarhætti Íslendinga. Skírnir var framan af fréttamiðill, en fékk síðar hlutverk bókmennta- og fræðatímarits.

Sjálfstæðisbaráttan – skerfur Bókmenntafélagsins

Með starfsemi sinni átti félagið drjúgan þátt í að undirbúa jarðveginn fyrir sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar sem talin er hefjast 1831, en þá hafði félagið starfað í 15 ár, tengt þjóðina fastari böndum við sögu sína en áður hafði verið gert og miðlað erlendum menningarstraumum til þjóðarinnar. Hefur þessu hlutverki félagsins verið minni gaumur gefinn en skyldi.

Fræðafélag – brautryðjandinn

Bókmenntafélagið er fræðafélag og hefur, auk bókaútgáfu, sinnt margs konar annarri vísinda- og fræðastarfsemi. Það hafði forgöngu um mælingu Íslands og útgáfu fyrsta uppdráttar landsins sem telja má nokkurn veginn réttan og kenndur er við Björn Gunnlaugsson. Það annaðist veðurathuganir fyrir Vísindafélagið danska, lét safna efni í mikla Íslandslýsingu sem var að vísu aldrei gefin út, en efnissöfnun þessi hefur þó síðar komið að drjúgu gagni. Það hafði forgöngu um stofnun Landsbókasafns Íslands árið 1818 og kom upp miklu handritasafni sem nú er varðveitt á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Þá hafði félagið frumkvæði að útgáfu sögulegra heimilda síðari alda, m.a. með því að hrinda af stað útgáfu Íslenzks fornbréfasafns, frumkvæði að útgáfu laga með ritröðinni Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands og hagskýrslna með útgáfu Skýrslna um landshagi á Íslandi. Hér er aðeins stiklað á stóru um verkefni félagsins á síðustu öld og í byrjun þessarar. Um miðja öldina dró nokkuð úr starfsemi félagsins, en upp úr 1970 tók hún að eflast að nýju. Skal nú gerð nokkur grein fyrir henni, en hún hefur eingöngu verið bundin við bókaútgáfu. Bækur félagsins hafa fjallað um bókmenntir, listir, skáldskap, hagfræði, lögfræði, sálfræði, sagnfræði og fornleifafræði, og ekki má gleyma einum viðamesta og þekktasta flokki bóka, Lærdómsrita Bókmenntafélagsins, auk útgáfu Skírnis.

Til styrktar íslenskri menningu

Umræður um viðgang íslenskrar tungu eru einatt á þann veg að lýst er áhyggjum af framtíð hennar. Með útgáfustarfi sínu leitast Bókmenntafélagið við að leggja fram ofurlítinn skerf til viðhalds tungunni og styrktar íslenskri menningarhefð á sviðum sem aðrir útgefendur sinna lítt eða ekki, enda ekki á markaðinn að treysta. Hér er á hinn bóginn verið að hugsa til fjarlægari framtíðar. Útgáfa markverðra fræðirita á mjög á brattann að sækja vegna yfirþyrmandi framboðs á afþreyingarefni, þ.á m. í bókum, blöðum og tímaritum og annars konar margmiðlun.

Bókmenntafélagið biður þá sem þetta lesa að íhuga hvernig umhorfs yrði ef útgáfa íslenskra fræðirita legðist af eða verulega drægi úr henni. Jafnframt skal minnt á að í öllum nálægum löndum er útgáfa vandaðra fræðirita styrkt veglega.

Bókmenntafélagið öllum opið

Bókmenntafélagið er ekki eingöngu öllum opið, hvar í stétt sem menn standa, heldur eru allir velkomnir sem styðja vilja þau markmið sem félagið vinnur að – útgáfu markverðra fræðirita á sem flestum sviðum. Félagsmenn eru jafnframt áskrifendur að Skírni – Tímariti Hins íslenska bókmenntafélags– sem kemur út tvisvar á ári, vor og haust. Árgjald greiðist við útkomu hvors heftis, um 4.990 krónur, eða samtals um 9.980 krónur á ári. Skírnir er tvímælalaust eitt þekktasta og virtasta tímarit Íslendinga og fá rit sem oftar er vitnað til í fræðilegri umræðu, en það gerir jafnframt nokkrar kröfur til lesenda sinna. Jafnframt fá félagsmenn 25% afslátt af verði rita félagsins, eins og það birtist í verðskrá – aðrir fá 10% afslátt.

Stuðningur félagsmanna

Mikil nauðsyn er að félagsmönnum fjölgi til þess að haldið verði uppi viðunanlegri útgáfu bóka og staða Skírnis styrkist. Vonandi telja félagsmenn sig hafa sitthvað til félagsins að sækja en mega jafnframt líta á sig sem styrktarmenn Skírnis og annarrar útgáfustarfsemi.